[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. október]

Bróðurbetrungur?

• Martha Wainwright hefur gefið út sína fjórðu plötu
• Stendur bróður sínum Rufus síst að baki

Mér hefur alltaf þótt Martha Wainwright eiga mun meiri athygli skilið en hún hefur fengið, plötur hennar hingað til – og þá tel ég þessa með líka – eru allar sem ein tilkomumikil verk, hún er alvöru listamaður með a.m.k. jafn mikið undir í sinni listrænu sál og bróðirinn frægi Rufus. Eða pabbinn frægi Loudon. Eða mamman Kate McGarrigle. Eða. Já, það er á stundum ekki öfundsvert að tilheyra einni frægustu músíkfjölskyldu Ameríku, líkurnar á því að maður troðist undir í hæfileikagnóttinni eru töluvert miklar. En já, ég sver og sárt við legg að Martha hefur ekkert að gera í einhverja neðanmálsgrein hvað þessi mál varðar. Kíkjum aðeins á „kanónuna“ hennar, þessu til sönnunar.

Á borðið

Fyrsta plata hennar, samnefnd henni, kom út 2005 en þá var hún orðin 29 ára gömul. Reyndar hafði sex laga stuttskífa komið út 1999 og hún hafði verið virk sem gestur hjá foreldrum, frænkum og frændum síðan hún byrjaði að labba eða svo gott sem. Og tveimur árum áður hafði hún gefið út kassettu, Ground Floor, þannig að tilhlaupið að þessari fyrstu breiðskífu var ansi langt. Henni var þá fylgt úr hlaði með stuttskífunni Bloody Mother Fucking Asshole (einmitt það já! Titillinn vísar í pabba hennar, talandi um að leggja spilin harkalega á borðið en þau systkini hafa reyndar bæði verið einkar hreinskilin um það hversu mikill drullusokkur hann sé). Í dómi um þessa tilteknu stuttskífu á allmusic.com er farið mjög nærri um eigindir Wainwright sem söngkonu. Hún sé „gömul sál“ og hafi þann hæfileika að geta hljómað í senn „ægifögur“ og „í algerri rúst“ („both majestic and totally wrecked“).
Þetta nýtir hún sér til fulls á samnefndu plötunni, innihaldið söngvaskáldalegt og spennuþrungið popp/rokk, lögin eru sum hver míní-epík, dramað stingandi og brú á milli Joni Mitchell í kringum Blue og PJ Harvey er byggð. Þetta er engin létthlustun. Þremur árum síðar kom I Know You’re Married But I’ve Got Feelings Too út, titillinn mjög „Mörthu“-legur og til marks um hversu afdráttarlaus hún er, bæði í textum og svo lagasmíðum. Það er farið alla leið, ekki ólíkt Rufus. Sans Fusils, Ni Souliers, à Paris kom svo út 2009 en hún inniheldur fimmtán ábreiður yfir lög Edith Piaf.

Sean gamli Lennon

Nýjasta platan heitir Come Home To Mama og það var Yuka C. Honda úr Cibo Matto sem sá um upptökustjórn. Óvenjulegt stefnumót við fyrstu sýn en smekkleg, rafskotin og nett kuldaleg áferðin sem Honda ljær plötunni fer vel með framhleypinni, á stundum hryssingslegri túlkun Wainwright. Opnunarlagið, „I Am Sorry“, er t.a.m. magnað þar sem Wainwright hljómar ekki ólíkt Elisabeth Frazer úr Cocteau Twins.
Platan var tekin upp í heimahljóðveri Sean Lennon í New York sem fær alltaf fleiri prik hjá tónlistaráhugamönnum, hann er öflugur í að snuðra uppi spennandi samstarfsverkefni og fá rétta fólkið í lið með sér þó að hans eigin tónlist sé kannski ekki upp á marga fiska. Þeir sem sjá um undirleik eru m.a. Nels Cline, gítargúrúinn mikli úr Wilco, Sean Lennon leikur á bassa og Jim White úr Dirty Three sér um áslátt.

Hvað hljóðversplötur Mörthu Wainwright varðar er nú hægt að tala um þrennu, „hat-trick“ eins og sagt er í boltanum. Óskandi væri að fleiri færu nú að leggja við hlustir.

Tagged with:
 

One Response to Martha Wainwright: Drama, drama, drama…

  1. Oliver Steinn Bergsson says:

    http://www.youtube.com/watch?v=lVam-fshUgw&feature=related svo koveraði pabbinn þetta til baka 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: