amiina-fantomas-cover
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. nóvember, 2016

Draugar, dulmögn og dáleiðandi stemmur

Nýjasta verk amiinu, Fantômas, inniheldur tónlist sem samin var við franska spennumynd frá árinu 1913 en frumflutningur var á Hrekkjavöku í hinu virta Théâtre du Châtelet í París 2013.

Hljómsveitin amiina hefur sinnt margvíslegum verkefnum frá stofnun en hópurinn hóf störf sem strengjakvartett og átti síðar í gifturíku samstarfi við Sigur Rós, bæði á hljómleikum og á plötum. Fyrsta plata amiinu, hin fjögurra laga Animamina, kom út seint á árinu 2004 og hún hefur flogið frjáls og myndarlega síðan, verið iðin við tónlistarvinnslukolann og alþjóðlegur aðdáendahópur varð fljótlega til. Amiina er fjölsnærður hópur, hefur sinnt „hefðbundinni“ plötugerð, samstarfi við aðra listamenn en einnig alls kyns tímabundnum verkefnum eins og þessu sem hér er til umfjöllunar og hafa þau verið flutt um veröld víða.

Þessi plata hér hefur verið þrjú ár í bígerð en tónlistin var upprunalega samin fyrir kvikmyndina Juve contre Fantômas og flutt á hrekkjavöku í París eins og áður segir. Í myndinni fylgjumst við með samnefndum svikahrappi sem er ein vinsælasta persóna franskrar glæpasagnahefðar frá upphafi. Fantômas getur brugðið sér í allra kvikinda líki og er auk þess fullkomlega siðlaus og forhertur; beitir innsæisfullum pyntingaraðferðum og er haldinn kvalalosta á háu stigi.

Sannarlega ískyggilegur efniviður og amiina þræðir saman tónlistina samkvæmt því. Það er sæmilega dimmt yfir allri framvindu en leiðarstefið er bæði ágengt og knýjandi, setur hlustandann á bríkina fremur en að róa hann niður. Ósungin, „umhverfð“ tónlist nýtist oft sem nokkurs konar bakgrunnstónlist en þetta tiltekna verk fellur ekki þannig og innblásturinn að lögunum/stemmunum, þ.e. kvikmyndin, stýrir þessu flæði. Tónlistin stendur þá vel án kvikmyndar, sem er jafnan merki um vel heppnað efni af þeim toganum. Tökum t.a.m. opnunarlagið, „Fantômas“, hvar sög (hljómar alltént þannig) býr til æði hryssingslega stemningu. Tónninn er sleginn. Ýmisleg hljóðfæri, t.a.m. fiðla, selló, ukulele, trommur, slagverk, borðharpa og rafhljóð hjálpast svo að við að mála hljóðmyndina. Stemmurnar byggjast venjulega upp, hægt og sígandi, og það er eitthvað voðalegt í gangi undir niðri án þess að maður geri sér fyllilega grein fyrir hvað það er nákvæmlega. Og þannig á að gera þetta: hlustandanum er haldið í óvissu, spennu. Fullkomið undirspil við draugasögulestur á síðkvöldi og maður bíður eftir því að Fantômas guði á gluggann.

Vandað er til verka hvað útgáfuna varðar, auk geisladiskaútgáfu og streymis kemur hún út á tvöföldum vínyl og verður einnig fáanleg í takmörkuðu árituðu upplagi með sérhönnuðu prentverki og 5 tomma plötu í formi fallegs póstkorts. Hér er því allt eins og það á að vera; um er að ræða formfallegt verk þar sem ímynd öll og tónlist haldast þétt í hendur. Slíkur frágangur hefur verið eitt af aðalsmerkjum amiinu alla tíð og ekki er slegið slöku við í þeim efnum frekar en venjulega.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: