Var inni á snilldarkaffihúsinu Kaffismiðjunni einu sinni sem oftar fyrir stuttu. Einn af mörgum kostum staðarins er hinn forláta plötuspilari sem er þarna en gestir geta snúið plötum að vild. Safnið þar er gott, blanda af góðkunningjum úr Kolaportinu og exótískara efni. Hef nákvæmlega ekkert út á það að setja.

Nema hvað, platan Eyes That See in the Dark (1983) með Kenny Rogers rúllaði um á spilaranum og ég komst í dægiljúfan fílíng. Mjúkt, eitísskotið diskókántrí (!) runnið undan rifjum Barry Gibb, þess mikla meistara. Aftan á plötunni er mynd af Gibb, Rogers og Dolly Parton að sjálfsögðu. Þegar ég sé mynd af þessu brosandi fólki langar mig til að vera með þeim, það virðist allt svo gott á þessum bæ. Ég finn fyrir mjög svo raunverulegum, nostalgískum tilfinningum í svona aðstæðum. Rogers hljómaði mikið í útvarpinu þegar ég var c.a. 4 ára og fram til 8 ára og fyrsta uppáhaldslagið mitt var „Coward of the County“. Föðurlegt og mjúkt, bangsalegt fas hans veitti mér öryggiskennd. Ég hef svipaðar tilfinningar til tónlistar John Denver. Einhver hrein notalegheit sem ég nem þaðan sem sker á öll hipp- og kúlheit. Þegar ég hlusta á Rogers og Denver þá líður mér vel, svo einfalt er það.

Er einhver að tengja við þetta?

Tagged with: