Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. september, 2017

Yfir og allt um kring


Joan Shelley, þjóðlaga- og kántrílistamaður frá Louisville, Kentucky, lék á undursamlegum tónleikum í Mengi nú á miðvikudaginn.

Maður er alltaf að garfa eftir nýrri tónlist og rekst á býsna margt fyrir helbera tilviljun. Man ekki hvernig ég hafði uppi á Joan Shelley en man að ég rúllaði fjórum lögum af því sem ég taldi vera stuttskífu, Over and Even, á Spotify. Komst svo að því í spjalli við listamanninn eftir tónleikana sem hér eru til umræðu að um hluta af breiðskífu hefði verið að ræða. „Við vildum bara ekki setja hana alla í einu inn á Spotify,“ sagði Shelley og brosti kankvíslega. Þegar ég hlustaði á nefnda plötu tók ég fyrst eftir því hversu auðveldlega tónlistin streymdi fram og umlukti mann. Appalasíu-þjóðlagatónlist, en samt ensk þjóðlagatónlist líka en allt nútímavætt um leið. Maður féll í þægilega ró bara við að labba framhjá græjunum (og ég byrja oft daginn á þessari hugleiðandi tónlist). Svo tók ég eftir rödd sem ég kannaðist ískyggilega mikið við og já, þetta var hann! Sjálfur Will Oldham. Kemur í ljós að þau eru bæði frá Louisville sem skýrir þann gestagang. Ég mundi eftir Shelley og beið spenntur eftir næstu breiðskífu sem kom út í vor, samnefnd henni. Olli hún engum vonbrigðum (fleiri nöfn, Jeff Tweedy (Wilco) var á tökkunum þar).

Mig rak því í rogastans er ég sá auglýsta tónleika með henni í Mengi og brá mér þangað inn, nema hvað. Mengi er einfaldlega dásamlegur staður og búinn að vera lengi vel skjól fyrir framsækna tónlist af alls kyns toga og bara gæðatónlist almennt. Salurinn var myrkur mjög, sem hæfði Shelley frábærlega, stemning sem bæði er í tónlistinni og t.d. í myndinni sem fylgir þessari grein. Hárfínn samhljómur á öllu. Shelley rölti inn á svið við annan mann, Nathan Salsburg, og settust þau hvort í sinn stólinn með gítarana sína. Hófust svo leikar. Fingrafimi beggja var sláandi, algjört „virtúós“-flæði í gíturunum þar sem þjóðlagalykkjur og -stemmur krulluðust út í salinn. Yndislegt. Shelley er góð söngkona, röddin bæði sterk og falleg og kallaði að einhverju leyti Sandy Denny eða Anne Briggs fram. Þriðja lagið, „If the storms never came“, keyrði efnisskrána í gang og tvíeykið var giska öruggt – en afslappað um leið. Létt spjall á milli laga, brandarar og nærandi súrsætur feginleiki yfir því að nú væri hljómleikaferðalagið þeirra loks á enda („ég er rétt farinn að læra lagalistann og þá er þetta búið!“ sagði Nathan og uppskar hlátur).

Shelley endaði tónleikana með því að syngja ein og án undirleiks stemmu sem hún taldi að hefði borist til Kentucky í gegnum járnbrautarlagningarmenn. Heyra mátti saumnál detta. Yndisstund í Mengi – enn og aftur.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: