Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. september.

Skagapönk, skagapönk …

Subject to Abuse er eitt fjölmargra ræflarokksverkefna frá Akranesi en Skaginn er óforvarandis orðinn helsta pönkbæli landsins. Er það vel!

Stundum hnýtur maður um tónlist sem fangar mann rækilega og svo er með Subject to Abuse. Í árlegri skimun á útgefnu íslensku efni fyrir Kraumsverðlaunalistann árið 2019 rak plötuna Policy. í fang dómnefndaraðila. Flott og töfrandi neðanjarðarrokk en lítið af upplýsingum að hafa. Platan er eingöngu á Bandcamp en nafn hljómsveitarinnar/listamannsins „taggað“ með Akranes. Ég gleymdi þessu svo. Snemma á þessu ári kom svo út ný plata, The Unabridged Version, og ég var minntur á af hverju mig hafði rekið í hálfgildings rogastans yfir þessu fyrir fjórum árum. Og þá var það bara ákveðið. Ég skyldi skrifa mig frá þessari tjáningarþörf með 500 orða pistli sem þú ert að lesa núna minn kæri/kæra/kært. Tónlistin hér er það góð. Orð á hún skilið.

Ég ætlaði ekki einu sinni að komast að því hver stæði á bak við þetta, langaði til að halda leyndinni yfir verkefninu gangandi en stóðst svo ekki freistinguna. Spurði Kristján Alexander Reiners Friðriksson (Gaddavír og Snowed In af Skaganum, Grafnár héðan og þaðan) um málið og ekki stóð á svörum. Emma Jónsbur, bassaleikari í Gaddavír eitt sinn og meðlimur í tilfinningapönksveitinni Snowed In, stendur á bak við herlegheitin.

Emma er þá líka á bak við Martian Motors sem er heldur sprellbundnara en Subject to Abuse en alls ekki síðra. Eins og sjá má er hér hæfileikabúnt á ferð!

Rýnum nú í Subject to Abuse og ég ætla aldrei þessu vant að byrja á nýju plötunni, The Unabridged Version. Sko, þetta er mikið gítarrokk og dregur m.a. áhrif frá síðpönki Gang of Four en um leið má heyra í brjáluðu rokki bandaríska gæðamerkisins Amphetamine Reptile og groddarokkurum frá 10. áratugnum (Jesus Lizard, Cows og jafnvel „industrial“ sveitum eins og Cop Shoot Cop). SST-útgáfan, Meat Puppets jafnvel og Minutemen. Ég gæti þulið upp bandarískt neðanjarðarrokk fram til miðnættis en þetta er samt skapalónið hérna meira og minna. Dásamlegur hrærigrautur. Gítarhljómur er jafnan grjótharður og miskunnarlaus. Það sem meira er: maður finnur fyrir ástríðu og hugmyndaauðgi og það er fyrst og síðast það sem seldi manni þetta. Söngröddin er „emo“-leg, smá Þórir Georg jafnvel á köflum.

Policy., platan sem kom mér á bragðið, er aðeins öðruvísi en skapalónið það sama engu að síður. Meiri svefnherbergisandi yfir upptökum, Fugazi á rúmstokknum. King Missile. En lögin og heildaráferðin öll heillar, annars væri ég ekki að stinga niður penna. Ég get þess þá einnig að þriðja platan er til, kom út 2020 og inniheldur „bónaða“ afganga af Policy. (platan er tileinkuð minningu Andys Gills, gítarleikara Gang of Four).

Gaman líka að segja frá því að lokum að Skagapönkarar hyggjast hnykkja rækilega á nýfengnu orðspori bæjarins með pönk- og harðkjarnahátíðinni Lilló Hardcore Fest 27. og 28. október. Fram kemur rjómi slíkra sveita, Skagamenn munu skora pönkmörkin af miklum krafti en auk þess verða þvílíku hetjurnar af höfuðborgarsvæðinu og víðar til staðar (Börn, Celestine, Krownest m.a.). Það er afar heilnæm grasrótarhátíðarmenning á Íslandi í dag, rokkhátíðir af öllum toga um land allt og virknin tilfinnanleg, sé maður sæmilega virkur á samfélagsmiðlum og duglegur að leita uppi nýtt tónlistarefni á veitunum. Ég kvarta ekki.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: