Post-húsið Ásu Önnu Ólafsdóttir (Asalaus) og Jack Armitage (Lil Data) á sviði.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, miðvikudaginn 11. ágúst, 2021.

Mikið er gaman að vera til

Listasamlagið post-dreifing stóð að tvennum tónleikum um liðna helgi og voru þeir af ólíkum toga.

Starfsemi post-dreifingar hvað íslenska neðanjarðartónlist áhrærir hefur verið ansi eftirtektarverð undanfarin ár. Kynslóðin sem samlaginu tilheyrir, kennd við Z, ber með sér áherslur þær sem kenndar hafa verið við hana. Einlægni, réttlætiskennd og almenn meðvitund um hvað að er í heimi hér og hvernig væri hægt að bæta úr. Sjálfur tilheyri ég X-kynslóðinni, þeirri sem er sama um allt, kynslóð sem kemst næst hreinum níhilisma. Eldri fulltrúar af minni kynslóð, sem m.a. mynduðu annað listasamlag, Smekkleysu, gengust t.d. upp í stanslausri kaldhæðni og tilfinningasemi lítt sjáanleg. Og þar á undan voru það hipparnir, sem ætluðu að umturna öllu, en hrukku svo flestir til baka í íhaldssamar skorður.

En nóg um það. Helsta framlag post-dreifingar til íslenskrar tónlistarmenningar hefur fyrst og fremst legið í virkni, að koma hlutum af stað og halda þeim á hreyfingu. Viðkvæðið „Gerum-það-saman“ („DIT“) er í heiðri haft, framþróun á „Gerðu-það-sjálfur“-spekinni („DIY“). Það sem hægt er að gera í krafti fjöldans hefur enda verið einkar sýnilegt. Fjöldi tónleika, útgáfna o.s.frv. í gegnum hinar ýmsu hljómsveitir og hugmyndafræði hópsins; hvort sem það er í pólitík, fagurfræðilegum áherslum eða öðru, litar alla starfsemina.

Nýjasta viðbótin er Post-húsið, rými úti á Skerjafirði sem nýtist sem tónleikastaður, æfingaaðstaða, skrifstofurými og almennt félagsheimili. Ég fór og tók aðeins út aðstöðuna fyrir forvitnisakir síðasta föstudag og leist vel á. Í gangi var spunahátíðin Disgalma Dreipatch, nokkurs konar samvinnuverkefni post-dreifingar, Discomfort Dispatch (spunahátíð sem haldin hefur verið víða um heim) og Agalma (spunatónleikar sem haldnir eru í Mengi). Uppleggið var að tveir listamenn kæmu saman á sviðinu og myndu spinna saman í tuttugu mínútur án undirbúnings. Mörg kunnugleg nöfn úr post-dreifingarsenunni tróðu upp ásamt fleirum.

Rýmið sjálft var þá hið glæsilegasta. Víðar til veggja en ég átti von á, sviðið stöndugt og bragurinn mátulega hryssingslegur. Eins og hann á að vera. Skurðstofublær og of mikil snyrtilegheit myndu drepa alla stemningu, tómt skrifborð þýðir að hausinn er líka tómur. Gamlir sófar, ryk úti í horni, samanklömbrun, þetta er málið.

Á sunnudaginn var ég svo kominn í áðurnefnt Mengi, tónlistar- og listarýmið á Óðinsgötu. Þar léku Supersport! og Ólafur Kram, nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna við hvurn sinn fingur. Áhersla var á kósíheit á sunnudegi og á myndvarpa rúlluðu kvikmyndirnar She‘s the man og Spiderman (fyrsta Toby Maguire-myndin, þarf eiginlega að horfa á hana aftur). Vöfflur voru í boði og áður en lagt var í eitt laga Supersport! fengu áhorfendur að vita hvernig best væri að bera sig að í bökun vegan-vaffla. Breyttir tímar.

Supersport! mun gefa út plötu í enda þessa mánaðar en smáskífan „Song for my friend, June“ kom út í júlí, ásamt laginu „Hring eftir hring“. Bæði voru lögin spiluð, í hálfgildings „órafmögnuðum“ stíl, og tókst sveitinni vel upp. Tónlist Supersport! er hreint og beint nýbylgjupopprokk, með vísunum í erlenda sem innlenda áhrifavalda. Á köflum var gefið í, rafgítarar fengu að æmta og skræmta og það verður forvitnilegt að tékka á breiðskífunni er hún kemur.

Ólafur Kram var örugg á sviði að vanda. Ég hef talsvert tjáð mig um mikilfengleika þessarar prýðissveitar að undanförnu og best að ég haldi því bara áfram. Mér finnst þessi hljómsveit algerlega frábær og, ég verð að segja það, mikilvæg. Þarna eru fjórar stúlkur í framlínunni sem biðjast ekki afsökunar á neinu, heldur hella yfir okkur gnótt af stórkostlega skemmtilegum og litríkum textum, samfara glúrnu neðanjarðarpoppi sem nær að slá saman Slits og Raincoats og kammerfíling Spilverksins. Geri aðrir betur! Það er hreint og beint upplífgandi að fylgjast með bandinu á sviði, það er svo mikil stemning, sköpun og gleði að það er smitandi.

Takk fyrir mig. X hitti Z. Er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: