Cult of Lilith Útrás fagnað með viðeigandi hætti.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. apríl, 2020.

Útrás öfgarokksins

Nokkrar íslenskar öfgarokkssveitir hafa verið að landa útgáfu- og dreifingarsamningum við stöndug erlend fyrirtæki að undanförnu. Hvað veldur?

Þær gleðilegu fréttir bárust í enda síðasta mánaðar að íslenska þungarokks/öfgarokkssveitin Cult of Lilith hefði gert samning við Metal Blade Records. Um stórfrétt er að ræða, enda Metal Blade með þekktari fyrirtækjum í þessum geira. Stofnað 1982 í Bandaríkjunum og á mála hjá því hafa verið stórsveitir á borð við Slayer, Cannibal Corpse, King Diamond, Amon Amarth, Behemoth, Sacred Reich og Killswitch Engage svo fátt eitt sé talið. Cult of Lilith, sem var stofnuð 2015, spilar einslags tækniskotið dauðarokk, mikil keyrsla og skiptingar og var það upptökumaðurinn Dave Otero (Cattle Decapitation t.d.) sem kom Ryan Williams, listamannatengli Metal Blade í Bandaríkjunum og „hæfileikaþefara“, á bragðið. Williams heillaðist og gerði óðar samning við piltana. Von er á fyrstu plötunni síðar á þessu ári.

Undanfarin ár hafa íslenskar sveitir af þessum toga verið að gera viðlíka strandhögg. Svo ég noti þungarokk sem regnhlífarhugtak núna, þá hafa Sólstafir, Skálmöld og Vintage Caravan t.a.m. allar gert útgáfusamninga við merki af stærri gerðinni (Vintage Caravan var á Nuclear Blast en er nú hjá Napalm Records). Þannig er hið virta Season of Mist með nokkrar íslenskar sveitir á sínum snærum og fleiri hljómsveitir en þær sem ég hef nefnt hafa komist í álnir hjá stórum og millistórum merkjum (að ekki sé talað um hvernig svartþungarokkssenan hérlendis er þræltengd í tilkomumikuð net dreifingar um Evrópu og Ameríku en úttekt á því er önnur grein þó ég nefni eitt slíkt dæmi hér í restina).

Une Misère, önnur íslensk öfgarokkssveit, sem leggur upp með bylmingsþungan og ástríðufullan síðkjarna (post-hardcore), gerði samning við Nuclear Blast í ársbyrjun 2019 og fyrir okkur sem fylgjumst temmilega með þessum geira fór það ekki á milli mála. Það munar nefnilega um það að hafa stórfyrirtæki á bak við sig – tja, ef það er með þig ofarlega í áherslubunkanum. Hörmungarsögur af því hvernig bönd týnast í svona vélavirkjum eru líka allt of tíðar.

En fleiri fréttir, og það tiltölulega nýjar af nálinni: Svartþungarokkararnir í Helfró gerðu samning við áðurnefnt Season of Mist fyrir stuttu. Og fyrsta platan, samnefnd sveitinni, kom reyndar út í gær. Það sem ég hef heyrt hingað til (þetta er skrifað er á þriðjudegi) er einfaldlega frábært (gaman líka að vita til þess að allur heimurinn mun heyra orðin „vonlaust helvíti“ ásamt fleiri kjarnyrtum íslenskum orðum á næstu vikum).

Önnur sveit sem ég held nokkuð upp á er Nexion, en hún spilar kolbrjálað keyrslurokk, sveitt og hrátt. Sá hana á Húrra einu sinni og hreifst af. Hún var að gera samning við Avantgarde music, eftir að Stephen Lockhart mælti með henni. Lockhart er Íri sem er búsettur hér og rekur Emissary-hljóðverið, stýrir Ascencion-hátíðinni og hefur tekið upp fjölda íslenskra svartþungarokkssveita (hann rekur og eigin sveit, Rebirth of Nefast). Að lokum vil ég tiltaka Nyrst í þessum æsispennandi fréttapakka, sveit sem er á mála hjá Dark Essence Records í Bergen. Plata hennar, Orsök, kom út í gær, líkt og plata Helfróar. Nóg að gerast! Pistlinum er ekki ætlað að vera tæmandi, og ef einhver lumar á fréttaskoti hvað svona starfsemi varðar, sendið mér tölvupóst endilega.Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: