Purrkur Pillnikk anno 2023 Bragi Ólafsson, Sigtryggur Baldursson,
Friðrik Erlingsson, Einar Örn Benediktsson.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. desember.

Að gera eða geta, þar er efinn

Orð fyrir dauða er glæsilegur safnkassi sem nær yfir magnaðan feril pönksveitarinnar Purrks Pillnikks. Innihaldið er fimm vínilplötur ásamt ríkulega myndskreyttum og upplýsandi bæklingi.

„Googooplex“ heyrði ég stóru strákana segja þegar ég var úti að leika í austurbæ Kópavogs átta ára gamall. Fannst þetta flott nafn og vissi að þetta hafði eitthvað að gera með pönk. Lengra komst ég ekki í bili. En þetta hljómaði spennandi. Hættulegt og framandi á sama tíma.

Rúmlega fjörutíu árum síðar sit ég í stofunni með kassann góða fyrir framan mig og hlusta á Ekki enn (EhgjI En:). Munda „pennann“ og baða mig upp úr boxinu. Kassinn er gerðarlegur, munnvætandi eiginlega, og vínilplöturnar eru fimm. Sú fyrsta inniheldur nýjar upptökur frá 2023, Orð fyrir dauða svítuna (sem var flutt árið 1982 á lokatónleikum sveitarinnar á Melarokki) og endurhljóðritanir á fjórum lögum, eins lags stuttskífa sem ber heitið Afturgöngur. Hér er líka Tilf, tíu laga sjötomman sem var fyrsta útgáfa Purrksins, og No time to think, fjögurra laga sjötomman sem innihélt síðustu hljóðversupptökur félagana. Í bili.

Ekki enn, Googooplex og Maskínan fylla vínil 2,3 og 4. Maskínan er þá með aukalögum sem hafa aldrei komið út opinberlega áður. Sá fimmti kallast svo Lifandi og inniheldur tónleikaupptökur frá 1981 og 1985. Allt efnið hefur verið endurhljómjafnað, plöturnar eru 180 g og í sérstökum umslögum sem eru tilbrigði við þau upprunalegu. Þá er hér bústinn bæklingur með alls kyns skrifum um sveitina, bæði eftir meðlimi og aðra og spannar fólkið vítt aldursbil. Sjón ræðir t.d. um textagerð Einars Arnar, Bragi fer í sögu sveitarinnar, upprunalegir meðlimir minnast fallins félaga, trymbilsins Ásgeirs Ragnars Bragasonar, og fleira er rakið frá ýmsum sjónarhornum og af ýmsum aðilum. Allir textar hljómsveitarinnar eru í fyrsta sinn prentaðir í heild og fjöldi mynda fylgir sömuleiðis.

Tónlistin? Hún er í einu og öllu stórkostleg. Purrkurinn lifði í um eitt og hálft ár, spilaði á fullu og dældi út plötum sem gera mann orðlausan í endurliti. Tónlistin er áköf. Ástríðufull, skemmtileg, svöl, skrítin. En umfram allt: hún er lifandi. Þú heyrir lífsgleðina, ákefðina og óþolinmæðina við það að koma þessu frá sér, núna, því að annars hefðu menn hreinlega sprungið úr alltumlykjandi sköpunarþrótti. Ég eignaðist áðurnefnda GooGooplex um síðir, á að giska sjö árum eftir útgáfu, er ég var fimmtán ára. Hana þekki ég best, ég þekki hana inn og út reyndar (og það er skrítið að hlusta á hana á einum vínil). Þarna var bandið orðið þéttara en um leið tilraunaglaðara. Öruggara. Meira síðpönk (sjá „Vinir mínir“). Ég elska þessa plötu, eins og sveitina sjálfa (ég hef aldrei ekki fengið gæsahúð þegar ég sé hana spila í Rokk í Reykjavík).

Purrkurinn lék tvenna tónleika í upphafi mánaðar og það var mögnuð upplifun. Mögnuð. Smekkleysubúðin á Hverfisgötu var gjörsamlega pökkuð og helgistund var þetta. Kraftbirtingarmáttur tónlistarinnar og sameiningarafl hennar sannað í milljónasta sinn. Bandið var þétt, gott og öruggt. Það var þægileg orka á milli meðlimanna fjögurra og allir með. Töfrar þessara höfðingja flutu svo um salinn, sem samanstóð af fólki sem upplifði Purrkinn í rauntíma, svo minni kynslóð sem var aðeins of sein og svo slatta af kornungu fólki, fæddu eitthvað eftir 2000. Öll sem eitt vorum við dáleidd.

Ég var ekki svo heppinn að fæðast 1964 og upplifa pönkið. Nei, ég fæddist 1974 og fékk Ghostbusters og „The Heat is On“ með Glenn Frey beint í æð. En þetta er MÍN tónlist, hún á hjarta mitt og hefur alltaf átt. Alger grunnstaða míns tónlistarlífs. Að gera eða geta, er efi? Ekki í mínum huga. Má ég biðja um gerninga og virkni á hverjum degi. Óhamda, snilldarlega, ófullkomna. Úthugsaða og lítt hugsaða. Megi allt streyma fram í þeirri náttúrulegu sköpunargleði sem við öll búum yfir. Að geta? Það er bara fyrir einhver mælitól sem tröll mega hirða.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: