ulfur-eldjarn-promo

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. desember, 2016

Eldjárn fer á dýpið…

InnSæi: The Sea Within er nýjasta verk Úlfs Eldjárns, en hann hefur komið víða við á gifturíkum ferli og starfað innan margra og ólíkra geira tónlistarinnar.

Þetta árið hafa verið talsverð uppgrip hérlendis í tónlist sem hefur að gera með ósungnar stemmur, oft kvikmyndalegar. Það er erfitt að naglfesta nákvæmlega hvað þessi geiri heitir, síðklassík („post-classical“) hefur verið notað en gætum að því að sá merkimiði á eðlilega ekkert skylt við hina „klassísku“ síðklassík og gæti því verið ruglandi.

Tónlist þessi nýtir sér minni úr skrifaðri tónlist og „nútímatónlist“ en fer auk þess óhikað inn á dægurtónlistarlendur. Má ég nota hið útþvælda og brátt merkingarlausa hugtak „póstmódernískt“, þ.e. reglur og hefðir eru virtar að vettugi ef tónlistinni verður þjónað betur þannig. Jóhann Jóhannsson og Ólafur Arnalds hafa verið iðnir við þennan epíska kola og verk frá Kjartani Sveinssyni og Arnari Guðjónssyni flögra um á svipuðu svæði. Plata Arnars, Grey Mist of Wuhan, inniheldur t.a.m. tónsetningu hans á kínversku borginni Wuhan fremur en kvikmynd!

Það má líka hæglega tefla Úlfi Eldjárn fram hér en nýjasta verk hans, InnSæi: The Sea Within, smellpassar í þennan flokk en um er að ræða tónlist við heimildarmynd sem Kristín Ólafsdóttir og Hrund Gunnsteinsdóttir eru höfundar að. Ég ætla ekki að rekja tónlistarferil Úlfs í löngu máli hérna en hann hefur komið að margvíslegum verkefnum sem spanna ansi tilkomumikið róf; allt frá kersknislegu poppi yfir í afstrakt tilraunamennsku og alla þessa hluti hefur hann leyst á einkar sannfærandi máta. Hann hefur þá samið tónlist fyrir ólíka miðla; auglýsingar, leikhús og kvikmyndir en auk þess hefur hann gert tilraunir til að sprengja upp hugmyndir okkar um hefðbundna miðlun, í samstarfi við hönnuði og forritara (þeir Siggi Oddsson og bróðir Úlfs, Halldór, komu að því verkefni sem kallast Infinite String Quartet).

Úlfur er fjölsnærður eins og sjá má og þetta nýtir hann sér á Innsæi: The Sea Within sem fer yfir víðan völl stíllega séð. Hann bæði nýtir sér þetta galopna viðhorf sitt til lagasmíða (sjá t.d. fyrstu sólóplötu hans, hina frábæru Field Recordings: Music from the Ether) og reynsluna sem hann er að safna í sarpinn hvað tónsetningu á kvikmyndum og sjónvarpsefni varðar (sjá t.d. tónlist hans við heimildarmyndina Ash, 2014). Á Innsæi má því heyra mikilúðleg, stórbrotin hljómföll; hæglátt og sveimbundið streymi, endurtekningarsamar og vart greinanlegar stemmur en líka taktdrifna spretti þar sem ást hans á Kraftwerk og súrkálsrokki brýst út. Einnig undurblíðar melódíur, eins og í hinu gullfallega „The Artist is Present“. Lífræn og vélræn öfl togast á og stundum er slagverk, runnið undan rifjum Samuli Kosminen (múm, Jónsi, Hauscjka, Kira Kira) nýtt á áhrifamikinn hátt. Allt er þetta í einum hrærigraut en samt ekki – það er hreinn og rökréttur þráður út í gegn á þessu vel heppnaða verki.

Ég hef það þá beint úr kjafti hrossins að framundan sé mikil og góð virkni, brátt muni The Aristókrasía Project líta dagsins ljós í efnislegu formi t.d. en þá snilld hefur Úlfur verið að flytja á tónleikum. Já, drengurinn er algjör hafsjór af tónleik, svo mikið er víst…

ulfur-eldjarn-innsaei-umslag

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: