paul weller gift

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. janúar, 2013]

Gjöf sem gefur og gefur

• The Gift, svanasöngur The Jam frá 1982, endurútgefin í forláta öskju
• Paul Weller, segir útilokað að sveitin komi nokkru sinni saman aftur

The Jam á risastóran stað í hjörtum fjölmargra Breta. Það má eiginlega tala um „þjóðarband“ að einhverju leyti, eins enskt/breskt og það gerist (Kinks, Oasis rúlla eftir svipuðum línum). Ferill þessa „mod“-skotna pönkbands var tiltölulega stuttur en einkenndist af óhemjumikilli virkni og gríðarlegum sköpunarkrafti leiðtogans, Paul Weller, en hann var ekki orðinn nítján ára þegar fyrsta smáskífan, „In the City“ kom út í apríl 1977. Þegar hlustað er á plötur Jam í svona endurliti samþykkir maður alveg að þarna hafi farið mikilvægasta sveit Breta á eftir Bítlunum. Melódíunæmi Weller er svakalegt og lög eins og „Going Underground“, „Down in the Tube Station at Midnight“, „The Eton Rifles“ og „That‘s Entertainment“ koma manni alltaf í opna skjöldu, slík eru gæðin. Breiðskífur eins og All Mod Cons, Setting Sons og sú sem er til umræðu hér, The Gift, eru þá hreinasta afbragð (glúrnir taka eftir því að ég sleppi Sound Affects en hana tel ég undarlega ofmetna. Næ ekki alveg hvað fólk er að sjá við þennan bútasaum). The Gift átti 30 ára afmæli á síðasta ári og var því endurútgefin með pomp og prakt í desember.

Sálartónlist

Um tvær útgáfur er að ræða. Í fyrsta lagi tvöfaldan disk þar sem m.a. er hægt að nálgast þau lög sem voru gefin út á tíma plötunnar en voru „auðnuleysingjar“, ekki sett á breiðskífu eins og sum gæðabönd höfðu efni á að gera (við erum að tala um snilldarlög eins og „The Bitterest Pill (I Ever Had To Swallow)“ og „Beat Surrender“ t.d.). Í öskjunni má svo finna mynddiska, tónleika, bók, myndir og annað slíkt sem fylgir þesslags hlutum. Askjan er líka skemmtilega nefnd „A Gift“ fremur en „The Gift“.
The Gift er í einu orði sagt frábær og á henni má glöggt heyra af hverju Weller lagði niður bandið í kjölfarið. Hugurinn var farinn að leita annað og sálartónlist að hætti Motown og fönksprettir liggja yfir lögum eins og „Happy Together“, „Precious“ og hinu stórkostlega „Town Called Malice“. En um leið er að finna magnaðar smíðar af hefðbundnara tagi, nefni sérstaklega hið ægifagra „Ghosts“ og „Running on the Spot“. En það er dálítið merkilegt að Bretinn er nokk tilfinningalega flæktur hvað Gjöfina varðar, hún var eiginlega „súrt epli“ svo ég vísi í bitru pilluna hans Weller. Margir voru hreinlega gáttaðir á honum fyrir að leggja niður vopnin en sveitin var þarna á hátindi ferils síns, bæði vinsældarlega og sköpunarlega. En það deilir enginn við listgyðjuna og það vissi Weller.

Jákvæð og upplífgandi

The Jam hefur því verið nokkuð áberandi í bresku pressunni undanfarið.
Bassaleikarinn, Bruce Foxton, gaf t.a.m. út sólóplötu síðasta haust og á henni leikur Weller (sem gaf einnig út plötu, Sonik Kicks, í mars í fyrra). Þeir félagar eru nú búnir að sættast eftir áratuga – og það stirða – þögn. Því miður gildir ekki það sama um Weller og trymbilinn, Rick Buckler, og mann grunar að það sé meginástæðan fyrir því að Weller er með öllu ófáanlegur til að hræra í endurkomutónleika („Það væri fáránlegt. Þrír karlmenn á sextugsaldri hoppandi um á sviðinu,“ sagði Weller við NME fyrir stuttu). Og The Gift hefur sannarlega fengið sitt pláss líka. Í viðtali við Uncut sagði Weller: „Það var óhamingja yfir þegar við gerðum þessa plötu, ég neita því ekki. En það kemur ekki fram í sjálfri tónlistinni. Hún er ennþá jákvæð og upplífgandi.“

Tagged with:
 

One Response to The Jam: Weller leystur út með Gjöf

  1. Ég get sæst á að kalla The Gift vanmetna en Sounds Affects ofmetin. Nei.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: