haim-grown

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. september, 2013]

Elsku besta systir mín

• Mikið „suð“ hefur verið í kringum systratríóið Haim frá Kaliforníu í rúmt ár
• Fyrsta breiðskífa þeirra, Days Are Gone, kemur loksins út um mánaðamótin

„Sisters Are Doin’ It for Themselves,“ er lína sem klingir í kollinum á mér þar sem ég hleð í þennan pistil. Þessi lína er og titill lags sem Annie Lennox og Aretha Franklin sungu saman árið 1985, lag sem naut mikilla vinsælda, svo mikilla að það er pikkfast í kolli poppáhugamanna sem hægt er að skilgreina sem „börn níunda áratugarins“. Lag þetta er reyndar ekki nema miðlungsgott en þessi eina lína og textainnihald (kröftugt ákall til kvenna og réttindabaráttu þeirra) leiddi óhjákvæmilega hugann að umfjöllunarefninu, tríóinu Haim, sem er skipað þremur músíkölskum systrum frá Kaliforníu. Popptónlist samtímans er oft og tíðum rúllað af ísköldu færibandi en systurnar „gera þetta hins vegar sjálfar“; semja lögin, leika á hljóðfærin og koma til dyranna eins og þær eru klæddar, bæði efnislega og andlega. Um þær leikur sjarmerandi ára sem hefur haldið eyrum poppheima vel sperrtum í nokkur misseri.

Fjölskyldupopp

Systurnar ólust upp í San Fernando-dalnum og er sú elsta, Este, fædd 1986, ári eftir að téður baráttusöngur kom út. Hinar eru þær Danielle (fædd 1989) og Alana (fædd 1991). Allar bera þær eftirnafnið Haim. Hin margvíslegu hljóðfæri leika í höndum þeirra en tónlistarlegt uppeldi þeirra var ríkt enda báðir foreldrarnir forfallnir áhugamenn um hina æðstu list. Foreldarnir settu meira að segja á stofn fjölskylduband, Rockinhaim, þar sem allir sem vettlingi gátu valdið tóku þátt í að flytja tökulög af margvíslegum toga í veislum og öðrum samfélagsuppákomum í dalnum. Danielle og Este voru þá um hríð í Valli Girls, stúlkna/krakkabandi sem var á mála hjá Sony/Columbia.
Gagnrýnendur hafa átt í stökustu erfiðleikum með að lýsa hljómi sveitarinnar, sem veit jafnan á gott, og hafa nöfn eins og Fleetwood Mac og En Vouge verið nefnd og tónlistin sé bræðingur af ný-þjóðlagatónlist, tíunda áratugar „R&B;“-i og níunda áratugar svuntuþeysarapoppi (Eurythmics kannski?). Haim var stofnuð 2006 en það var fyrst í fyrra, eftir magnaða tónleika á tónlistarhátíðinni áhrifamiklu South by Southwest í Austin sem hjólin fóru að snúast. Línurnar voru svo lagðar er sveitin toppaði hinn stefnumarkandi „Hljóm ársins 2013“ sem BBC stendur að og sveitin er þá á mála hjá umboðsskrifstofunni Roc Nation sem Jay-Z rekur.

Heimsyfirráð

Sterkar smáskífur hafa haldið Haim í sviðsljósinu og frá sumri 2012 hafa þær verið fjórar, „Forever“, „Don’t Save Me“, „Falling“ og „The Wire“. Haim þykir þá afbragðs tónleikasveit og í viðtölum vefja systurnar blaðamönnum um fingur sér. Já, það er margt með þessari sveit og heimsyfirráð ekki svo ólíkleg þegar allt er saman tekið.
En „platan“, „breiðskífan“ er ennþá mikilvægt viðmið í poppheimum og það þrátt fyrir mikla og öra tækniþróun og breytingar á neyslumynstri þeirra sem elskir eru að poppi. Allar smáskífurnar sem nefndar hafa verið prýða plötuna sem var tekin upp af þeim Ariel Rechtshaid (Vampire Weekend, Usher) og James Ford (Arctic Monkeys, Florence + the Machine) og segir aðkoma þeirra ýmislegt um hversu fjölskrúðug platan er. Hið mikla og auðvelda aðgengi yngri kynslóða að tónlist frá öllum tímum og úr öllum geirum litar oft sköpunina og oft er allt á tvist og bast þar sem áhrifum frá hinum ólíkustu áttum er hrært undanbragðalaust saman, með hætti sem eldri tónlistarmönnum hefði líklega aldrei hugkvæmst. Haim er kristaltært dæmi um þessa þróun mála.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: