O.K. D.G. fer hamförum á sviðinu á Roadburn Festival 2018.
— Ljósmynd/Niels Vinck.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. september, 2023.

Tólf sólir svartar

Sól án varma er verkefni nokkurra íslenskra svartmálmslistamanna sem var pantað sérstaklega af þungarokkshátíðinni Roadburn Festival og flutt árið 2018. Í ár leit það svo loksins dagsins ljós í föstu formi.

Verkið sem um ræðir er alls 70 mínútur að lengd og var leitt af þeim T.Í. og D.G. (Misþyrming, Naðra, Núll, Drottinn o.fl.). Verkið var spilað á Roadburn Festival árið 2018 en hugmyndin að því kviknaði í samræðum á milli þeirra félaga og hátíðarstjórans Walters Hoeijmakers en Misþyrming hafði verið sérstakur gestur á hátíðinni síðustu tvö árin þar á undan. T.Í. og D.G. fengu ýmsa mektaraðila úr íslensku svartmálmssenunni til liðs við sig til að verkið myndi nú raungerast en þeir sem að því koma einnig eru þeir G.E. (Misþyrming, Naðra, Svartidauði), Á.B.Z. (Carpe Noctem, Árstíðir Lífsins), M.S. (Svartidauði, Drottinn), S.V. (Svartidauði, Drottinn) og H.V. (Wormlust).

Alls börðu þrjú þúsund manns þennan hóp augum á hátíðinni og mikið var um dýrðir á sviðinu (sjá mynd). Ári eftir tónleikana ákvað hópurinn að koma tónlistinni á fast form og var hún hljóðrituð að mestu á fimm vikna tímabili. Eðlilegar tafir urðu svo þar sem sinna þurfti meginsveitum meðlima og svo brast á með heimsfaraldri. Það sakaði ekki, síður en svo reyndar, og platan var kláruð í desember 2020. Hljóðblöndun og hljómjöfnun fór svo fram 2021 og var það Jaime Gomez Arellano sem um það sá. Útgáfa varð svo í apríl á þessu ári, í gegnum Ván Records, og er Sól án varma til sem vínyll og geisladiskur auk þess sem hún er hýst á hinum ýmsu stafrænu vettvöngum.

Tónlistin er mikilúðleg. Verkinu er skipt upp í tólf hluta sem bera nöfnin „Afbrigði I“, „Afbrigði II“ o.s.frv. Ég heyri í sumum þessara sveita sem nefndar hafa verið í gegnum verkið enda færir hver og einn af þeim sjö sem á sviðinu stóðu eðlilega eitthvað af sínu listfengi til borðsins. Hlutföllin eru eðlileg og falleg finnst mér, nálgun hvers og eins mismunandi en allt fellur þetta samt saman og gengur upp. Verkinu er aldrei hleypt fullkomlega í garg og geðveiki, spretti sem vissulega er hægt að finna í sumum þessara sveita, þráðurinn út í gegn er miklu frekar epískur og „stór“, strengir og kórar á köflum meira að segja.

Þannig hefst verkið á temmilega rólegum nótum ef hægt er að kalla þessa tónlist á einhvern hátt „rólega“. „Afbrigði I“ er dökkt, skuggalegt og illúðlegt, bundið saman með gotneskum þráðum og eldspúandi söng/öskri. „Afbrigði II“ er „léttara“ (fyndið að nota þessi orð hérna, rólegt og létt!) og hér má heyra í þjóðlagastemmum þeim sem poppuðu t.d. upp á síðustu Misþyrmingarplötu, Með hamri. Undir lokin koma karlakóraraddir inn og undirstinga þær vigtina í þessu öllu saman, stærðina, metnaðinn.

Ég kemst ekki upp með að þylja öll afbrigðin upp þó ég glaður vildi. En fyrstu tvö gefa ágæta innsýn í það sem koma skal. Fyrri helmingur Sólar án varma er meira og minna undirlagður af hægum uppbyggingarstefjum sem springa stundum út með látum en „eftir hlé“ er meiri ofsi mætti segja. Sjá „Afbrigði VI“ t.d. þar sem hlaðið er í háan, organdi gítar og „öskrað úr sér lifur sem lungu“ söng. Smekklega er svo gengið frá, „Afbrigði XII“, lokaafbrigðið, er svalt útgangsstef, blanda af Burzum og Joy Division.

Allt í allt heljarinnar ferðalag og samsetning, hljómur og spilamennska, þetta er allt í hæstu hæðum. En fyrst og síðast eru þessi herlegheit sönnun á því að íslenski svartmálmurinn er við hestaheilsu, þá sem nú, og enn streyma fram gæðaverk úr ranni þeirra tónlistarmanna sem hér hafa verið nefndir.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: