Þegar rætt er um Van Morrison kemur lýsingin “Celtic Soul Brother” oft upp, að hann standi fyrir nokkurs konar nútíma keltneskt popp (þetta er túlkað á mjög opinn hátt reyndar), tónlist hans umfaðmi þessa keltnesku “verund” enda er hann írskur/norður-írskur, fæddur í Belfast.

Hins vegar vann hann mjög seint með írska tónlist í sinni eigin tónlist, þó það megi vel vera að þessi arfleifð hans hafi verið til staðar á einhvern hátt á fyrri hluta ferilsins; í textum, hvernig hann bar sig á sviði/í viðtölum eða á myndum/umslögum. En öll tónlistin var fyrst og síðast amerísk. Blús, sálartónlist, rokk, þjóðlagatónlist (af Ameríkukyni).

Það er í hinu magnaða “Streets of Arklow” (af Veedon Fleece, 1974, sem er eitt af höfuðverkunum hans) sem hann dýrkar í fyrsta sinni upp eitthvað sem tengja má við Írland tónlistarlega. Flautukafli undirstingur þetta en heildarandinn í laginu hvað mest; stemningin er grámóskuleg og maður sér fyrir sér stillt, hráslagalegt en fallegt haustveður. Lagið enda um heimsókn í téðan bæ, sem er í Írlandi.

Eftir Veedon tók Morrison sér þriggja ára hlé en sneri aftur með A Period of Transition (1977); stirðbusalegt en þó heilsteypt verk. Sú plata er al-amerísk, sama gildir um Wavelength (1978) en svo loksins (já, loksins segi ég) tekur hann Írann alla leið á Into the Music (1979), í laginu “Rolling Hills” (sem er að vísu eina lagið sem er þannig á þeirri plötu. Into the Music er annað lykilverk en það er önnur saga).

Írsku áhrifin vætluðu svo inn með tíðara millibili á níunda áratugnum allt þar til Morrison gerði það sem hafði lengi legið í loftinu. Hann vann heila plötu með Chieftains (Irish Heartbeat, 1988) þar sem írsk tónlist er eðlilega til grundvallar. Sú plata er frábær og það sem er kannski mest heillandi við hana er að maður heyrir að Van er pínu óöruggur innan um kanónurnar í Chieftains. Það er því ákveðinn keppnismaður í honum – vegna hinna ókunnu slóða – og það skilar sér í yndislegum tökum á köflum (“She Moved Through the Fair” er besta dæmið þar um).

PS:

Ég hef sjaldan heyrt listamann ná jafn þráðbeinum tengslum við andagiftina og Van Morrison gerir í “And the Healing Has Begun” (af Into the Music, 1979). Þetta á sér stað í laginu sjálfu, hlustandinn heyrir það bókstaflega gerast og áhrifin af þessu eru ótrúleg. Eitt magnaðasta lag sem ég hef heyrt. Með laginu fer Morrison bókstaflega “into the music” og á lögunum sem fylgja, “It’s All in the Game” og “You Know What They’re Writing About” grefur hann sig enn dýpra inn í hana, líkt og hann sé kominn inn í einhverja hulu.

Þetta lag markar líka ákveðinn snúning á ferli Morrison á þessum árum. Hann var nú “tengdur” á nýjan leik, eins og heyra má t.d. á Common One og tónleikum hans á Montreux Jazz Festival árið 1980, þar sem okkar maður er innblásinn sem aldrei fyrr.

One Response to Van Morrison: Írskur eða ekki?

  1. Lynda says:

    At last! Someone with the insight to solve the prmloeb!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: