medalltahreinu

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. ágúst, 2016

„Inn-út-inn-inn-út“

Kvikmyndin sígilda Með allt á hreinu var sýnd fyrir stuttu í sjónvarpinu auk heimildarmyndar um gerð hennar. Ef eitthvað er, eflist myndin með hverju ári, en hvernig sjá þeir sem skópu snilldina þetta?

Tilefni þessara skrifa er ákveðin pæling sem laust í kollinn á mér eftir að hafa lesið Fésbókarfærslu eftir Valgeir Guðjónsson. Hann hafði þá horft á myndina, eins og margir landsmenn aðrir, og reit svo þann 17. júní síðastliðinn: „Ég horfði á Með allt á hreinu í heild í fyrsta sinn í nokkra áratugi, hún var betri en ég hélt…“

Þessi hófstillta athugasemd kallaði fram viðbrögð frá rúmlega 600 manns og margir skrifuðu athugasemdir þar sem lofi var ausið á myndina í gríð og erg. Og það ekki að ósekju. Ég – eins og svo margir – kann þessa mynd aftur á bak og áfram og það er eins og það sé ekki mögulegt að verða leiður á þessari mynd. Það er eitthvað í uppbyggingunni sem gerir að verkum að maður getur alltaf horft í einni striklotu. Það er ekkert atriði of langt eða miður og uppáhöldin skiptast á (akkúrat núna er ég hrifnastur af atriðinu þar sem Egill gengur einn, gamall maður, og syngur um örlög sín á meðan hann stillir brostinn streng. Snilld; harmrænt og fyndið í senn).

Myndin er sígild. Stelpurnar mínar (9 og 11 ára) kunna hana líka utan að. Og eins og með alvöru listaverk þá finnst mér hún vaxa og stækka eftir því sem frá líður. Það er einfaldlega einhver óútskýranlegur galdur þarna.

En nóg um dásemdir myndarinnar, aftur að því sem rak mig að þessum tilteknu skrifum. Það er þessi hógværa athugasemd Valgeirs og ég trúi því ekki að þetta sé gervihógværð. Hann er að segja satt. Engu að síður langar mann til að stökkva á hann, taka utan um axlirnar á honum, hrista hann og eiginlega öskra: „Hvað meinarðu maður! Þetta er besta mynd sem nokkru sinni hefur verið gerð!!“

Eðlilega eigum við, þau sem neyta og njóta, í raun auðveldara með að greina, sjá og meta gildið í listaverkunum. Þeir sem skapa þau eru venjulega í þeim miðjum og eiga örðugt með að greina hvað er gott og hvað ekki og hvort þetta skipti yfirhöfuð máli. Ein kenning væri sú að gildi listaverkanna komi utan frá. Alveg sama hversu handvissir Bítlarnir voru um að þetta eða hitt væri snilld, á endanum erum það við sem gefum grænt ljós eður ei. En svo má líka halda því fram að gildið sé í hlutnum sem slíkum, ekki utan við hann, en förum ekki of langt út í frumspekina á þessum ljúfa laugardegi.

Viv Albertine, eitt sinn meðlimur í kvennapönksveitinni Slits, talaði á líkan hátt og Valgeir um sveit sína, virtist í alvörunni ekki sjá hversu mikilvæga rullu sú stórkostlega sveit spilaði í þróun og hugmyndafræði feminísks popps og rokks. Fegurðin er í auga sjáendanna sem sagt.

Þannig að, Valgeir, ef þú ert að lesa: Þú mátt stoltur vera af meistaraverkinu. Það máttu hafa frá „okkur“.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: