Ari Ólafsson á sviði í úrslitum Söngvakeppninnar í Laugardalshöll í kvöld.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. mars, 2018

Lífið er lag

Í kvöld verður spurt að leikslokum í Söngvakeppninni. Förum aðeins yfir stöðuna af því tilefni, endurmetum lögin og spáum aðeins í spilin.

Jæja, byrjum á því jákvæða. Söngvakeppnin er æði. Hún er fyrst og síðast skemmtileg. Spennandi. Fjörug og skapandi. Gleði og glaumur – afþreying númer eitt, tvö og þrjú. En líka á stundum upplyftandi, gildiseflandi og uppspretta sígildra, gullvægra dægurlaga. Þetta er mín blýfasta trú og skoðun og ég ætla að horfa með glennt augu og eyru í kvöld.

Vindum okkur þá í hið neikvæða. Hvernig sem við reynum að líta á það, þá er þetta ár búið að vera í slappara lagi hvað gæði varðar. Já, ég sagði það. Og það er ekki bara ég, það er orðið á götunni, þessum götum sem verða tómar í kvöld. Og ekkert óeðlilegt við það, það eru feit ár og mögur í þessu eins og öðru. En það segir sitthvað að ekki þótti ástæða til að hleypa sjöunda laginu áfram í ár, líkt og gert var í fyrra. En er eitthvað sem veldur þessu?

Himinhrópandi þunnildi margra þeirra laga sem kepptu í ár er slíkt að ég get ekki einu sinni hugsað um það hvernig hin, tæplega 200 lögin sem send voru inn, hljóma. Spáið í það! Veit samt ekki hvort ástæða sé til að endurskoða fyrirkomulagið. Ráða vana höfunda til að skila af sér lögum? Treysta á reynsluna? Það heftir þó um leið nýja og vonbjarta höfunda.

Þegar Áttan söng sig inn í úrslit héldu aðalsöngvararnir ekki lagi. Það var voðalegt að hlusta á þetta. Í Músíktilraunum tíðkaðist það oft að heilu rúturnar með stuðningsfólki komu til að kjósa sitt fólk áfram. Í úrslitum voru því oft hljómsveitir sem áttu ekki að vera þar. Þetta var svipað með Áttuna í ár. Það er lítill pönkari í mér sem er samt dálítið skotinn í þessu framtaki þeirra, einmitt af þessum sökum. Hljóðversútgáfa lagsins var þá góð en keisarinn var klæðlaus í „lifandi flutningi“. Áttan hefur lýst því yfir að hún ætli að gera betur í kvöld en á undanúrslitunum. Gangi þeim vel segi ég bara og meina það.

En hvernig er svo með restina? Fókushópurinn heillar mig ekki. Ari „Groban“ Ólafsson var sterkur í undanúrslitunum, sjarmerandi og sannfærandi. Sömuleiðis hann Aron „Mars“ Hannes. Mér fannst lagið hans Dags ekki merkilegt en það er eitthvað við það hvernig hann hefur verið að spila sig í fjölmiðlum að undanförnu sem heillar mig. „Kúst og fæjó“ er besta lagið. Vel samið, í flottum fortíðargír, gott samhengi á milli flutnings, lags og texta. En við spyrjum að leikslokum. Eins og venjulega. Góða skemmtun!