Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. maí, 2017

Innrásin mikla

Það er alltaf verið að búa til tónlist á landi elds og ísa, það vantar ekki, þótt sumt fari lægra en annað. Nú eru til að mynda átta verk komin út eftir gæðasveitina Konsulat. Einmitt, það er von að þú spyrjir…

Síðasta haust kom út platan Invaders með Konsulat, sveit sem ég vissi ekkert um þá en innihaldið fékk eyrun til að sperrast. Merkileg sambræðsla af Morricone-lögðum eyðimerkurstemningum, súrkálsrokki í anda Neu! og evrópskri, ambientskotinni raftónlist sem var giska áberandi í upphafi níunda áratugarins. Allt þetta sem ég nefni situr eitthvað svo eðlilega saman og tónlistin flæðir óheft áfram.

Ég fór að rannsaka, eðlilega, og í ljós kom að þeir félagar Kolbeinn Soffíuson og Þórður Grímsson standa að verkefninu. Í stuttu vefspjalli við Kolbein kom í ljós að Konsulat var áður a & s sounds sem gaf út sína fyrstu plötu í janúar 2015 (allar útgáfur félaganna er að finna á bandcamp, alls átta talsins). Undir nafninu a & e sounds kom einnig út tónleikaplata sem tekin var upp í Listasafni Reykjavíkur og svo breiðskífa sem er líka fáanleg sem forláta vínylplata.

Framleiðnin hélt óheft áfram, stuttskífan Parametric Audio kom út í janúar 2016 og um haustið kom platan Russian Sounds, einnig stuttskífa, út þar sem hið dásamlega verkefni Russian.girls var innviklað (sólóverkefni Guðlaugs Halldórs Einarssonar úr Fufanu). Invaders var fyrsta platan þar sem búið var að breyta nafninu í Konsulat en eftir það hafa tvær stuttskífur komið út, Teque Etiquette kom í desember síðastliðnum og Ormhole í liðnum febrúar. Frá og með Invaders og nafnbreytingunni í Konsulat varð Arnljótur Sigurðsson svo fastur meðlimur í sveitinni.

Ekki er þá allt upptalið en deili-sjötomma ásamt Skröttum kom út undir röðinni Bónus plötur fyrir stuttu, í 30 eintökum (umslagshönnunin er til heiðurs Bónusskóm, sem var í sama húsnæði og Kaffi Vínyl sem stendur að röðinni).

Eins og segir, allt efnið, og mæli ég hiklaust með því öllu saman, liggur á bandcamp þar sem hægt er að hlusta á og styrkja sveitina. Öll listræn hönnun í kringum útgáfurnar er þá til mikillar fyrirmyndar, þetta er stíliserað og flott. Tónlistarútgáfa færist æ meir í stafrænar áttir og radarinn þarf að vera vera vel stilltur, tónlistin bókstaflega flæðir inn á netið. Kosturinn er náttúrlega tvímælalaust sá að óvíst er að Konsulat hefði náð að koma svo miklu af efni út í kosmósinn, hefði þurft að flækjast í gegnum útgefendur, plötupressur og þess háttar.

Í vefspjallinu við Kolbein spurði ég hverju þessi mikla framleiðsla sætti. „Ég hugsa að ástæðan sé sú að margir koma að þessu verkefni á einn eða annan hátt og því hefur myndast gott flæði á þessu,“ var svarið: „Til dæmis voru þeir Guðlaugur, Kári Guðmundsson og Orri Einarsson með okkur í a & e sounds og síðustu tvær stuttskífur hafa á vissan hátt verið þeim til heiðurs. Þórður og Gulli unnu t.d. Teque Etiquette-plötuna saman. Orri prýðir umslagið á Ormhole-plötunni og Kári verður á næstu. Mestallt efnið hefur verið tekið upp í stúdíóinu okkar á Skúlagötu og svo sjáum við líka um alla eftirvinnslu sjálfir. Þannig að DIY-parturinn á örugglega stóran þátt í þessu.“

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: