Nettur Daði Freyr er með ýmsa ása uppi í ermi.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. september.

Hærra, minn Daði, til þín

Daði okkar, Eurovisionstjarnan, en svo margt fleira, stígur fram af eftirtektarverðum poppkrafti á plötunni I Made An Album.

Það er búið að vera ansi merkilegt að fylgjast með Daða Frey Péturssyni og hans ferðalagi um poppheima undanfarin ár. Fyrst sá maður hann með hinni selfyssku/sunnlensku RetRoBot en hún sigraði Músíktilraunir fyrir röskum áratug eða 2012. Þar var Daði valinn rafheili tilraunanna sem var lunkinn vísir að því sem koma skyldi. Eftir það flutti hann til Berlínar, menntaði sig í tónfræðum, og kom svo með látum inn í íslenska tónlistarmenningu fyrir tilstuðlan Söngvakeppninnar/Eurovision árið 2017. Vakti hann óðar athygli fyrir vinalega og æði glúrna kímnigáfu og var útgeislun Daða og hans „hyskis“ í algerum rauðabotni (hér nota ég forna merkingu orðsins sem er heldur jákvæðari en sú sem við brúkum í dag). Allir elskuðu Daða og gera enn!

Í gegnum þá keppni náði Daði semsagt að hefla út ímynd og hefur hann verið að byggja upp orðspor sitt jafnt og þétt síðan. Fimm tónleikar á erlendri grundu árið 2020, tólf árið 2021 og 49 í fyrra. Í haust verður hann meira og minna á hljómleikaferðalagi. Nokkuð magnaður árangur verður að segjast.

Tónlist þarf eðlilega til að flytja á sviðinu og henni er hann sömuleiðis að safna í sarp. I Made An Album er, eins og nafnið gefur til kynna, plata sem Daði Freyr bjó til í nákvæmlega þeim tilgangi. Eitt af því sem gerir Daða svo heillandi er skopskynið eins og ég hef nefnt og smýgur það í gegnum alla hans list. Eins og bara hvernig þessi plata er framreidd en henni var skammtað ofan í okkur smátt og smátt í formi stuttskífna. I‘m Making An Album kom í mars, fjögurra laga, I’m Still Making An Album kom í maí, einnig fjögurra laga og nú þriðji og síðasti skammturinn og við erum með tólf laga plötu í höndunum. Daði upptökustýrir, semur og flytur.

Platan hefst á þakkargjörð, „Thank You“, kliðmjúkt og melódískt tölvupopp hvar Daði tónar yfir með sinni þekkilegu baritónrödd. Lagið magnast svo upp rétt undir restina áður en okkur er hent inn í „I‘m Fine“ sem er fönkað, dansvænt … og grípandi. Grallaralegt jafnvel. „Limit To Love“ er ekki ósvipað, fönkí bassalínur og hvass tölvuásláttur. Þetta er poppplata með stóru p-i og skapalón poppsins, þriggja mínútna smíðin þar sem hver sekúnda er nýtt upp í topp á sem skilvirkastan og vonandi áhrifaríkastan hátt, er leiðarljósið. „Shut Up“ er líkast til Daðalegasta lagið hér, viðlagið eftir nákvæmum Daðafræðum á meðan „Sometimes“ er bófalegra, upphafið gæti tónað undir eltingaleik í Miami Vice. Þannig verður maður var við níunda áratugs spretti á köflum en líka hljómborðsbundna fönkspretti sem heyrðust á áttunda áratugnum (Stevie Wonder).

Daði leikur sér með ljós og skugga og passar sig að hafa plötuna sæmilega fjölbreytta. „I Just Want It“ byrjar grimmilega áður en skipt er í himnaríkishljóma. „Settle Down“ er hálfgerð ballaða og klykkt er út með „Bitte“, óði til Þýskalands/Berlínar þar sem hann og fjölskylda hans býr.

Pottþétt eða ætti ég að segja poppþétt plata frá Daða sem siglir nú nokkuð örugglega um poppsævin, a.m.k. ef litið er til þessa verks. Daði verður á Evróputúr í allt haust eins og áður segir og auðvitað heitir hljómleikaferðalagið I’m Doing A Tour. Nema hvað.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: