goldfrapp

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. september, 2013]

Milli svefns og vöku

• Sjötta hljóðversplata enska dúettsins Goldfrapp kallast Tales of Us
• Afturhvarf til hins dulræna – og á vissan hátt til upphafsins

Hin ríka innistæða Goldfrapp í dægurtónlistarheimum er að megninu tilkomin vegna fyrstu plötunnar, Felt Mountain, sem út kom um aldamótin 2000. Margir sáu þar líkindi með Portishead (kannski vegna óþreyju eftir nýju efni frá þeirri merkissveit) en Goldfrapp var þó á engan hátt einhver sporfari hennar. Á plötunni var unnið á frumlegan hátt með minni úr kabarett, klassísku sjöunda áratugar poppi og raftónlist svo eitthvað sé nefnt, hræran í senn sannfærandi og seiðandi. En á plötunni sem á eftir kom, Black Cherry (2003) fengu aðdáendur heldur betur „ekki“ það sem þeir vildu; í stað áframhaldandi draumastemma var komið diskódrifið evrópopp. Á fjórðu plötunni, Seventh Tree (2008), voru svo kassagítararnir drifnir út og það verk lágstemmt, eiginlega bundið í nokkurs konar sveitasælu. Markaðsmógúlar rífa hár sitt eðlilega en það er einmitt þessi óræði þáttur sem gerir sveitina svo spennandi. Enginn veit hverju hann má eiga von á. Síðasta plata, Head First (2010), fór þá fram á diskóskreyttu dansgólfinu að mestu en nýja platan ber hins vegar enn eina u-beygjuna með sér (nema hvað), innihaldið dökkt og dreymið, dálítið í ætt við fyrstu plötuna. Tales of Us er hins vegar berstrípaðri og línulegri, hljómar á köflum eins og eitt langt sveimverk brotið upp í nokkra hluta.

Sveit og borg

Goldfrapp (sem er dúett þeirra Will Gregory og Alison Goldfrapp) endurræsti heimasíðu sína í sumar til að tilkynna um plötuna. Upplýsingar voru þó strjálar, í takt við svart/hvíta dulúð verksins. Fram hefur þó komið að platan var tekin upp í „sveitinni“ en hljóðblöndun fór fram í London. Alison Goldfrapp gaf þá viðtal við tónlistarbloggið stórgóða Idolator í vikunni en dúettinn hefur haldið sig hæfilega til hlés í þeim efnum. Þar upplýsir hún m.a. að hún sé ekki sérstaklega ánægð með síðustu plötu þar sem þrýstingur frá útgáfunni hafi þvælst fyrir vinnunni (Goldfrapp sagði skilið við E.M.I. eftir þá plötu og er nú á hinu hæfandi merki Mute). Í þetta sinnið hafi þau passað sig á að renna ekki út á tíma – en um leið að klára dæmið innan einhvers ásættanlegs tímaramma. Lög plötunnar heita öll, utan eitt, eftir persónum og hún segir frá því að „Alvar“ sé undir áhrifum frá Íslandsheimsókn og hún sé með þráhyggju í garð hrauns, fjalla og vatna. Klassísk evrópsk kvikmyndamenning, rökkurbækur og fleira hafi þá verið henni innblástur einnig að plötunni í heild.
Kvikmyndavinkillinn er það sterkur reyndar að gerðar verða „örmyndir“ við fimm laganna en leikstjórinn er Lisa Gunning. Tvö eru þegar komin út (sjá youtube-rás sveitarinnar) og munu myndirnar verða sýndar í kvikmyndahúsum er líður á haustið.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: