LAND, LAN, ABBA

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. október, 2015

Diskó í geimnum

• Diskótónlist kemur þónokkuð við sögu í kvikmyndinni The Martian
• En hvað kemur ABBA þá málinu við?

Ég brá mér í kvikmyndahús á dögunum til að berja augum nýjan vísindaskáldsögutrylli sem mikið hefur verið látið með. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar en myndin atarna heitir The Martian og skartar Matt Damon í burðarrullu (og Jeff Daniels fer líka á kostum í sterku aukahlutverki, bara svo ég nefni það). Myndin fjallar um geimfara á Mars sem verður viðskila við áhöfn sína og þarf að finna leiðir til að lifa af en líkurnar á því að það takist eru fremur litlar, verður að segjast. Myndinni er leikstýrt af Ridley Scott og öllum þeim afþreyingar- og poppkornskröfum sem þú kannt að gera er mætt og vel það. Tónlist er í myndinni, nema hvað, en auk hefðbundinnar bakgrunns- og áhrifstónlistar leikur diskótónlist hálfgert aukahlutverk í myndinni, er svona grallaralegur senuþjófur. Söguhetjan þolir nefnilega ekki tónlistina en hún er það eina sem fyrirfinnst í fátæklegum geimbækistöðvunum.

Poppgreiningardeildin

Kvikmyndagerðarmennirnir leika sér með þetta diskógrín og við heyrum lög með Gloriu Gaynor, Donnu Summer og fleirum… og ABBA. Og þá fór poppgreiningardeildin af stað. Það var greinilegt að ABBA var stillt upp sem diskóhljómsveit þarna, eitthvað sem hún var hins vegar ekki.
ABBA starfaði í tíu ár, frá 1972-1982, og á einni plötu, Voulez-Vous (1979), daðraði hún við diskó. Það var allt og sumt. ABBA var fyrst og síðast popphljómsveit. Stjórnendur myndarinnar vaða hins vegar áfram í villu og svíma, heilt atriði er tekið undir „Waterloo“ (sem var fyrsti smellur ABBA, Evróvisjónsigurlagið frá 1974, en það hefur nákvæmlega ekkert með diskó að gera) og svo er tvöfaldri safnplötu með ABBA veifað framan í okkur í einum rammanum en þar situr ABBA-fólkið fyrir í hippískum klæðum, einkar ódiskólegt á að líta. Fyrir tónlistaráhugamann er hreint óþolandi að berja þennan poppsögulega misskilning augum en ég hef reyndar orðið var við að Bandaríkjamenn og Bretar afgreiða ABBA oft sem diskóhljómsveit einhverra hluta vegna, fáfræði sem fær okkur Skandínavana til að hnykla brýnnar. Og ég upplifði reyndar slíkt frá fyrstu hendi í djúpvitrum poppfræðispjöllum hér úti í Edinborg þar sem einn vitringurinn lýsti ABBA sem slæmu diskói fyrst og fremst. Þannig var talað um þessa merkustu poppsveit sögunnar en einungis Bítlarnir standa framar í poppsmíðasnilli (já, þið lásuð það hér).

Kastað til höndum

Undanfarin ár hafa komið fram myndir, mér dettur t.d. Sofia Coppola í hug, þar sem tónlistarþættinum er ríkulega sinnt og eiga þær orðsporið m.a. undir honum (Lost in Translation og Marie Antoinette t.d.). Miðað við hvað þessi diskóbrandari er rúmfrekur í myndinni, er þetta eiginlega óafsakanlegt. Það undarlega í þessu öllu saman er að lítið er til sparað þegar svona myndir eru framleiddar. Það skýtur því skökku við að menn kasti til höndum í þessum efnum, í raun hefði bara þurft eitt símtal við sæmilega fróðan poppnörd (ekki amerískan eða breskan þó) til að koma í veg fyrir þetta. Ég veit að myndin er byggð á bók, en það er engin afsökun heldur. Myndgerðarmenn hefðu þá getað nýtt tækifærið og lagað villuna. Saturday Night Fever-umslagið í stað ABBA t.d.; diskósmell í stað Evróvisjón-popplags. Ef það á að flippa með diskó, þá eru lágmarkskröfur að eiginleg diskótónlist sé brúkuð.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: