Flugtak Maija Kauhanen fer yfir mörk og mæri og var vel að
verðlaununum komin. — Ljósmynd/Antti Kokkola

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. janúar.

Nusað af norrænum tónum

Finnski kantele-leikarinn Maija Kauhanen var sæmd Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir síðasta ár. Var það vel. Fleiri voru um hituna, meðal annars Sigur Rós og Elfa Rún Kristinsdóttir.

Þessum pistli er ætlað að taka púlsinn á norrænu tónlistarlífi samtímans. Tilnefningar til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs gefa eðlilega ágæta innsýn og er sæmilegasta hitamæling. Hvaða straumar renna stríðast, hvar eru græðlingarnir o.s.frv.

Þjóðlagatónlist, og framþróun hennar, átti nokkuð rækilega upp á pallborðið síðasta ár og sigurvegarinn endurspeglar það vel. Kauhanen er einnar konu orkuhús og vinnur með kantele, eða þilhörpu, finnskt/karelískt þjóðarhljóðfæri. Kantele-leikur hennar er síðan undirstaða þó nokkurrar ævintýragirni hvar tilraunakenndur ásláttur og síðpönksáhrif eru í hræru, svona meðal annars.

Hinn finnski listamaðurinn sem tilnefndur var er Petri Kumela, klassískur gítarleikari sem leggur sig eftir heilmiklum sveigjum og beygjum í list sinni. Svíar stilltu fram Norbotten Neo, kammerhóp sem leggur sig eftir nútímatónlist, og svo Johan Lindstrøm, popp/rokkara sem er allt í senn, upptökustjórnandi, hljómsveitarmeðlimur og sólólistamaður. Norbotten Neo á að baki afar giftu- og glæsiríkan feril en vera Lindstrøm á listanum þótti mér athyglisverð. Ekki asnaleg en Svíar hafa átt það til að fara í athyglisverð höfrungahlaup varðandi það listafólk sem þeir leiða fram.

Við Íslendingar vorum með Sigur Rós og Elfu Rún Kristinsdóttur fiðluleikara á blaði. Ég er kannski ekki hlutlaus en eðlilega er það algert reginhneyksli að þessi einstaka sveit hafi ekki fengið þessi verðlaun! Til að setja þetta í samhengi fékk Eivör verðlaunin 2021, Björk er búin að fá þau (1997) og eins og einn góðvinur minn úr íslensku menningarkreðsunni orðaði það: „Ef Sigur Rós fær ekki verðlaunin, hver á þá að fá þau?“ Ísland best í heimi? Já, í þessu tilfelli!

Danirnir áttu ágætis útspil þetta árið. Peter M. Uhrbrand, þjóðlagatónlistarmaður frá Fáney (Fanø) og boðberi hinnar svonefndu „spillemandsmusik“, var tilnefndur, allt fremur hefðbundið þó og vinningslíkur óverulegar. Hin tilnefningin var svo til handa Önju Jacobsen sem hefur verið mikilvægur hluti af neðanjarðartónlistarsenu Kaupmannahafnar um langt skeið (Selvhenter, Eget Værelse-rýmið o.s.frv.). Frábær tónlistarkona og hún hefði mátt taka þetta fyrir mér.

Frá Noregi voru svo Håvard Gimse, klassískur píanóleikari, og Berit Opheim þjóðlagasöngkona. Gimse náttúrlega óviðjafnanlegur en mikilvæg vinna Opheim einnig tilkomumikil og þjóðlagablæti mitt fer hreinlega á flug þegar ég kemst í kynni við svona meistara.

Grænland, Færeyjar og Álandseyjar fá svo eina tilnefningu hvert. Frá Grænlandi kom SIGU, fönkuð poppsveit sem var dálítið út úr kú. Myndi ganga upp ef þetta væri meðvituð heiðrun til handa Steely Dan en ég er hræddur um að það sé ekki svo gott. Það væri hyggilegt fyrir þessa nágranna okkar að keyra meira inn á þjóðlagamiðin, a.m.k. væru vinningsmöguleikar meiri og listrænar gjafir sömuleiðis. Álandseyingar tilnefndu Whatclub, sígaunadjassband sem sveimaði á mörkum Buena Vista Social Club og Djangos Reinhardts. Þekkilegt en venjulegt og það er í góðu lagi en til vansa ef það á að fara alla leið í verðlaunakeppni sem þessari. Að lokum komu frændur vorir Færeyingar með Teit Lassen í ferðatöskunni, flottur kandidat en hann og Eivör eru þau færeysku nöfn sem eru hvað þekktust alþjóðlega. Og fínasti listamaður er hann.

Þannig er um að litast þetta árið, þessa tíð. Hártogast hefur verið um eðli verðlaunanna, mælistikurnar sem notaðar eru o.s.frv., en því meira sem hægt er að koma af tónlist í blöðin, því betra. Sérstaklega í dag, þegar athyglisspönnin er engin. Keppnir og verðlaun hafa þennan tilgang, framar öðru. Að koma þessum nöfnum einfaldlega í umferð.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: