Reykjavik Music Mess hefst næstkomandi föstudag (sjá dagskrá hér) og munu innlendir sem erlendir hljómlistarmenn af ýmislegu tagi skemmta á KEX Hostel, Faktory og Nasa.

Eitthvað verður um erlenda tónlistarmenn og einn þeirra er Man Made sem er listamannssjálf Nile nokkurs Marr. Ekki verður hjá því komist að minnast á það að um son sjálfs Johnny Marr er að ræða, það er gulrótin að því menn eru á annað borð að lesa þessa færslu, eitthvað sem hann og við verðum að vera ásátt með. En það er ekki eins og slíkt þurfi að vera myllusteinn, langt í frá, og af tóndæmum af youtube að ráða er ýmislegt í drenginn spunnið. Nile, sem heitir í höfuðið á Nile Rodgers úr Chic (svalt!) býr í Sheffield, þeirri merku tónlistarborg en hefur víst líka alið manninn eitthvað í annarri tónlistarborg, Portland, Oregon. Hvet fólk til að tékka á kauða svo og hátíðinni allri, sem á eftir að verða eyrnastyrkjandi og ljúf ef að líkum lætur.

Takk fyrir mig. Allir hressir?