Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. júlí, 2023

Ólæknandi ástríða

Síðasta hljóðversplata Maus, Musick, kom út fyrir tuttugu árum síðan. Endurútgáfa á vínyl kom í búðir í gær og í kvöld leikur sveitin á Bræðslunni.

Sumir hlutir vaxa innra með manni eftir því sem frá dregur. Verða betri, þéttari, sannari, heilli. Virðið hreinlega blasir við manni á, ja, efri árum getum við sagt.

Nú er það orðið augljóst að Maus er með helstu rokksveitum Íslandssögunnar. Ferillinn, bæði spilunarlega og útgáfulega – fimm breiðskífur á nærfellt tíu árum – er flekklaus. Frumburðurinn, Allar kenningar heimsins … og ögn meira (1994) er sprúðlandi af ástríðu, lífi og sál, fjórir piltar langt innan við tvítugt spilandi nýbylgjurokk eins og þeir eigi lífið að leysa. Þeir sýndu svo djörfung og þor á næstu plötu, Ghostsongs (1995), sem var þyngri og tormeltari en sveitin á sama tíma á fleygiferð þróunarlega. Þriðja platan, Lof mér að falla að þínu eyra (1997) bræddi síðan glæsilega saman framsækni og aðgengilegheit, markviss skref tekin inn á aðgengilegri brautir án þess að þumlungur væri eftir gefinn hvað listræn heilindi varðar. Í þessi sekúndubrot sem ég flýt (1999) var svo rökrétt framhald af þessum glæsitilþrifum, þroskað og gegnheilt verk og meðlimir einhvern veginn orðnir hoknir af reynslu þó þeir væru þannig lagað rétt komnir yfir tvítugt. Í minningunni kom Musick svo út eftir langt hlé þó að árin væru bara fjögur.

Maus hefur komið saman annað slagið undanfarin ár enda djúp og innileg vinátta á milli meðlima. Þannig fara þeir á svið í kvöld á Bræðslunni, þeirri vinsælu hátíð, og í gær kom Musick út á vínyl en Í þessi sekúndubrot … og Lof mér að falla … hafa einnig verið gefnar út á því formi, árin 2017 og 2019. Musick liggur nálægt hjarta meðlima („Besta plata Maus,“ segir Biggi, söngvari, á Fjasbókarveggnum sínum) og sterk er hún sannarlega, afkvæmi vel sjóaðrar sveitar – langt fyrir aldur fram – sem flíkar öllu sínu besta. Flugeldasýning en á sama tíma er allt svo pottþétt eitthvað og „zen“-að. Ívar Páll Jónsson sagði í dómi í Morgunblaðinu á sínum tíma: „Þrátt fyrir að liðsmenn séu ekki aldnir að árum er sveitin rúmlega tíu ára gömul og hefur verið alveg einstaklega dugleg allan þennan tíma; við spilamennsku og útgáfu.“ Um plötuna segir Ívar: „Þar er varla veikan blett að finna og í raun er varla hægt að segja að nokkurt laganna standi upp úr, enda eru þau öll í háum gæðaflokki … Hljómsveitin er þétt sem fyrr, enda hefur hún verið þekkt sem ein allra kraftmesta og samhentasta sveit landsins.“ Og svo allt sé uppi á borðum, hér er verið að vísa í snilldartrommuleik orkuhússins Daníels Þorsteinssonar, gítarlykkjur Páls Ragnars Pálssonar, grimman og þéttan bassaleik Eggerts Gíslasonar og svo tilfinningaþrunginn, beittan söng Birgis Arnars Steinarssonar.

Í viðtali við Ingu Rún Sigurðardóttur sumarið 2003, einnig fyrir þetta blað og í aðdraganda plötunnar, sagði Birgir/Biggi: „Á þessu ferli stundar maður mikla sjálfsskoðun. Maður eyðir tveimur árum í bílskúrnum með þremur strákum og fer að hugsa – af hverju er ég að þessu? Og maður kemst að því að þetta er þess virði því það gefur manni það mikið til baka. Musick er orð yfir það. Þetta er eins og ólæknandi veira sem drífur mann áfram. Einhver hvöt, maður verður að halda áfram.“

Persónulega get ég tekið undir hvert einasta orð hérna, þó ekki hafi ég stundað hljómsveitarlíf af miklum krafti (var reyndar í hljómsveit með trommaranum en það er önnu saga). Virðið blasti við Bigga fyrir tuttugu árum, rétt eins og það gerir í mínum huga núna. Tónlist skiptir máli, Maus skiptir máli og áminningar eins og þessar eru vel þegnar. Alltaf.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: