Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. nóvember, 2022.

Er hjörtun dældu blóði

Forláta endurútgáfa á hljómplötunni Með allt á hreinu, sem Stuðmenn/Gærur gáfu upprunalega út árið 1982, var að berast á markað.

Þessi fjörutíu ára afmælisútgáfa er vegleg. Hún kemur m.a. út á vínil og er ein útgáfan í tvílitum vínil sem vísar í glæsileg tvískipt jakkaföt Stinna stuð sem leikinn var ógleymanlega af Agli Ólafssyni. Hér eru tæplega þrjátíu lög og helmingur þeirra að lenda á vínil í fyrsta sinn, lög sem heyrast sum hver bara í nokkrar sekúndur í myndinni.

Aldur, þroski og reynsla hafa veitt mér tækifæri til að rýna almennilega í lögin sem lengi vel voru „bara“ lögin úr myndinni. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé toppurinn á ferli Stuðmanna. Það er enginn hundur í þessu 30 laga bákni. Enginn. Þetta eru 30 mismunandi tilbrigði við snilld.

Ég lasta að sjálfsögðu ekki Sumar á Sýrlandi eða Tívolí . Með allt á hreinu er allt annað dæmi í raun. En þarna kemur allt einhvern veginn saman í dásamlegum, sprúðlandi pakka. Þetta er svo skemmtilegt, fallegt, flippað, „lifandi“ og íslenskt allt saman. Sköpunargleðin og hugmyndaauðgin, þetta er svo algert og alltumlykjandi að manni fallast hendur. Spilamennska, söngur, sjarmi – það á enginn breik í þetta gengi.

Textarnir t.a.m. svo vel ortir, á unaðslegri íslensku, og endalaust hnyttnir. Félagslegt raunsæi á köflum sem Valgeir Guðjónsson tók með sér frá lokaárum Spilverksins („Haustið ’75“) en líka helber súrrealismi („Reykingar“, „Grikkir“, „ÚFÓ“). Og femínismi („Ekkert mál“, „Íslenskir karlmenn“).

Og hefur heljargripinu sem ástarskot hefur á fólki verið betur lýst en hérna: „Ég er dáinn úr ást/þótt hjartað dæli blóði/Ég heyri engan mun/á hávaða eða hljóði“)? Þetta hljóta að vera öflugustu upphafslínur íslenskrar dægurtónlistarsögu.

En hvernig tónlist er þetta? „Sigurjón digri“ tekur frá síðpönki (bassinn og drifið) en skreytt með glæsilegu píanóskrauti frá JFM (og stáltrommum!). „Úti í eyjum“ er gulli borinn útvarpsslagari og „Slá í gegn“ dásemdarballaða en með stuðmennsku uppbroti að sjálfsögðu. Er til „stuðmennskara“ uppbrot t.d. en í „Reykingar“ er Valgeir fer að velta fyrir sér tilgangi lífsins?

Stuðmenn taka ofan fyrir sögunni í lagasmíðum, „Taktu til við að tvista“ er hreinn og beinn rokkari t.d. En svo koma lög eins og „Grikkir“ (sem er eiginlega uppáhaldið mitt eins og er og er samkeppnin hörð!). Þursastemma að hætti Egils og þessi dulræna ára algerlega ómótstæðileg.

Þessi nýja 40 ára afmælisútgáfa býður okkur þá lögin sem fóru ekki á plötuna upprunalega eins og áður er sagt. „Æði“ er … æði. Tískuráðleggingar Dúdda, yfir Steely Dan-ísku grúvi, stórkostlegar.

Og svo lag sem ég elska endalaust: „Örlög mín“. Örstutt brot í myndinni. Egill, þá 28 ára, syngur í raun um sjálfan sig, uppáklæddur sem eldri maður. „Örlög mín / eru að vera söngvari / Ég er dæmdur / til að syngja fyrir þig.“ Og seinna: „Af sjálfsmeðaumkun klökkna / er ég stilli brostinn streng.“ Síðasta línan grínaktug að sjálfsögðu, en samt, allt þetta fær dýpri merkingu í ljósi nýjustu frétta af Agli okkar.

Og gleymum ekki Gærum, sem eru annað og meira en „hækjur og hjálpargögn“ hér. Í kvikmyndinni leika þær „óvini“ eður keppinauta Stuðmanna, þær eru aukinheldur framtíðin á meðan þeir eru tákn horfinna tíma. Femínísk ádrepa sem var í raun réttri langt á undan sinni samtíð. Lög þeirra hér eru frábær og gott að heyra víraða útgáfu þeirra af „Ástardúett“ í fullri lengd.

Ég gæti setið við og skrifað um þessa tónlist fram á næsta ár en þetta er ágætt. Í bili.

Tileinka þennan pistil svo manni „af semísku kyni framsækinna Hansakaupmanna og stórmúsíkalskra“.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: