[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. júní]

Vinsælasta „költ“-sveit veraldar snýr aftur

• Kanadíska rokksveitin Rush gefur út nýja plötu
• Tugþúsundir dýrka hana og dá en enginn veit hver hún er!

Ég bý nú svo vel að tónlistarsmekkur okkar hjóna er nokkurn veginn samsíða. Og mín eðla frú sér listræna gildið í… ja, segjum hávaðamiðuðu svartþungarokki, þó að það sé fjarri því hennar tebolli.
Ein er þó sú sveit sem hún getur með engu móti þolað. Það er kanadíska rokksveitin Rush. Ég hef fengið hana til að dilla sér við Jethro Tull, sjá fegurðina í Genesis (já, í alvöru!) og grúva við Steely Dan – sólóplötur Donalds Fagens meðtaldar. En Rush er eins og þykkur, stálstyrktur múr. Í gegnum hann verður með engu móti komist. Og ég hef fyrir nokkuð löngu sætt mig við að því verður ekki breytt, nema fyrir eitthvert kraftaverk. Ég aftur á móti dýrka Rush. Á allt efni þeirra – og meira til – á forláta vínyl og get týnt mér sæll og glaður í umræðum um þessa hljómsveit tímunum saman. Hér á landi þekki ég nokkra, já nokkra, sem eru jafn vel (eða illa) haldnir og ég. Á fésbókinni er meira að segja rekin sérstök aðdáendasíða íslenskra Rush-aðdáenda. Stóra spurningin er hins vegar – spurning sem hinn almenni lesandi er væntanlega búinn að velta fyrir sér frá upphafi greinar: Hvaða hljómsveit er þetta eiginlega?

Risavaxin smásveit

Rush gaf út sína fyrstu breiðskífu árið 1974 sem var zeppelínsk mjög en síðar átti sveitin eftir að þróa sig rækilega fram og lék um hríð nokkurs konar progg-rokk. Upp úr 1980 breytti hún svo um stefnu, tók inn áhrif frá nýbylgju og fleiri móðins stefnum og um það leyti fór að verða til eitthvað sem einfaldlega er hægt að kalla Rush-hljóm.
Yfirmáta tæknigeta hljóðfæralega séð, haganlega smíðuð rokklög, stundum epísk, með glúrnum textum eftir trymbilinn Neil Peart, sungin af hinum háróma bassaleikara Geddy Lee. Gítarleikur Alex Lifesons var svo punkturinn yfir i-ið. Rush þótti þá sem nú höfða til herbergiskærra narða og aldrei nokkurn tíma hefur hljómsveitin náð því að vera svöl. Mér fannst það vera sönnun á því hversu undarlegt þetta mál væri allt saman þegar ég hlustaði á tónleikaplötuna Rush in Rio sem út kom fyrir níu árum. Þar má heyra 40.000 manns syngja með í hverju einasta orði í opnunarlaginu „Tom Sawyer“. Rush hafði leikið fyrir 60.000 manns kvöldið á undan, í São Paulo. Það eru kallaðar „költ“-vinsældir þegar lítill en mjög harðsnúinn hópur aðdáenda flykkir sér um eitthvað sem nýtur alla jafna ekki vinsælda almennings. Heiðursnafnbótin „Vinsælasta „költ“-sveit veraldar“ á einhvern veginn vel við Rush í því samhenginu.

Plata verður að bók

En alltént… útgangspunktur þessara pælinga allra er ný hljóðversplata sveitarinnar, Clockwork Angels, sem er sú 19. í röðinni. Hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, nema hvað, en sú síðasta, Snakes & Arrows, kom út fyrir fimm árum. Platan kemur út nú á mánudaginn og hefur verið um tvö ár í vinnslu.
Rush-hljómurinn er greyptur í lögin og af því sem ég hef heyrt er þetta ansi rokkuð plata, gítarinn ýlfrar af krafti í þeim flestum. Að lokum má þá geta þess að vinur bókaormsins Pearts, vísindaskáldsagnahöfundurinn Kevin J. Anderson, ætlar að skrifa sögu byggða á plötunni. Það er eitthvað einstaklega „Rush“-legt við það…

Tagged with:
 

2 Responses to Rush: Óþekkt en ægivinsæl!?

  1. Takk fyrir flotta grein, ég er einn af þessum illa höldnu og á það sameiginlegt með þér að það er ekki nokkur leið fyrir mig að koma þessu inn á áhugasvið konunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: