Bubbi hélt útgáfutónleika vegna Þorpsins í vikunni. Ég verð að segja að ég er að fíla þessa plötu mjög vel. Finnst hann á réttu róli, sálarduflið á þeirri síðustu var ekki að fara að honum að mínu viti. Hér er dómur sem ég skrifaði um plötuna í Morgunblaðið…

26. apríl 2012 | Fólk í fréttum | 489 orð | 3 myndir

TÓNLIST – Geislaplata

Sá sem syngur með hjartanu…

Bubbi og Sólskuggarnir

Þorpið 4/5

Í heimildarmyndinni Óskinni eftir Árna Sveinsson, sem fylgir þessari nýjustu plötu Bubba Morthens og fjallar um vinnslu hennar, ræða þeir Benzínbræður, Börkur og Daði, um tilurð plötunnar. Þar kemur fram að þetta sé líkast til 36.
Í heimildarmyndinni Óskinni eftir Árna Sveinsson, sem fylgir þessari nýjustu plötu Bubba Morthens og fjallar um vinnslu hennar, ræða þeir Benzínbræður, Börkur og Daði, um tilurð plötunnar. Þar kemur fram að þetta sé líkast til 36. sólóplata Kóngsins eins og Börkur nefnir hann á einum stað. Myndin er fróðleg og Árna tekst listavel að fanga lítil augnablik og dýpka þar með skilning hlustanda á verkinu. En það var þó þessi tala, 36, sem sló mig einna mest. Hún segir margt um ótrúlegan feril þessa manns sem á sér engan líka í íslenskri tónlistarsögu, hvað sem mönnum kann að þykja um hann. Og áfram heldur hann að dæla út plötum, eins áreiðanlega og að sólin kemur upp á morgun.
Á síðasta ári var það sálartónlistin sem réð öllu á plötunni Ég trúi á þig en hún var unnin af umræddum bræðrum. Annað er uppi á teningnum nú, hefðbundnari Bubba-plata ef svo mætti segja en þjóðlaga- og kántrískotin tónlist í anda The Band og Neil Young liggur til grundvallar. Söngvaskáldið Bubbi er þá á staðnum og söguljóð í anda „Lonesome Death of Hattie Carroll“ eru m.a. viðruð.
Platan er opnuð á lágstemmdan hátt, píanó er í forgrunni á „Óttinn“ og textinn einlægur og fallegur. Hljómur er frábær sem og á plötunni allri og söngur Bubba fyrirtak.
Titillagið er hins vegar miðlægt á plötunni, stóreflis ópus sem kallast textalega á við „Aldrei fór ég suður“. Þar var vonin engin en í þessu lagi ákveður sögumaður hins vegar að stinga við fótum og vinna með það sem hann þó hefur.
Voldugt lag og reisnarlegt og innkoma Mugison smekkleg og mjög hæfandi. Söngur hans rennur svo fumlaust við söng Bubba að þú tekur eiginlega ekki eftir því að annar maður sé byrjaður að syngja. „Ballaðan um bræðurna“ fylgir svipaðri línu og sendir mann alla leið aftur til hinnar frábæru Sögur af landi (1990). Bubbi flakkar nokkuð á milli stíla á plötunni, við fáum vals („Skipstjóravalsinn“) og kliðmjúk kántrílög („Vonir og þrár“ og hið frábæra lokalag „Fjórtán öskur á þykkt“). Rennslið er síðan brotið upp tvisvar með grallaralegum og barnagælulegum lögum, „Bankagæla“ og „Það er kona að blogga á mig“. Bubbi beitti svipaðri aðferð í „Jakkalakkar“ (Von, 1992) og fyrrnefnda lagið minnir nokkuð á jólalagið góða „Must Be Santa“ sem Bob Dylan sendi frá sér fyrir fáeinum árum.
Langbesta lagið og það áhrifaríkasta er samt „Óskin“ sem heimildarmyndin er nefnd eftir. Naktara gerist það ekki, bara Bubbi og gítarinn sem hann pikkar af miklu listfengi (og það er engu líkara en tveir gítarleikarar séu að spila). Á einum stað beygir hann nótuna óvænt, magnað „útspil“ sem gerir lagið.
Bubba og Sólskuggunum tekst það sem var lagt upp með á þessari plötu, að knýja fram innilega, hlýja og „lifandi“ stemningu þar sem tónlistin sjálf er yfir öllu. Það er eitthvað satt við þetta allt saman. Eða eins og Bubbi sjálfur orðar það í upplýsingabæklingi:
„Sá sem syngur með hjartanu getur aldrei verið falskur…“

Arnar Eggert Thoroddsen

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: