[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. júní]

23. júní 2012 | Fólk í fréttum | 511 orð | 2 myndir

Ekkert sæði í ræsinu…

• Ian Anderson flutti Thick As A Brick í Hörpu í gær og fyrradag

Ég hitti engan sem ég þekkti á tónleikum Ians Andersons og félaga í Hörpu á fimmtudaginn er hann flutti tvö konspeptverk, Thick As A Brick eitt og tvö í heild sinni. Þeir voru þarna ábyggilega einhvers staðar en ég varð ekki mikið var við þá. Jú, ég sá reyndar Jónatan Garðarsson tilsýndar og gítarguðinn Björgvin Gíslason sat við hliðina á mér. Það var allt og sumt. Á Elvis Costello vantaði hins vegar ekki málsmetandi tónlistarunnendur og fína og fræga fólkið sat um Bryan gamla Ferry. Mér fannst þetta styðja við þá hugmynd sem lengi hefur verið haldið á lofti í garð hljómsveitar Ians Andersons, Jethro Tull. Þetta er hljómsveit fólksins, herbergiskytruhlustandans, nördanna. Hún verður aldrei nokkurn tíma svöl en einhverra hluta vegna (tónlistarinnar sjálfrar grunar mig!) á hún harðskeyttan og býsna stóran hóp aðdáenda. Og í þeirra huga skiptir engu máli hvort hinn eða þessi sé hér eða þar. Það eina sem máli skiptir er að Ian Anderson sé þar.

Innblásið

Og það var hann svo sannarlega. Og hann var ekki bara líkamlega á staðnum, hann var „algerlega“ á staðnum, í listrænum skilningi og hvað innblástur varðar. Ég var spenntur fyrir kvöldinu en það skilaði miklu meira til okkar en ég þorði nokkurn tíma að vona.
Þegar ég var að leita að sætinu mínu stóð piltur hjá röðinni, íklæddur ljósbrúnum rykfrakka og með ferðatösku. Undarlegt. Þetta reyndist svo vera Ryan O‘Donnell; söngvari, leikari og dansari sem tók þátt í uppfærslunni á verkunum. Í stað þess að trukka einfaldlega í gegnum tónlist sem allir þekkja, henda í eitt stykki nostalgíu og hlaupa svo í burtu með peningana er búið að vanda til verka, búa til metnaðarfulla margmiðlunarsýningu sem er á mörkum tónleika og leiksýningar. Það mátti svosem búast við öðru eins af vinnuhestinum sjarmerandi Ian Anderson. Hann er lítið gefinn fyrir að gera hlutina til hálfs.

Til fyrirmyndar

Á milli verka, fyrir þau og eftir fengum við t.d. að sjá stutta leikþætti á tjaldinu þar sem Ian Anderson brá sér í hlutverk læknis og uppskafningslegs jarls. Myndskeið útskýrðu framvindu verkanna og Anderson fékk meira að segja tvo áhorfendur til að sprella aðeins með sér. Tónlistarflutningurinn var óaðfinnanlegur og magnað að heyra hið ótrúlega verk Thick As A Brick á sviði. Orðsporið sem það nýtur er verðskuldað, það er ekki dauður punktur þær 43 mínútur sem tekur að flytja það, er eins og Die Hard proggplatnanna. Það sem var hins vegar óvænt er að framhaldið, Thick As A Brick 2, rúllaði einnig örugglega. Það er djarfur leikur að bjóða fólki að sitja undir tónlist sem er svo gott sem óþekkt (platan kom út í apríl sl.) en lagasmíðarnar eru glettilega sterkar og hæglega það besta sem Anderson hefur skrifað í mörg, mörg ár.
Anderson sannaði að menn á hans aldri þurfa ekki að lalla þumbaralega í gegnum fyrri tíma afrek. Þeim er vel hægt að sýna þá virðingu sem þau eiga skilið og er verkun Anderson á þessu til mikillar fyrirmyndar. Þannig var góður andi í kringum þetta allt saman, einhver hrein og nærandi gleði sem smitaði. Ian, djö… ertu með þetta!

One Response to Tónleikadómur: Jethro Tull í Hörpu

  1. Það er bara þessi flauta… hún fer alveg hrikalega í taugarnar á mér og rúmast ekki í mínum herbergiskytrum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: