Image result for Snjókorn falla
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. desember, 2017


Í Vonlandinu góða


Tónlistarhátíð Sigur Rósar, Norður og niður, var hleypt af stokkum með efnisskrá þar sem vel þekkt jólalög voru sett í myrkan og melankólískan búning.

Norður og niður er ný listahátíð Sigur Rósar sem hefur nú staðið yfir í fjóra daga. Hátíðin fer fram í Hörpu, lýkur í kvöld, og fram kemur fjöldi innlendra sem erlendra tónlistarmanna. Auk þess heldur Sigur Rós ferna tónleika, þá síðustu í kvöld. Skemmtileg viðbót í góða flóru tónleikahátíða hérlendis og góð þjónusta við þá fjölmörgu erlendu ferðamenn sem hér dvelja á milli jóla og nýárs. Fínt tækifæri fyrir okkar besta fólk að viðra list sína, gott tækifæri líka fyrir okkur að lepja upp spennandi tónstrauma erlendis frá en Sigur Rós er orðin slík stærð í alþjóðlegum tónlistarheimi að þeir draga til sín fólk á borð við Kevin Shields, Jarvis Cocker, Peaches, Mogwai og svo má telja.

Á hátíðinni er teflt fram tónlist en einnig fyrirlestrum, kvikmyndum, myndlistarsýningum o.s.frv. Það var síðan óvænt útspil þegar tilkynnt var um sérstaka „gloomy holiday“ tónleika, þar sem vel þekkt jólalög yrðu sett í „Sigur Rósar“-legan búning. Þau yrðu útsett á melankólískan, löturhægan hátt af Samúeli J. Samúelssyni (sem hefur unnið margsinnis með Sigur Rós) og flytjendur yrðu m.a. Laddi, Sigga Beinteins og Helga Möller. Þetta var svo rosalega flippað eitthvað að ég hugsaði, eins og einn mikill maður orðaði það: „Það er ekkert víst að það klikki“. Tiltækið sannar um leið dálítið sem of fáir vita af. Sigur Rósar-liðar eru grallarar. Tónlistin epísk og í himinhæðum en höfundarnir jafn miklir grallaraspóar og næsti maður. Útfærslan vakti hins vegar um leið ýmsar áleitnar og alvarlegar spurningar, eins og ég mun koma að.

Helga Möller kom fyrst inn á svið, svartklædd og gotaleg („goth“), líkt og hún væri bakraddasöngkona hjá Sisters of Mercy. „Í hátíðarskapi“ var í takt við forskriftina; hægt, þungbúið en um leið þægilega angurvært. M.ö.o. Sigur Rósarlegt! Fyrstu atriðin hittu illa í mark reyndar. Alexis Taylor (Hot Chip) var ekki alveg að ná í gegn með Twin Peaks-legu „Last Christmas“ og sama má segja um Katrínu Mogensen og hennar útgáfu af „Hátíð fer að höndum ein“. Hlutirnir fóru að ganga betur upp þegar sjálfur Laddi, Sjeikspír hins íslenska gríns, gekk inn á svið. Útgáfa hans á „Snjókorn falla“ var mögnuð. Það var súrrealískt að sjá þennan mikla meistara setja afar sannfærandi sorgarbrag á lagið á meðan svört snjókorn féllu á hann. Tár trúðsins. Laddi er bestur.

Svala var næst og setti „Ég hlakka svo til“ í jarðarfarabúning. Snilld. Þunglyndustu lög Cure hljóma eins og eitthvað með Alvin íkorna í samanburðinum. Ragga Gísla átti þá eitt besta – og óvenjulegasta – innslagið. „Það á að gefa börnum brauð“ varð að tilraunakenndri hávaðalist, „avant-garde“ spuni í hæsta gæðaflokki. Það var líka eitthvað ógurlega myrkt og heiðið við þetta – alvöru jólabragur semsagt. Merkilegt líka, því að Ragga hefur í gegnum tíðina sinnt ýmis konar jaðartónlist, og því heimatökin hæg þannig séð.

Peaches söng lag úr Jesus Christ Superstar sem var svona la la, Helgi Björns gerði vel í því að „Jónsa“ röddina sína í „Ef ég nenni“ og Sigga Beinteins, fyrrum nýbylgjusöngkonan, átti ekki í erfiðleikum með að setja harmrænan blæ á „Nei nei ekki um jólin“. Alin upp á Joy Division og Killing Joke. Er hér var komið sögu var rennslið orðið gott, söngvarar og sveit öruggir og þekkilegur bragur á þessu öllu saman. Daníel Ágúst söng dómsdagsútgáfu af „Have yourself a merry little christmas“ áður en Björgvin Halldórsson og Svala luku kvöldi með „Þú komst með jólin til mín“. Það gerðu þau með glans og Björgvin með flottan Scrooge hatt til að undirstrika temað.

Samfélagsmiðlar loguðu í kjölfar tónleikanna (sem voru sendir beint út á RÚV, vel gert þar) og fólk skiptist í tvær fylkingar. Kristján B. Jónasson, bókaútgefandi, hafði á orði að þetta væri eins og sjónvarpsleikrit eftir Hrafn Gunnlaugsson á 21. öldinni, slík væri hneykslunaraldan. Viðar Halldórsson félagsfræðingur vísaði í minningabók Helga Tómassonar ballettmeistara þar sem Helgi segir að „listin eigi einmitt stundum að ögra, ýta við (og jafnvel hneyksla) í bland við að veita fólkinu bara akkúrat það sem það hefur fengið áður. Stundum heppnast það, stundum ekki. En það að reyna opnar nýjar dyr kemur í veg fyrir stöðnun.“ Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir þýðandi varpaði því fram hvort það mætti jafnvel líta á tónleikana sem fallega heiðrun til þeirra sem líður illa á jólum, sem er ástand sem margir stríða við. Viljandi leiðinlegir. Tómt flipp. Glerhörð samfélagsádeila. Allt þetta í bland?

Það eina sem ég saknaði virkilega var að Laddi skyldi ekki syngja lag sitt „Leppalúði“ sem hann söng inn á plötu Brunaliðsins árið 1978, Með eld í hjarta. Það hefði smellpassað í dagskrána – óbreytt.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: