Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. ágúst, 2017

Kafað eftir perlum

Platan Yfir djúpin dagur skín er með hljómsveitinni RIF sem stýrt er af Andra Ásgrímssyni, sem er þekktur fyrir veru sína í Náttfara, Leaves og fleiri hljómsveitum.

Yfir djúpin dagur skín/dreifist myrkrið kalda/breiðist ljóssins bjarta lín/um bláa öldufalda.“ Þessar glæsilegu ljóðlínur Steins Steinarrs, þar sem ljós og myrkur takast á (og ljósið verður ofan á) má finna í laginu „Yfir djúpin dagur skín“, sem er jafnframt titillag þrettán laga plötu sem hljómsveitin RIF var að senda frá sér. Þessar línur eru við hæfi, ramma anda plötunnar vel inn þar sem farið er á djúpið, ferðast um skugga en ljósið er samt alltaf handan við hornið. Sum laganna eru drungaleg, önnur giska björt en flest þeirra bundin í fallega togstreitu milli þessara tveggja öfga.

Andri Ásgrímsson er potturinn og pannan í RIF, en hann syngur, leikur á gítar og semur lögin. Maður hefur lengi vitað af Andra sem miklum hæfileikamanni, allt frá því maður sá hann fyrst á sviði með síðrokkssveitinni Náttfara forðum daga. Hann gekk síðar til liðs við Leaves og blómstraði þar áfram. Og það er eitthvað rétt við það að hann reyni sig við eigin tónsmíðar, og hann gaf reyndar út sólóplötu fyrir sjö árum, Orrustan um Esjuna. Þessi plata sem hér er til umfjöllunar hefur hins vegar verið í vinnslu í sex ár og hefur helsti samverkamaður Andra verið Haraldur Þorsteinsson, sem er og bassaleikari Náttfara. Aðrir sem koma við sögu eru Sölvi Kolbeinsson (saxófónn), Lárus Sigurðsson (gítar) og trommararnir Nói Steinn, Ívar Pétur og Þórhallur Stefánsson. Heiða Dóra Jónsdóttir og Bryndís Helgadóttir syngja bakraddir en Magnús Leifur Sveinsson hljóðblandaði og hljómjafnaði í Aldingarðinum (trommaði og bakraddasöng einnig). Arnar Guðjónsson, gamli samstarfsmaður Andra, hljóðblandaði þá tvö lög og bakraddasöng og einnig vil ég geta Kríu Ben, sem sá um grafíska hönnun, en platan kemur út á vínyl og geisladisk auk þess að streyma um helstu þar til gerðu veitur.

Kveikurinn að plötunni var annars sá að Andri byrjaði að kynna sér ljóðasafn Steins Steinarrs, sem hann svo féll fyrir. Hóf hann að semja texta sjálfur sem hann sýndi Haraldi og úr varð nokkurs konar samstarf þessara þriggja manna. Haraldur er skráður fyrir tveimur textum, Steinn á fimm, hann og Andri deila einum og svo á Andri rest. Það er eins og Andri hafi fundið genginn sálufélaga þarna og svei mér ef það er ekki bara svipur með þeim félögum líka! Steinn átti það til að vera æði dökkleitur, sjá t.d. þessar línur í „Myrkur“: „Ég er myrkrið/myrkrið í djúpinu/hið eilífa myrkur/sem ekkert ljós getur lýst.“ Andri tekur anda Steins með sér í lagið „Hinir svartsýnu“, þar sem m.a. má heyra þetta sungið: „Við erum hinir svartsýnu/á hið dimma við einblínum.“ Þegar birtir loks til, eins og í laginu „Fagur dagur“, passar Andri sig að syngja með djúpum, háalvarlegum tóni. En Andri málar sig engu að síður ekki út í horn. „Skaginn“ er ljúflingsstemma, bara falleg og eiginlega brothætt. „Þéttarinn“ er þá vel útsett, hlaðið melódíum og skemmtilegum útúrsnúningum og yfir því Radiohead-andi. Svarblátt umslagið endurspeglar um margt innihaldið, sem er melankólískt og mikilúðlegt en eins og segir er pláss fyrir bæði ljós og skugga því að öðruvísi getur það auðvitað ekki verið. Megi Andri þreyta sitt hljómræna kafsund lengi vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: