ll

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. október, 2016

Hið yndislega alflæði

• Aðgangur að tónlist hefur aldrei verið meiri – eða betri
• Samt veit maður aldrei hvað maður á að hlusta á?

Tímarnir eru breyttir, gerbreyttir. Er ég að lifa tímanna tvenna, jafnvel þrenna? Nú er ég að kenna fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og eitt af því sem við erum að fara í af krafti eru nýmiðlar, samfélagsmiðlar og netvæðingin öll hvað varðar fjölmiðlastreymi, neyslu, aðgengi o.s.frv. Skemmst frá að segja hafa gagngerar breytingar orðið á þessum hlutum og spilar m.a. inn í umgengni fólks hvað tónlist varðar, minni þess (einfaldir hlutir eins og hver flytur hvað) og bara hvernig þetta er yfirhöfuð hugsað allt saman. Það eru miklir kostir … og líka miklir gallar sem fylgja þessu aukna aðgengi. Mjög oft líður mér samt eins og ég sé standandi í James Bönd, að „taka“ spólu. Úrvalið var það mikið að maður stóð venjulega í tuttugu mínútur gónandi á hillurnar. Og tók svo bara „eitthvað“, hálf-fúll eiginlega og þreyttur.

Mér finnst þetta bölvað vanþakklæti í mér en þegar maður bæði vinnur við þetta (og þarf að fylgjast með að e-u marki) og er áhugamaður um tónlist (og er einfaldlega forvitinn um eitthvað nýtt) er það lýjandi að vera með alla tónlist heimsins í fanginu. En um leið finnst mér algerlega stórkostlegt að geta hlustað á fjölda listamanna, borið þá saman og stokkað upp óteljandi spilunarlista án þess að hreyfa spönn frá rassi!

En hvað á maður að hlusta á? Þetta? Eða hitt? Á ég að tékka á nýjum útgáfum á allmusic.com? Pitchfork? NPR „first listen“? Einhver var að tala um eitthvað í Þrumunni, á ég að tékka á því? Var að tékka, leiðinlegt, hvað stóð aftur í Mojo? Hvað var þulurinn að tala um? Hvað sagði frændi Jóa í gær þegar við vorum að tala um Wilco? Hvað hét bandið aftur? Er það á Spotify, bandcamp, youtube? Hei, af hverju er þetta ekki á youtube? Hvurslags þjónusta er þetta!!!

Ben Ratliff, djassrýnir New York Times, gaf út bókina Every Song Ever: Twenty Ways to Listen in an Age of Musical Plenty í ár þar sem hann ráðleggur okkur að fagna streyminu í stað þess að pirra okkur á því. Hann sér – og heyrir – tækifæri og leggur upp með nýjar aðferðir við að njóta tónlistar. Sem meðal annars felast í því að láta stefnur lönd og leið og haga hlustuninni temabundið eftir hraða laganna, áferð, tæknivinnu, melankólíublæ o.s.frv.. Og það er ágætt, svo langt sem það nær. A.m.k. fær Ratliff mann til að hugsa hlutina upp á nýtt, að gamla neyslumunstrið (að safna öllu með ákveðnum listamanni t.d.) sé búið að renna sitt skeið, sé horfið inn í algleymi internetsins.

Undanfarin ár hefur áhugi minn á jólatónlist – bæði akademískur og hjartbundinn – aukist til muna (alveg róleg, það er tilgangur með þessu). Í desember hlusta ég því nánast á ekkert annað. Mér sýnist að það sé ein ástæða aukreitis fyrir þessu. Í desember get ég nebblega hvílt mig á þessu stöðuga vali og þessum stöðuga eltingarleik. Og ég er hvíldinni feginn!

Kannski maður hlusti bara á Dylan og Hawkwind það sem eftir er ævinnar. Zappa á kantinum ef það dugir ekki. Er það ekki nóg? Dugir það ekki bara? Eða er nefndur Ratliff kannski kominn með svarið, lausnina fyrir okkur sem erum vön að velja, flokka, raða og safna? Að hætta að hugsa svona ofsalega mikið um tónlistina og einbeita sér að því að njóta hennar núna?

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: