carcass ulcerate

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. september, 2013]

Ómþýð þykkildi

• Tvær merkar öfgarokksskífur með Carcass og Ulcerate eru komnar út
• Fánaberar hins nýja og hins gamla

Hér verður tveimur stórmerkum öfgarokksskífum sem eru nýkomnar út slegið saman í eina spikfeita grein, annars vegar er um að ræða fyrstu breiðskífu hinnar ógurlegu Carcass í sautján ár en hins vegar er um að ræða fjórðu breiðskífu nýsjálensku ný-dauðarokkssveitarinnar Ulcerate sem er í fararbroddi í þeim geiranum hvað framþróun og hugmyndaauðgi varðar. Báðar komu plöturnar út föstudaginn 13. september. Segja má að þessar sveitir séu tvær hliðar á sama gæðapeningi, eini munurinn er að tímamótgjörningar Carcass áttu sér stað tuttugu árum fyrr.

Snoðklipptir dauðarokkarar!?

Ég hafði verið að hlusta eitthvað á Ulcerate og líkað vel en ég viðurkenni að þegar ég sá mynd af henni í fyrsta sinn jókst áhugi minn til mikilla muna. Tónlistin framþróað dauðarokk; níðþungt og giska tæknilegt en hér stóðu snoðklippt ungmenni, rjóð í andlitum og minntu fremur á harðkjarnasveit í gaggó en þá hrikalegu rokksveit sem maður nam úr hljóðrásunum. Útlit segir oft ákveðna sögu, líkt og þegar myndir af svartmálmssveitinni Liturgy frá Brooklyn sýndu menn sem minntu fremur á latteþambandi hipstera en þá ófrýnilegu og sveittu þungarokkara sem fólk vill samsama þeirri tónlist. Allt varð brjálað í þungarokksheimum vegna þessa. Á líkan hátt hefur Ulcerate gert skurk í nýdauðarokkinu og framfærsla þeirra nokk einstök. Þar gildir þó mest hversu frábærlega sveitin nær að brúa bil ólíkra þátta. Meðlimir eru algerir yfirburðamenn hvað tæknigetu varðar, tónlistin á köflum stærðfræðileg en sú staðreynd keyrir aldrei yfir tilfinningaþrungann, ástríðuna og – já – fegurðina sem er bundin í hana. Þetta er eins og fyrri tíma Sigur Rós hefði hitt á seinni tíma Gorguts á miðnæturfundi. Fjórða platan kallast Vermis og kemur í kjölfar hinnar stórkostlegu The Destroyers of All (2011) og ég hvet alla áhugamenn um alvöru tónlistarsköpun til að tékka á þessari sveit.

Meistararnir

Mér er minnisstætt þegar Sigvaldi Ástríðarson (stundum nefndur Valli Dordingull) sagði við mig með fullum þunga að Carcass væri að hans mati besta þungarokkssveit allra tíma og hefur sá mæti maður hlustað á drjúgan skammtinn af slíkri list. Ég vissi upp á hár hvað hann var að meina. Ferill Carcass er með ólíkindum, sveitin þróaðist á ljóshraða á tiltölulega stuttum tíma og olli miklum straumhvörfum í sínum geira, gerði skurk mikinn svipað og Ulcerate. Upphaflega lék sveitin „grind-core“ að hætti Napalm Death en á tímamótaplötunni Necroticism – Descanting the Insalubrious (1991) hjó hún í alls óþekktan knérunn; tónlistin mögnuð blanda af hráleika fyrri verka, hefðbundnu dauðarokki og framsæknu, tilraunaglöðu rokki sem er skuldlaus eign Carcass. Á Heartwork (1993) mátti enn heyra breytingar, áhrif frá melódískum tvígítarleik Iron Maiden lék um lagasmíðarnar; aðgengilegt verk á margan hátt en listræn heilindi alger. Frábær plata. Carcass lagði upp laupana eftir hina réttilega nefndu Swansong (1996) en sneri aftur árið 2008 og hefur leikið á hljómleikum með reglubundnum hætti síðan.
Platan nýja, Surgical Steel, er í anda síðustu platnanna en sveitin er nú skipuð upprunalegu meðlimunum Jeff Walker og Bill Steer ásamt þeim Ben Ash gítarleikara og Daniel Wilding trommuleikara en hann er fæddur 1989, árið sem önnur plata Carcass, Symphonies of Sickness kom út. Gamalt – og nýtt – svo sannarlega!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: