Stuð Bagdad Brothers í höfuðstöðvum útvarpsstöðvarinnar WNYU í New York. June Mota er lengst til vinstri og Sam Hafferty, frá WNYU, fremst.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. ágúst, 2019.

Bagdad í Bandaríkjunum

Íslenska nýbylgjurokkssveitin Bagdad Brothers fór í tónleikaferðalag um þver og endilöng Bandaríkin í sumar. Bjarni Daníel, einn liðsmanna, upplýsti pistilritara um málið.

Hljómsveitin Bagdad Brothers er hluti af hinu mjög svo virka útgáfusamlagi post-dreifing og hefur á undanförnum misserum haldið fjölda tónleika og sömuleiðis gefið út slatta af efni. Síðastliðið haust setti June nokkur Mota, Kanadamaður sem starfar undir merkjum sveitarinnar Un Ashley, sig í samband við sveitina. Fór svo að Bagdadbræður hjálpuðu honum við að koma upp einum tónleikum á Íslandi, en Mota var að millilenda frá Berlín á leið sinni heim til Montreal. Vinskapur tókst með Mota og sveitinni, svo mikill að í sumar fóru Bagdad Brothers í heilmikið tónleikaferðalag um Bandaríkin og Kanada fyrir milligöngu Mota. Í júní voru spilaðir um 25 tónleikar á stöðum eins og Montreal, Brooklyn, Fíladelfíu, Athens, New Orleans, Austin, LA, Seattle, Portland, Chicago og Moskvu (í Idaho).

Mannskapurinn, þau Bjarni Daníel, Sigurpáll Viggó, Þóra Birgit, Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir og Ægir Sindri, flaug út til Montreal þar sem þau byrjuðu á að æfa lög Un Ashley, en þau störfuðu og sem undirleikarar fyrir Mota, þannig að tónleikarnir urðu hartnær 50!
„Við leigðum okkur sendiferðabíl, tróðum farangri, hljóðfærum og okkur sjálfum inn, og svo var bara keyrt af stað,“ segir Bjarni. „June, sem er á svipuðum aldri og við (23 ára), hafði græjað alla tónleikana í gegnum tengslanetið sitt. Senurnar í hverjum bæ eða borg voru þannig lagað svipaðar; neðanjarðar „gerðuþaðsjálfur“-menningarkimar og merkilegt að kynnast þeim. Á svona túrum nærðu samt ekki, þannig séð, að finna almennt fyrir þeim svæðum sem þú ferð í gegnum. Tíminn fer í að keyra, róta, spila, sofa, borða og við vorum mikið til innan um þá kreðsu sem stóð fyrir hverjum og einum tónleikum. Blæbrigði hvers ríkis fóru því dálítið framhjá okkur, við fundum helst fyrir muninum í gegnum bensínverðið (hlær)!“

Bjarni segir að eftir u.þ.b. viku hafi verið komin góð rútína á þetta líf þeirra. Snemma lærðu þau að pakka almennilega í bílinn t.d. og um miðbikið voru þau farin að lifa túrlífinu eins eðlilega og hægt er.
„Það voru engar sprengingar í samskiptum eða stórvægilegar uppákomur, og ég viðurkenni að við öll – sem erum góðir vinir – vorum langstressuðust fyrir því í upphafi ferðar. Við vissum að við yrðum hvert ofan í öðru upp á dag í rúman mánuð. En þetta gekk upp og með tímanum lærði fólk líka betur hvað inn á annað; hvernig væri best að gefa hinum svigrúm o.s.frv. Ef eitthvað er er vinskapurinn betri og þéttari en nokkru sinni.“

Og sannarlega reyndi á samstöðu og bjargræðishæfileika, gisting var t.a.m. ekki alltaf komin í höfn en slíkt reddaðist ávallt. Mikið var um að þau svæfu í heimahúsum, hjá tónleikahöldurum t.d. og góðviljuðu tónlistarástríðufólki. „Mér var sagt að þetta væri ekki jafn algengt og í Evrópu t.d. þannig að við vorum afar þakklát fyrir þessa velvild alla.“

Tónleikalega séð gekk á ýmsu; á suma tónleika var dræm mæting eins og gengur en í Boulder í Colorado, af öllum stöðum, var húsfyllir á eins lags stofutónleikum. 150 manns.

„Mér fannst þetta alveg meiriháttar,“ segir Bjarni að lokum og brosir breitt. „Ótrúleg reynsla. Samt dálítið skrítið að vera búinn að vera í Bandaríkjunum heilan mánuð og sjá þau að mestu leyti út um bílrúðu!“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: