Síðustu tónleikarnir í Kaffi, kökur & rokk & ról röðinni áður en hún fer í sumarfrí fóru fram í Edrúhöllinni í gær. Retrobot og Langi Seli léku. Þá hafa 46 hljómsveitir runnið í gegnum 23 tónleika síðan 6. september. Þetta voru síðustu tónleikarnir sem ég, Arnar Eggert, hafði umsjón með og svei mér, ef maður er ekki nett hrærður á svona tímamótum. Þessi tilraun okkar hjá SÁÁ með þessa röð hefur virkað vel verð ég að segja, það hefur alla tíð verið góður og uppbyggilegur andi í kringum röðina, jafnt hjá gestum sem þátttakendum og mikið og hreint þakklæti leikur því um mann.

Það var að sönnu fámennt þessa síðustu tónleika, undan þeirri staðreynd get ég ekki vikist. En að sama skapi var með eindæmum góðmennt. Jói og Torfi voru þarna, Halldór ljósmyndari og reytingur af þeim fastagestum sem hafa verið þarna í vetur. Það var eitthvað rétt við að enda þetta svona, eitthvað ljóðrænt við þetta. Að enda þetta eins og þetta byrjaði.

Hljómsveitirnar stóðu sig með miklum glans. Mikið er gaman að nýbökuðum sigurvegurum Músíktilrauna, Retrobot, og strákar, ef mér tókst að hrakyrða ykkur eitthvað í umsögn minni um Músíktilraunir á dögunum eru þau orð dæmd dauð og ómerk hér með, um aldir alda! Það er mikill fílingur og spilagleði í bandinu, allir meðlimir syngja og láta hljóðfæri flakka á milli sín eins og ekkert sé. Þessi eining sem maður er að skynja er heillandi. Band sem vert er að fylgjast með næstu mánuði.

Langi Seli og Skuggarnir tóku siðan kvöldið algerlega í nefið. Það var virkilega mikill fílingur í bandinu, maður varð nánast hissa. ekki það að ég ætti ekki von á blasti frá bandinu, þeir bara fóru fram úr mínum allra björtustu vonum. Bandið er einfaldlega red hot! Svalleikinn og kynþokkinn drýpur í lítravís af Sela og Skuggarnir kunna þetta upp á tíu; Erik Qvick, Jón Skuggi og nýji gítarleikarinn, sjálfur Gilsi gítar (Sniglabandið, Nýdönsk). Lög af Drullukalt (2009) og Rottur og kettir (1990) fengu að hljóma og bandinu óx ásmeginn með hverju lagi. Elstu smíðarnar ráku glæstar restina, „Kane“ var stórkostlegt, „Kontinentalinn“ sömuleiðis og úthverfisóðurinn „Breiðholtsbúgí“ jafn svakalegur og alltaf. Við fengum meira að segja uppklappslag, „Köttur í kadilakk“. Seli tók niður sólgleraugun og glotti sáttur við tönn. Hann hafði efni á því. Jon Spencer hvað!?

Seli og co verða á ferðinni næstu vikur og ég mæli eindregið með því að fólk sjái þá. Stundum er best að hafa þetta bara „beisikk“ og það hafa Langi Seli og Skuggarnir verið að kenna okkur í kvartöld.

myndir (c) Halldór Ingi Eyþórsson.

Sjá fleiri myndir frá Kaffi, kökum & rokki & róli á síðu Halldórs.

 

 

One Response to Svalleiki og svakalegheit í Edrúhöllinni

  1. Það er búið að vera gaman og gefandi að mynda þessa tónleikaröð, tek hatt minn ofan fyrir þessu skemmtilega framtaki.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: