Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. desember, 2017

Hvað ertu, jólatónlist? Síðari hluti

Í þessum síðari pistli veltir höfundur fyrir sér nýrri jólatónlist m.a. en rýnir og í sálarjólatónlist og Harry Connick Jr.

 

Fyrir hver jól koma ávallt út nýjar jólaplötur með listamönnum sem hafa nú afráðið að láta jólalagaslag standa. Plöturnar eru eins mismunandi og þær eru margar og heimtur voru ekki sérstaklega góðar í ár. Jólaplata Sia virtist spennandi en er það svo alls ekki, Tom Chaplin (Keane) er með plötu sem virkar lítt og Gwen Stefani er og með plötu og sama sagan þar. Merkilegt mál, því hvað er það sem keyrir þessa hluti farsællega í höfn? Rod Stewart gaf út plötu fyrir fimm árum sem mér leist ekkert á en sú plata hitti hins vegar þráðbeint í mark.

Nei, ég nýtti tímann þess í stað að kanna anga sem ég var ekki búinn að rannsaka nægilega vel. Tökum t.d. sálartónlistina. Þar hafa menn einnig verið að ná landi og síðan alls ekki. Al Green og Whitney Houston eiga misheppnaðar tilraunir, Jackson 5 eiga neglu, Stevie Wonder platan er ágæt svona meira og minna. Nýsálarplötur, eins og Houston-platan, eiga það jafnan sammerkt að vera tilgerðarlegar og sírópshjúpaðar, með endalausum söngslaufum sem senda aulahroll um þig allan. Nefni þó eina eftirminnilega undantekningu, plata Mary J Blige (sem heitir að sjálfsögðu A Mary Christmas), hún er góð. Svo eru plötur úr þessum ranni sem maður heyrir sjaldan af. Tökum t.d. Christmas with the Miracles, hvar Smokey Robinson stendur í stafni. Hún er frá 1963, fylgir sömu línu og flestar plötur þeirra tíma upp á efnisval o.s.frv. Það er hins vegar skemmtilega hispurslaus tónn í henni, viss hráleiki og heilnæmt kæruleysi sem býr til töfra. Önnur jólaplata kom svo út 1970, og býr hún yfir svipuðu kynngimagni, en er um leið tíma sinna tákn.

Þegar ég var ungur var ég fordómafull pönkrotta og allt sem var ekki á jaðrinum var drasl. Menn eins og Harry Connick Jr. voru útsendarar djöfulsins. Síðan eru liðin mörg ár. Connick hefur áru Sinatra yfir sér en ólst upp í New Orleans. Píanisti, söngvari, leikari og allra handa „sjóbiss“ gaur. Hann hefur gefið út þrjár jólaplötur og allar eru þær frábærar. Og enginn talar um það! „Krúnukalla“-vinkill, (Crosby, Nat King, Sinatra), New Orleans-stemning, djass, gamall blús. Þriðja platan, What a Night!, er nokkurs konar hápunktur. Útsetningar eru pældar, hlaðnar og djúpar – oft farið í óvæntar sveigjur og beygjur – og útsetningin á „O Come All Ye Faithful“ er beinlínis avant-garde. Já, ég var að segja þetta! Þetta ameríska rennerí á jólalögunum er eitthvað sem er afar nálægt okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Langflestir standardarnir voru samdir þar ca. 1930-1940. Jólaplötur Nat King Cole og Bing Crosby holdgera jólin því á margan hátt. Ég held mig t.a.m. sterkt við eina hefð. Hinn 24. desember er það mitt fyrsta verk að setja „White Christmas“ með Bing á fóninn, hækka vel og leyfa laginu að fylla upp í stofuna. Andaktin sem leggst yfir mig á þeirri stundu er rosaleg. Gleðileg jól.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: