snoop-lion

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 27. apríl, 2013]

Alveg ljónharður…

• Rapparinn silkimjúki Snopp Dogg heitir nú Snoop Lion
• Tók upp rastafari-trú og segist endurholdgaður…sem Bob Marley!

Endurfæddur Snoop Dogg, nú Snoop Lion, varð heillaður af menningu Jamaíka eins og sjá má. Ekki eru allir rastafarar ánægðir með það.
Ég gæti haldið áfram endalaust á þessum nótum. Snoop hefur áru í kringum sig, ekki ólíka þeirri sem hangir yfir Homer Simpson.
Fáir samtíma dægurtónlistarmenn eiga jafn skrautlegan feril að baki og rapplistamaðurinn Snoop Dogg, upphaflega Snoop Doggy Dogg (og þannig kynntumst við honum flest, í gegnum hina ótrúlegu Doggystyle sem út kom 1993). Þær eru fáar rappplöturnar sem ég hef hlustað jafn mikið á; rennslið í henni er fullkomið og G-fönk Dr. Dre og vesturstrandarrappið flæddi sem aldrei fyrr um útvarpsbylgjur heimsins. Snoop hefur í raun réttri aldrei náð að toppa þessa tímamótaplötu en stórstjarna varð hann í kjölfarið.

Smákrimmi

Og ferill hans, eins og segir, er ótrúlegur. Um og eftir Doggystyle var hann t.a.m. með morðákæru á herðunum enda smákrimmi að upplagi og hefur hann gert mikið úr þeim þætti í gegnum tónlist sína. Árið 2000 stóð hann að gerð klámmyndar og starfaði um hríð sem melludólgur samhliða tónlistarferli. Engu að síður er hann giftur æskuástinni og á með henni þrjú börn. Einn sonur hans er íþróttamaður mikill og Snoop hefur réttindi sem fótboltaþjálfari (í fótbolta af ameríska taginu). Hinn reykir gras af miklum móð að sögn föðurins sem jafnhattar sjálfur um 30 vefjur daglega (5-10 ef hann þarf að sinna mikilvægum erindum hins vegar).
Ég gæti haldið áfram endalaust á þessum nótum. Snoop hefur áru í kringum sig, ekki ólíka þeirri sem hangir yfir Homer Simpson. Algjör vitleysingur og jólasveinn, samt með ráð undir rifi hverju og þannig gerður að það er ekki hægt annað en dást að honum og þykja vænt um hann. Femínistinn Julie Bindel hefur meira að segja sagt opinberlega frá því að þrátt fyrir allt það sem Snoop stendur fyrir þá dýrki hún hann. Maðurinn er gangandi þversögn.

Alltaf rastafari

En nóg um það, við erum hingað komin til að rýna aðeins í nýjasta útspil Snoop sem er í fullkomnu samræmi við munstur það sem ég hef verið að rekja hér að ofan. Hann kallar sig nú Snoop Lion og segist vera búinn að taka upp rastafari-trú þeirra Jamaíkubúa. Þetta hvolfdist yfir hann eftir heimsókn þangað á síðasta ári. Hvort það sé vegna hins reykmettaða heila hans eður ei þá segist hann og vera Bob Marley endurholdgaður og hafa þær yfirlýsingar ekki beint hitt í mark hjá reggísamfélaginu og hefur Bunny Wailer t.a.m., ein af goðsögnum stefnunnar, gagnrýnt Snoop opinberlega fyrir þetta. Synir Marley eru aftur á móti mun slakari gagnvart þessu öllu saman og hafa veitt Snoop blessun sína.
Plata fylgir þessu standi öllu líka, kom hún út í vikunni og kallast Reincarnated en ekki hvað. Kvikmynd með sama heiti kom líka út síðasta haust og var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Nú streymir ekkert nema ást frá Snoop, dóttir hans syngur t.a.m. með honum í laginu „No Guns Allowed“. Snoop Lion segist ætla að gera tónlist fyrir alla fjölskylduna, hann sé enda kominn á þann aldur að ofbeldisdýrkun og slíkt sem stundum hefur fylgt tónlist hans sé bara ekkert sniðugt lengur. „Mér finnst ég alltaf hafa verið rastafari,“ hefur hann látið hafa eftir sér. „Rapp er ekki að gera neitt fyrir mig lengur. Reggíið kallaði…það er sem ferskur andblær.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: