Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. júní, 2017

Ólíkindatól í Kanada

Bandaríska rokksveitin Tool hélt tónleika í Edmonton, Kanada, frammi fyrir 20.000 manns. Pistilritari var á staðnum og lapti upp snilldina.

Vinur minn kær í tæplega fjörutíu ár stakk upp á því við mig að við færum saman til Kanada á Tool-tónleika fyrir stuttu. Þrátt fyrir að vera störfum hlaðinn (ég veit, ég er líklega sá eini) skeytti ég í engu um slíkt og stökk á þetta tækifæri. Í undirmeðvitundinni var ég eiginlega á því að ég þyrfti líka að brjóta upp dagskrána og hvað er betur til þess fallið en hressandi þotuþreyta, dúndrandi rokk og gæðastund með góðum vini?

Nema hvað, Tool er orðin fræg að endemum fyrir það að gera ekki það sem ætlast er til af henni, það er að búa til tónlist. Síðasta plata, 10.000 Days, kom út fyrir ellefu árum og ekki nema von að fólk sé orðið óþreyjufullt. Það sem gerir þetta þá enn erfiðara er að tónlist Tool er fullkomlega mögnuð, einstök vil ég segja, og minnstu grunsemdir um að Tool-liðar séu komnir inn í hljóðver setja stóran aðdáendahópinn á hliðina.

Hluti af honum var samankominn í glæstri tónleikahöllinni í Edmonton sem ber hið skondna nafn Roger‘s Place. Skringilegt nafn yfir þetta 30.000 manna íburðarmikla mannvirki. Samsetningin á áhorfendum var athyglisverð, þrátt fyrir að ein milljón manns búi í Edmonton og nágrenni er borgin hálfgerður sveitastaður og stemningin var líkt og þegar frægar sveitir renna í gegnum lítil kauptún, heimsóknin er fréttnæm og allur staðurinn mættur; þú, frændi þinn og amma þín líka. Það var innileg rólyndis-stemning yfir sem hefur eitthvað að gera með það að aðdáendur eru að eldast með sveitinni, flestir um og yfir fertugt og brjálæði unglingsára komið í baksýnisspegilinn.

Þessi ættarmótsbragur hjálpaði til við upplifunina. Og þar stóð Tool sína plikt með glans. Tónleikarnir mikið sjónarspil; leysigeislar, myndbönd, reykur og sprengingar. Leikar hófust á ógurlegu upphafslagi Lateralus, „The Grudge“ og enduðu á „Stinkfist“ af Ænima. Þar á milli var rúllað í gegnum helstu „smellina“ sem prýða þrjár hljóðversplötur Tool til þessa. Þessi merka sveit gerir rækilega út á dulúð og leyndardóma, textar og umslagshannanir lyklaðar í sálfræðikenningar og indjánaspeki og gotneski blærinn yfir þessu öllu saman er þungur og knýjandi. Enginn meðlima stendur jafn kirfilega að þessu og forsöngvarinn, Maynard James Keenan, sem er ugluspegill mikill, háll sem áll og erfitt að lesa í hann. Eina stundina er hann grafalvarleg vampíra sem lætur Peter Murphy úr Bauhaus líta út eins og Pee-Wee Herman en aðra er hann kominn í grallaragrínið með hliðarverkefni sínu Puscifer. Þá er hann vínframleiðandi í ofanálag og þá breytir hann algerlega um gír og ég hvet forvitna til að fletta upp „Maynard James Keenan Red Wine“ á YouTube.

Keenan stóð til hliðar við trommusettið og söng, gagngert til að storka hugmyndum okkar um aðalsöngvarann sem lætur dýrka sig á miðju sviði. Maður bölvar honum í hálfum hljóðum fyrir þetta athæfi, sem snertir vel á tilgerðinni á köflum. Ótrúlegt var að fylgjast með trymblinum, Danny Carey, sem verður að teljast einn rosalegasti rokktrommuleikari samtímans og maður hugsar um menn eins og Neil Peart (Rush) og Tomas Haake (Meshuggah) þegar maður ber ósköpin augum.

Adam Jones gítarleikari og Justin Chancellor bassaleikari eru á svipuðum slóðum með sín hljóðfæri og Tool rúllaði áfram eins og skriðdreki í gegnum öruggt sett. Ég gekk sæll og kátur út í Edmonton-nóttina með vini mínum kærum, frænda, ömmu og öllum hinum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: