metallica-2016

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. desember, 2016

Reiðmenn nýmiðlanna

Þrasssveitin Metallica gaf út nýja plötu fyrir stuttu. Sá viðburður fór ekki framhjá málmelskum en hinn almenni áhugamaður fór heldur ekki varhluta af herlegheitunum. Hvaða brögðum beitti Metallica?

Metallica gaf síðast út breiðskífu 2008, Death Magnetic, fyrir heilum átta árum. Það er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, t.a.m. voru samfélagsmiðlar sem öllu tröllríða í dag rétt svo á sokkabandsárunum á þessum tíma.

Mikið er rætt um kreppu tónlistariðnaðarins í dag; uppgufun platna í föstu formi er vandamál eða eigum við að segja verkefni sem menn glíma sveittir við og maður hefur á tilfinningunni að oftast séu þeir eitt spurningarmerki í framan. Ráðaleysi og bölmóður ræður í raun ríkjum, fremur en vonbirta og að tækifæri séu fönguð. Það er a.m.k. ljóst að eitthvað þarf að gera, hefðbundin plötuútgáfa er hægt en sígandi að líða undir lok og útgáfa nýjustu plötu Metallica, Hardwired… to Self-Destruct, er ágætt dæmi um hvernig hægt er að vinna svona hluti.

Markaðsmulningsvél Metallicu (afsakið, mér hefur alltaf fundist þessi íslenska beyging svo krúttleg) er auðsýnilega afar vel smurð en það sem meira er, og áhugaverðast í þessu samhengi, er að hún vinnur vel með nýja miðla og það er eins og skilningur og færni í að nýta þá sé að aukast. Ekki bara hjá Metallicu, heldur öðrum einnig.

En hvað gerðu kapparnir eða öllu heldur markaðsarmur þeirra? Útgáfutónleikum var streymt á youtube og mikil fagmennska var í því hvernig þeir voru teknir upp og hvernig þeir voru settir fram. Nú gengur líka um samfélagsmiðla smáforrit sem gerir þér kleift að setja nafnið þitt fram í Metallica-leturgerð. Myndbönd hafa þá verið gerð við öll lögin og þau farin í dreifingu á youtube. „Hefðbundnari“ markaðssetning hefur þá líka verið stunduð, flippuð framkoma í spjallþætti Jimmy Fallon t.d. og einnig hefur verið hrært í eitt stykki jólapeysu. En það er þessi hánotkun á nýmiðlunum sem vekur athygli.

Sveitinni tókst nefnilega að búa til viðburð í kringum útgáfuna. Sæmileg spenna var í niðurtalningu fram að útgáfu og útgáfutónleikarnir og þetta leturgerðargrín var vel heppnað. Hvað útgáfutónleikana varðaði laumaðist þakklætistilfinningin inn. „Góðu gaurarnir í Metallica eru að gefa mér tónleika!“ Nóg var af myndskotum alveg uppi í meðlimum og það var mikil nánd í gangi. Þú gekkst frá skjánum tilbúnari til að kaupa plötuna en áður en þeir fóru í gang. Leturgerðardæmið er enn betur heppnað. Metallica flýgur nú um netheima, líka hjá fólki sem hefur aldrei gefið henni mikinn gaum. Fólk er að setja Ríó Tríó og Mannakorn í letrið og dátt er hlegið.

Á tímum streymis er mikið talað um það að útgáfuiðnaðurinn þurfi að bregðast við með því að búa til „gildi“ í kringum plöturnar. Hvað er hægt að gera þegar þær eru ekki til lengur efnislega? Metallica virðist tækla þetta með því að vinna á mörgum og ólíkum sviðum. Þeir hafa reyndar fjármagnið til að gera slíkt og það er her fólks á launum að vinna í samfélagsmiðladeild Metallicu. Það er hægt að hamra á fólki í krafti auglýsinga en það kostar peninga. Aðrar „risaeðlur“ með fúlgur fjár sem hafa áhyggjur af því að enginn kaupi plöturnar þeirra lengur ættu að líta til þessa dæmis en plata Metallicu fór beint á toppinn í 57 löndum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: