Forgarður helvítisKom, sá … og rústaði (Ljósmynd/Halldór Ingi).

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. maí, 2019.

Þrír dagar af þungarokki… og ögn meira

Þungarokkshátíðin Reykjavik Metalfest fór fram um síðustu helgi og var mikið um dýrðir, dáðir og níðþunga bárujárnstónlist.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2016, þá undir nafninu Reykjavík Deathfest, og var þá um eitt kvöld á Gauknum að ræða, þar sem hin bandaríska Cephalic Carnage lék ásamt íslenskum sveitum. Hátíðinni óx svo fiskur um hrygg næstu tvö árin og í ár var ákveðið að víkka fókusinn enn frekar og „endurmarka“. Í stað þess að meginþorri hljómsveitanna væri af dauðarokkskyni, eins og nafnið bar með sér, skýlir Reykjavik Metalfest alls kyns afbrigðum af öfgarokki, eitthvað sem maður fann rækilega fyrir þá þrjá daga sem hún stóð yfir (og var hún meira að segja ögn lengri, eins og ég mun koma að seinna í þessum pistlingi).

Tónleikar voru á fimmtudegi til laugardags á Gauknum. Mæting var með eindæmum góð og stemningin í senn nærandi og ljúf. Það er fátt sem slær það út að hitta sína líka, njóta tónlistar með þeim og spjalla. Ég hitti marga góða félaga frá fornri tíð, bræður og systur í málmi sem maður hittir auðvitað alltof sjaldan. Svartar verur voru uppi um alla veggi, kynslóðabilið breitt og pláss fyrir alla. Hugsað var fyrir öllu, varningur var m.a. til sölu, boðið var upp á sérstaka þungarokksgöngu um Reykjavík og Veganæs, veganstaðurinn góðkunni sem er inni á Gauknum, bauð upp á „black-metal“ borgara. Einnig var keyrður ráðstefnuhluti, þar sem hagsmunaaðilar úr ólíkum áttum ræddu stöðu íslensks þungarokks út frá margvíslegum vinklum.

Erlendar merkissveitir eins og Svart Crown, Benighted og Demelich glöddu mannskapinn, sem og Hamferð frá Færeyjum sem maður telur varla sem erlenda! Baðstofurokkið þeirra (nafn sem lýsa skal ljúfri og þægilegri stemningunni í tónlist þeirra, þó dökk sé) var stórkostlegt og ég hvet fólk til að tékka á þessari eðalsveit. Íslensku sveitirnar ollu þá ekki vonbrigðum. Þið getið ímyndað ykkur hversu yndislegt það var að sjá Forgarð helvítis á fullu spani, þeir eiginlega rústuðu hátíðinni á fyrsta degi. Kjaftshögg. Andavald var magnað, seiðandi en um leið illúðlegur svartmálmur. Beneath, með sitt tæknibundna dauðarokk, fór þá mikinn en um sönginn sá sjálfur Gísli Sigmundsson, einn skipuleggjenda og fyrrum leiðtogi Sororicide. Svartidauði, ein helsta svartþungarokkssveit landsins í dag, en sú sena er ógurleg, fór þá á kostum. Gríðarkeyrsla og grimmd.

Það var síðan Napalm Death, ein áhrifaríkasta öfgarokkssveit allra tíma, sem lék á lokakvöldinu. Hvílíkur fengur að fá þessa meistara til landsins, og fólk nýtti tækifærið og „pytturinn“ fyrir framan sviðið ólgaði.

Hátíðinni var þjófstartað á miðvikudeginum er myndin Lords of Chaos var sýnd í Bíó Paradís. Henni var svo slitið, formlega, á sunnudeginum á sama stað en þá var heimildarmyndin Slave to the Grind sýnd, mynd um „grind-core“ stefnuna svokölluðu sem Napalm Death átti ríkan þátt í að móta. Shane Embury, bassaleikari sveitarinnar, sat fyrir svörum eftir sýningu.

Það er eðlilega erfitt að draga fimm daga hátíð saman í 500 orða pistli. Eftir stendur að hér er eitthvað gott að vaxa, andinn er með því móti eins og ég nefndi hér fyrr. Aðstandendur eru metnaðarfullir, það veit ég, og allur rekstur hennar og viðmót þess kjarna sem að hátíðinni stendur er hreinlega til fyrirmyndar. Megi hátíðin ganga sem lengst. Áfram þungarokk!


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: