Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. maí, 2018


Hin sælu segulbönd


Kassettan eða hljómsnældan hefur verið að koma giska sterk inn á útgáfumarkaðinn að undanförnu, einkanlega þó í neðanjarðarkreðsum.

Fyrir ellefu árum ræddi ég við tónlistarmennina Loga Höskuldsson og Þórð Hermannsson en þeir stóðu þá í kassettuútgáfu. Formið var þá svo gott sem horfið hérlendis upp á útgáfu að gera og tiltæki þeirra einsdæmi. Fyrir fjórum árum skrifaði ég aðra grein, en þá var kassettan farin að ryðja sér til rúms sem útgáfuform á nýjan leik, á svipaðan hátt og vínyllinn, en þó í mun minni mæli. Þegar ég sting penna niður nú (eða þrýsti fingrum á lyklaborð) er kassettan svo gott sem orðin fasti í ákveðnum undirgeirum tónlistarinnar. Hún er þá líka, í æ fleiri tilfellum, að verða partur af útgáfu stærri fyrirtækja. Maður er farinn að sjá setninguna „LP/CD/MC“ í útgáfutilkynningum, líkt og algengt var fyrir kvartöld síðan. Lana Del Rey er t.d. einn vinsældatónlistamaðurinn sem hefur nýtt sér formið. Þess ber þó að geta að þessi endurkoma á við um Vesturlönd, í þróunarríkjum t.d. er formið ennþá ansi algengt.

Ég spurði Gest Baldursson, kassettuáhugamann og starfsmann hjá Lucky Records, aðeins út í þetta mál, en Gestur er mikill áhugamaður um formið og hefur m.a. skráð hjá sér alla íslenska tónlist sem komið hefur út á kassettum frá upphafi.

Um vinsældir formsins í dag hafði hann þetta að segja: „Þessi vaxandi gróska virðist haldast í hendur við vínylinn. Að einhverju leyti er þetta mótspyrna við streyminu og stafrænu þróuninni. Kassettan er og hefur alltaf verið uppáhalds fasta formið mitt utanum tónlist og kostir formsins eru ótvíræðir, kassettan er lítil og létt, handhæg og hljómgæði yfirleitt mjög mikil. Hún er ódýr í innkaupum og framleiðslu og ekkert lágmark er sett á eintakafjölda hjá framleiðslufyrirtækjum. Svo það er sáraeinfalt, fljótlegt, þægilegt og mjög ódýrt fyrir unga tónlistarmenn hér heima að henda í 5, 20 eða 50 kassettur og gefa út.“

Íslensk merki sem hafa helst staðið í kassettuútgáfum eru Vánagandr, Myrkfælni, Oration, LadyBoy Records, Óreiða og FALK. Stefnur sem helst hafa verið að koma út á segulböndum eru svartþungarokk, tilraunakennd raftónlist og neðanjarðartónlist af ýmsum toga.

Ég ræddi einnig lítillega við Trausta Júlíusson, tónlistarspekúlant með meiru, sem benti á að í dag væri þetta form, þ.e. nútímaútgáfa á kassettum, fyrst og síðast bundið við jaðarinn. „Þetta er nördaformat, algjörlega „mainstream“-frítt. Bolurinn mun aldrei messa neitt í þessu…“

Og þannig standa þá mál. Ég var nánast búinn að gleyma þessu formi er líða tók á tíunda áratuginn og verð að viðurkenna að ég leit það aldrei sömu fagurfræðilegu augum og ég leit minn elskaða vínyl. Fyrir mér var kassettan fyrst og fremst praktískt form, gott til að taka upp á úr útvarpinu eða afrita tónlist frá vinum og svo gáfu hljómsveitir efni sitt út svona, með ljósrituðum umslögum. Smá ást til þessara krúttlegu fyrirbæra er þó farin að bærast í brjóstinu, líkast til vegna stemningarinnar sem maður finnur og kannski út af einhverri fortíðarþrá sem leggst á okkur sem erum tekin að reskjast. Maður er orðinn alveg snælduvitlaus, sei sei já…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: