Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. janúar, 2020.

Staða íslensks rapps í dag

Seinni bylgja íslenska rappsins lemst enn utan í klappir. Hvenær fjarar bylgjan út, eða á slíkt kannski ekki við lengur?

Reiknað hefur verið út að meðallíftími tónlistarsena er jafnan þrjú ár, oft minna. Með tilheyrandi uppgangi, toppi og svo niðurtúr. Fyrri bylgja íslenska rappsins stóð frá ca. 2000-2003 en sú seinni, sem hófst 2015 með kröftugum frumburði Gísla Pálma er enn í gangi. Hvað veldur? Ástæðan fyrir því að rappið er enn yfir og allt í kring, meira og minna, er sú að það er ekki hægt að nota senu-hugtakið yfir það með fullnægjandi hætti lengur. Rapp er í dag vinsælasta dægurtónlistarform heims, og að það sé að leggjast í lægð er jafn líklegt og að rokkið hverfi. Ég veit um margt fólk á mínum aldri sem bíður sárbænandi eftir því að rappið hypji sig og mér þykir því leitt að færa ykkur þessar (hörmungar)fréttir.

Á meðan fyrsta bylgjan var tiltölulega eintóna hvað stíl varðar, mikið til strákar að máta sig við erlendar klíkufyrirmyndir, er fjölbreytnin þónokkur í seinni bylgjunni. Hún er líka mun sýnilegri á almennum markaði, sem helst í hendur við þróun erlendis. Árið 2001 hefði það verið óhugsandi að Rottweilerhundar gætu nýtt sér kostunaraðila, fyllt tónleikahallir og runnið svo mjúklega inn í meginstrauminn eins og raunin hefur verið. Flóni, Joey Christ, Aron Can, Emmsjé Gauti, svo ég nefni dæmi, þetta eru listamennirnir sem mynda þá tón- og hljóðmynd sem yngri hlustendur ganga um í. Þeir eiga hringitónana, myndböndin, dagútvarp (upp að vissu marki) og, sem er tímanna tákn, streymið.

Eins og segir, íslenska rappið tekur á sig margar myndir í dag. Stelpurnar (ósýnilegar fyrir fimmtán árum) halda uppi merkjum tilraunamennsku og pólitísks boðskapar. Countess Malaise átti t.d. sterka plötu á síðasta ári og sérstaklega Cell7, sem gaf út frábæra plötu sem dansaði á mörkum popps og rapps. Flóni og Joey Christ gáfu út stórar plötur, það form hentar íslenskum röppurum oft illa virðist vera (of mikið af uppfyllingarefni) en báðir áttu sterka smelli. Herra Hnetusmjör, sem er með ólíkindum vinsæll og í einstakri stöðu hérlendis, viðheldur henni en líkt og Emmsjé Gauti er hann naskur markaðsmaður og keyrir sinn feril án þess að blikna; dúndrar út klúbbavænu rappi, hnetusmjöri í krukkum eða jólalagi með Bó og allt rennur þetta eftir sömu línunni einhvern veginn.

Þegar senur verða stórar líður ekki á löngu þar til útvatnaðar afurðir láta á sér kræla. Einslags skuggamyndir af því sem er móðins, sjarmalaus tónlist og tómleg. Íslenska rappið er auðvitað engin undantekning og ógrynni af þessum listamönnum fylla nú Spotify og aðrar veitur. Ég nefni þá hins vegar ekkert sérstaklega. Ég hafði hins vegar gaman af 24/7 á síðasta ári, Elli Grill var líka sterkur að vanda og plata Krabba Mane olli því að maður sperrti upp eyrun. Þar er „eitthvað“. KEF Lavík héldu þá áfram ótrúlegri textareið sinni og platan Eyðibýli , með Hauki H, er krúttleg. Samansull af gömlum stílum, hljómar á köflum eins og týnt sólóverkefni frá Wu-Tang.

Eitt sem ég furða mig á er, hvar er trappið? Trappið er málið í dag og heimakokkaðar útgáfur af þessari stefnu, sem á rætur í Atlanta, eru að poppa upp um allan heim. Aron Can ýjaði að þessu, Flóni prófaði þetta, Yung Nigo drippin‘ er svona næstum því þar, með naumhyggjulega drafrappinu sínu. En hreinræktað trapp, ég lýsi hér með eftir því.

Tek það að lokum fram, reynslunni ríkari, að þetta var ekki hugsað sem upptalningargrein og ef einhver rapparinn hváir við lesturinn er það vegna þess að annaðhvort a) gleymdi ég honum, b) mér hugnast hann ekki eða c) hann var óþarfur fyrir þær röksemdir sem ég er að bera á borð, þó að tónlistin hans sé stórkostleg. Pís át!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: