prince-grammys1

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. apríl, 2016

Þegar dúfurnar grétu…

Bandaríski tónlistarmaðurinn Prince Rogers Nelson, eða einfaldlega Prince (eða bara „táknið“, eða bara eitthvað sem hentaði honum hverju sinni) lést núna á fimmtudaginn. Ef hið útjaskaða orð snillingur hefur einhvern tíma átt við er það í tilfelli þessa mikilhæfa tónlistarmanns og undrabarns sem markaði djúp spor í tónlistarsögu tuttugustu aldarinnar.

She wore a Raspberry beret / The kind you find in a second hand store /Raspberry beret /And if it was warm she wouldn’t wear much more / Raspberry beret / I think I love her.“ Þannig hljómar viðlagið í „Raspberry Beret“ sem var einn af fjölmörgum smellum Prince á níunda áratugnum, er stjarna hans reis óneitanlega hæst. Það er sosum ekki dýrt kveðið þarna en ellefu ára gamall fékk ég þetta lag þó algerlega á heilann og kipptist við í hvert einasta skipti sem ég heyrði það í útvarpinu. Í því er einhver óútskýranlegur galdur, sem ég skil ekki enn þann dag í dag. Ég geri mér þó betur grein fyrir þeim kynferðislega undirtón, nei yfirtón, sem er þarna, eitthvað sem náði ekki alveg inn í huga barnsins. Það var hins vegar eitthvað í flutningnum, áferðinni, söngnum, uppbyggingunni sem læsti sig gjörsamlega um mig, eitthvað „x“ (eða eigum við að segja „O(+>“ (ástartáknið)) sem skilur að snilld og fúsk. Það fór því greinilega ekki framhjá mér, fremur en mörgum öðrum, að þessi listamaður var með eitthvað alveg sérstakt með sér.

Ég fékk því stuð í magann, ekki í jákvæðum skilningi, er fréttastofa RÚV hringdi í mig seint á fimmtudaginn og bar mér fréttirnar. Ég var grandalaus úti á Miklatúni að spila körfubolta með vinum mínum en hálftíma síðar var ég mættur í beina útsendingu í kvöldfréttatímann, alveg eins og Guðni Th., þar sem ég dró saman mikilvægi og arfleifð Prince á ca. 90 sekúndum (ég man ekkert hvað ég sagði). Þetta sýnir vel í hversu miklum metum hann var og nú sit ég, eldsnemma á föstudagsmorgni, hripandi þessi orð þar sem hinn pistillinn minn var látinn víkja, eðlilega. Við þessum fréttum þurfti að bregðast. Þannig að, best þá að draga saman arfleifð þessa mikla manns í ca. 150 orðum? Já, látum barasta reyna á hið ómögulega.

Öll hljóðfæri léku í höndum Prince en auk þess útsetti hann, upptökustýrði, samdi, hannaði og var hreinlega allt í öllu í sinni listsköpun. Og hún átti sér stað frá morgni til kvölds. Að skapa og gera var Prince jafn mikilvægt og að anda og þúsundir laga eru enn óútgefin. Ekki nóg með að hann hafi dúndrað út slögurum í massavís á níunda áratugnum heldur samdi hann og fyrir aðra, lög sem eðlilegur listamaður hefði aldrei látið frá sér. En svona var „vélin“ Prince, óþreytandi og óþrjótandi. Hann var þá óhræddur við að synda á móti straumi og gera nákvæmlega það sem hjartað bauð honum. Í kjölfar vinsælla platna komu erfiðari verk en þrátt fyrir það hélt hann í vinsældirnar, við vorum tilbúin til að fylgja þessum meistara þangað sem hugur hans bauð honum hverju sinni.

Prince vann fallega úr þeirri arfleifð sem aðrir afrísk-amerískir listamenn höfðu byggt upp á sjöunda og áttunda áratugnum. Segja má að hann hafi ruðst inn í þann meginstraum sem hin ráðandi stétt var vön að eiga fyrir sig. En ólíkt Michael Jackson, sem ruddist einnig inn á þessar lendur, hafði Prince alla þræði í hendi sér. Þetta er í raun ótrúlegt þegar maður hugsar um þetta.

Litli prinsinn er farinn frá okkur en verður efalaust hamslaus í framhaldsferðalaginu; leitandi, spyrjandi og sískapandi. Í lifanda lífi var hann óeðlilega „lifandi“, í ríkum tengslum við það sem gerir okkur sannarlega að manneskjum, með því að vera sískapandi, alltaf að og eltandi óhikað hvaða þá drauma sem poppuðu upp í hausnum. Far vel, minn kæri, og vonandi fyllti fjólublátt regn himnaríki er þú bankaðir þar á dyr. En líklega gekkstu beinustu leið inn, og það hnarreistur, ef ég þekki þig rétt.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: