14702258_1210728605654728_2423410968080908358_n

 

Jól með Ian Anderson – er hægt að biðja um það betra!

Hin síðustu ár hefur Ian Anderson, leiðtogi Jethro Tull, verið sem grár köttur í landi elds og ísa og er það vel! Kattarlíkingin er skemmtileg, enda Anderson annálaður kattaunnandi en einnig er það einfaldlega blessun að þessi meistari hafi tekið svona miklu ástfóstri við Ísland, enda leitun að jafn merkum hæfileikamanni á sviði dægurtónlistarinnar. Já, ég er aðdáandi fram í fingurgóma og varð einfaldlega fyrir opinberun er ég heyrði tónlist Tull á sínum tíma, þá kominn sæmilega langt yfir tvítugt. „Ian Anderson, where have you been all my life!“ eins og einhver sagði.

Birgir Daníel Birgisson og hans fólk hafa unnið þrekvirki í öllu utanumhaldi hvað þessa tónleika varðar undanfarin ár, hvort heldur sem Ian Anderson hefur verið að spila með strengjasveit, Jethro Tull, flytja Thick As A Brick í heild sinni eða hvað það hefur verið sem honum hefur dottið í hug. Hingað kemur hann semsagt reglulega og árið 2009, skömmu eftir hrun, gerði hann sér lítið fyrir og hélt hér tónleika fyrir fullu húsi, svo gott sem launalaust. Þetta gerði maðurinn að eigin frumkvæði en tilfinningar hans í garð landsins eru þvottekta, það get ég staðfest. Þetta sagði Anderson í viðtali við mig í Morgunblaðinu í maí, 2006, vegna sólótónleika sinna: „Ég hef alltaf fundið til tengsla við Ísland, líkt og ég geri hvað Færeyjar varðar, Noreg, Skotland og þessi lönd sem eiga strönd að Atlantshafinu. Við erum öll hluti af stærra sjávarsamfélagi og sögulega séð hefur þetta oft verið strögl. Þar hefur lífsbaráttan oft verið erfið og það ástand getur oft af sér mjög skapandi og orkurík samfélög.“

Hingað er hann svo kominn, enn einu sinni, og í þetta sinnið með jólatónleika. Segja má að heili minn hafi farið í yfirsnúning er ég heyrði af þessu, því að í viðbót við Tullaðdáunina er ég forfallið jólabarn. Þetta er því guðdómlegt „tveir fyrir einn“. Anderson hefur staðið að „The Jethro Tull Christmas Show“ síðan 2003 og hefur efnisskráin nú verið flutt í dómkirkjum víða um veröld. Það er eitthvað hárrétt við þetta, miðaldablærinn sem Tull hafa oft og tíðum þrætt inn í tónlist sína fellur eins og flís við rass hvað jólastemningu áhrærir og jólaplata sveitarinnar frá 2003 er einstaklega hátíðarleg og umslagið það besta sem ég hef séð í þeim geiranum. Það er nóg að horfa á það til að komast í byljandi jólaskap.

Hefð hefur verið því að fá vel valda gesti á þessa tónleika og á þessum tilteknu Íslandstónleikum mun okkar eigin KK gesta og spila Tull-lag og sjálfur Marc Almond (Soft Cell) mun og syngja. Einnig mun söngkonan og fiðluleikarinn Unnur Birna koma fram, en hún hefur starfað nokkuð náið með Anderson undanfarin ár. Kór Hljómfélagsins syngur og perlan „Aqualung“ mun njóta fulltingis stærsta orgel landsins þar sem Gunnar Gunnarsson organisti fer fimum höndum um djásnið.

Eruði spennt!? Það er þá gaman að geta sagt frá því að örfáir miðar eru nú komnir í sölu á fyrri tónleikana en um tvenna tónleika er að ræða, 7. og 8. desember. Þið getið tékkað inn á opinbert Fésbókarsetur tónleikana eða farið beint inn á tix.is.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: