Image result for enekk
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. apríl, 2018

Fegurðin ein

Ver sterk mín sál með færeysku sveitinni Enekk er eitt mesta tónlistarafrek sem unnið hefur verið í eyjunum.

Vel heppnuð heimsókn til Færeyja á dögunum æsti upp í mér margs konar nálganir við tónlistarlífið þar, sem er bæði líkt og ólíkt því íslenska. Þetta er fjórði pistillinn sem ég rita upp úr þessari bústnu helgarreisu og sá síðasti. Í bili. Ég hef stundum furðað mig á tiltölulega litlu tónlistarlegu flæði milli þessara bræðra- og systraþjóða en samt er þó eins og straumurinn sé að verða greiðari í báðar áttir. Og vert að geta þess að Kristian Blak, tónlistargúru eyjanna, heldur einmitt tónleika í kvöld í Norræna húsinu með Yggdrasil, fjölsnærðu verkefni sínu sem tekur á sig ýmsar myndir. Í kvöld leika með honum hin síberíska Vera Kondrateva, okkar eigin Guðni Franzson og svo landi hans Heðin Ziska Davidsen.

En ég ætlaði ekki að skrifa um Blak hér (gerði það fyrir nokkrum vikum) heldur aðra færeyska sveit sem er ekki síður virt og dáð. Þjóðlagasveitin Enekk gaf út nokkrar plötur og ólíkar á tíunda áratugnum og þeim fyrsta. Eyjarnar fóru á hausinn árið 1992, sex þúsund manns flúðu land og bölmóður og volæði fylgdi eðlilega í kjölfarið. En – svo fór listalífið í gang, betur en nokkurn tímann fyrr. Myndlistarmenn blómstruðu og tónlistin hreinlega streymdi úr fólkinu. Enekk var hluti af þessari bylgju, söng á færeysku og átti eftir að hafa mikil áhrif á yngri tónlistarmenn sem áttu eftir að umbylta tónlistarmenningunni þar um og uppúr 2000.

Ver sterk mín sál er ein þessara platna, plata sem ég hef lofað í ræðu og riti allt frá því ég heyrði verkið fyrst en komst að því, eftir heimsóknina, að ég hef aldrei skrifað um hana á opinberum vettvangi fyrr. Platan inniheldur lög við ljóð Janus Djurhuus, sem var fyrsta nútímaljóðskáld eyjanna. Tónlistin er einhvers staðar á milli djass og þjóðlagatónlistar en ljóðin syngur Kári Sverrisson, leiðtogi sveitarinnar. Eini tilgangur þessara skrifa er í raun sá að hvetja þig, tónlistarunnandi góður, til að hlusta á verkið og nema þá snilld sem þar er að finna (platan er á Spotify en einnig er hægt að kaupa hana frá Tutl eða á Amazon). Þessi plata er einfaldlega á einverju öðru plani, snert af almættinu ef svo má segja. Söngur Kára er ólýsanlegur, svo ótrúlega fallegur og næmur að mann setur hljóðan. Líkt er með spilamennskuna og upptakan er svo hljóðbær að maður heyrir skrjáfið í stólunum. Punkturinn yfir i-ið eru svo nístandi ljóð Djurhuus sem fara inn að kjarna hins mannlega; full af fegurð, von og birtu en einnig vonleysi og myrkri. Það er allt rófið þarna. Algerlega ótrúlegt verk og í raun ekki hægt að koma orðum að kynngimagninu þarna, þó hér fari aum tilraun til þess.

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: