Bensínið í botni Volcanova með beltin spennt enda heljarinnar span framundan. Ljósmynd/Stefán Ari Stefánsson.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. júlí, 2022.

Áfram eyðimerkurveginn

Rokksveitin Volcanova hefur nú magnað sinn olíublandaða seið í nokkur ár og vegur hennar fer vaxandi, hægt og bítandi.

Volcanova spilar rokk, nánar tiltekið eyðimerkurrokk/„stoner“-rokk. Þetta er um það bil sama súpan en alveg ábyggilega gríðarlega mikill munur á stefnunum líka en ég læt hártogarana um þann slag. Einhverjir voru að frussa kaffinu út sér þegar þeir sáu þessum stefnum slengt saman á þennan óábyrga, jafnvel fífldjarfa hátt. Efast ekki um það.

En týnum ekki skóginum með því að horfa svona grannt á trén. Volcanova var stofnuð fyrir átta árum af gítarleikaranum og söngvaranum Samúel Ásgeirssyni og trommaranum Ögmundi Kárasyni. Voru þeir bara tveir lengi vel en haustið 2017 bættist bassaleikarinn Þorsteinn Árnason við og Dagur Atlason tók við kjuðunum. Efni hóf þá að safnast upp og sumarið 2018 byrjaði þrenningin að taka upp fyrstu breiðskífuna. Plötusamningur var svo gerður við sænska plötufyrirtækið The Sign Records, eftir tónleikaferðalög um Skotland og England og fjölmarga tónleika á Fróni. Volcanova gaf svo út sína fyrstu breiðskífu, Radical Waves , í ágúst 2020. The Sign greinilega vel tengt því að dómar birtust í fjölda blaða, tímarita og á vefmiðlum.

Nýja platan, Cosmic Bullshit , kom svo út í febrúar á þessu ári. Sex laga stuttskífa sem hefur og fengið umfjöllun víða. Hoggið er í sama knérunn, meira og minna, en platan var tekin upp og hún hljóðblönduð af Helga Durhuus í Stúdíó Helvíti.

Seint verður sagt að þeir félagar séu að finna upp hjólið enda síst tilgangurinn. Tónlistin er í anda Brain Police, The Vintage Caravan og áþekkra, erlendra sveita. Tökum samt Vintage Caravan að mestu úr jöfnunni, hún er of grunduð í sýrulegnu áttunda áratugs rokki til að samanburður eigi við hér. En Brain Police-áhrifin eru auðgreinanleg. Volcanova býr þó yfir sérkennum, engar áhyggjur, annars væri ég ekki að stinga niður penna og eitthvað meira en bara öflugar fréttatilkynningar liggja að baki þessum fínu dómum sem sveitin hefur verið að fá.

En hver er þá lykillinn? Jú, sveitin rokkar nefnilega af þrælmiklu afli og á skilið heiðursnafnbótina orkutríó (notað yfir Rush, Hüsker Dü, Nirvana og fleiri). Það er góður og sveittur tónleikahljómur í gangi, platan stekkur á þig og hristir þig til. Allt í botni allan tímann. Lögin líka skemmtilega samin, sjá „Gold Coast“ sem býr yfir nánast grallaralegum skiptingum. Ekki sakar hörkuspilamennska að öllu leyti. Samantekið, ekkert kjaftæði, þétt keyrsla, spikfeitur en um leið ágengur og rífandi (smá pönkaður jafnvel) hljómur. Já já, áfram eyðimerkurveginn segi ég.

Annað sem má sannarlega nefna er að meðlimir eru með kynstrin öll af kímnigáfu í rassvasanum sem er engan veginn málið allt of oft í þessum geira og skyldum senum. Þetta má sjá í lagatitlum, umslagshönnun og alls kyns opinberum tilkynningum frá sveitinni. Menn eru alls ekki að taka sig of alvarlega og það er feitur plús í mínum bókum. Þeir leyfa sér t.d. að henda gaman að sjálfum sér í útsendum fréttatilkynningum, lýsa plötu þessari sem „góðu samsafni af hávaða, beinustu leið frá jöklum fylltri snjóeyðimörk Íslands“. Annað er eftir þessu, ég hló t.d. upphátt þegar ég sá hvernig sveitin tilkynnti komu sína á Eistnaflug á Fjasbókinni.

Sveitin heldur svo í tónleikaferðalag í haust með The Vintage Caravan þar sem hún mun koma fram á um tuttugu tónleikum í átta löndum á meginlandi Evrópu.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: