Tilraunir Þórdís Gerður Jónsdóttir fer óhikað út á ókunnar lendur á Vistum.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. ágúst, 2021.

Sannfærandi samsláttur

Þórdís Gerður Jónsdóttir reynir sig við eins lags kammerdjass á stuttskífunni Vistir, hvar sellóið er gert að aðalhljóðfærinu í sambræðslu þriggja tónheima.

Þó að þessi plata hafi fyrst komið út núna í maí hefur meðgangan verið til muna lengri. Hún var tekin upp fyrir rúmum þremur árum, af Kjartani Kjartanssyni, og var efni hennar m.a. leikið á Jazzhátíð Reykjavíkur haustið 2018. Á plötunni leika þau Þórdís Gerður Jónsdóttir (selló), Andri Ólafsson (kontrabassi), Guðmundur Pétursson (gítar), Grímur Helgason (klarinett), Matthías MD Hemstock (slagverk), Steingrímur Karl Teague (píanó) og Ragnheiður Gröndal (söngur).

Á plötunni leitast Þórdís markvisst við að finna sellóinu stað í spuna og djassi, og með það að markmiði skrifaði hún ný verk, hvar útgangspunkturinn var aukinheldur sígild kammertónlist, en Þórdís hefur numið bæði djass og klassík. Þessi djarfa nálgun nær alla leið aftur til námsára hennar en þessi samsláttur allur var Þórdísi hugstæður í náminu við djassdeild Tónlistarskóla FÍH. Það þarf ekki að koma á óvart að aðalkennari hennar þar var Hilmar Jensson, gítarleikari og „könnuður“, svo ég setji þetta í glettið samhengi.

Öll lögin fimm eru eftir Þórdísi, utan „Melodie“, sem er ný útsetning Þórdísar á lagstúf úr óperunni Orfeus og Evridís (eftir Gluck). Platan opnar með „Skarð“, giska áleitin smíð og ansi margt í gangi. Það er indverskur blær yfir henni og hljómurinn, upptakan þ.e., er til algerrar fyrirmyndar. Hvert og eitt hljóðfæri er vel einangrað og dregið fram, án þess þó að þau séu á stangli. Heildarmyndin er góð á sama tíma. Gítar Guðmundar Péturssonar er frábær, flottar krúsídúllur sem tóna yfir framvindunni og slagverk Matthíasar lúmskt en þó natið. Það spilar enginn eins og Matthías. „Bíða, vona, bölva“ er næst og nú tekur maður eftir því hvernig þessir heimar renna saman og sundur. „Mjúkt malbik“ hefst þannig á tilraunakenndum nótum, hljóðfærin eins og villuráfandi – hvert í sínu horni – þar til sellóið ákveður að rúlla sér inn og binda framvinduna betur saman. „Melodie“ er þekkilegt, kunnuglegt stef sem undirbýr okkur fyrir tæplega átta mínútna lokalag. „Nótt“ er sungið kröftuglega af okkar bestu Ragnheiði Gröndal. Eftir temmilega kurteisan inngang er allt keyrt í botn; Guðmundur fer á kostum í hringlandi gítarspuna, bassi og hrynhljóðfæri styðja rækilega við á meðan allir hittast í hálfgerðri orgíu í blálokin. Það er ákefð hérna, ýtni og eitthvað sem ég kýs að kalla ljúfa kakófóníu. Við erum laus úr Vistarböndum, en er það gott?

Þórdís hefur verið æði virk í íslenskri tónlistarsenu síðustu ár og hefur leikið með t.d. sinfóníuhljómsveitinni, Elektra Ensemble, Caput, strengjasveitinni Spiccato og Umbru. Síðasta september flutti hún ásamt hljómsveit verk eftir Kurt Weill í eigin útsetningum, en hann samdi bæði djasstónlist og sígilda, nokkurs konar andlegur bróðir Þórdísar mætti því segja! Vistir er þá þriðja platan sem Þórdís kemur að í ár. Nýverið gaf kammerhópurinn Cauda Collective út plötu, hvar Þórdís er liðsmanneskja, en platan Adest Festum er ný útsetning og frjáls túlkun á elsta varðveitta nótnahandriti Íslands, Þorlákstíðum. Einnig tók hún ríkan þátt í Blóðhófni, hvar Umbra flytur tónlist Kristínar Þóru Haraldsdóttur við ljóðabálk Gerðar Kristnýjar en sú plata kom út í upphafi árs.

Þórdís býr um þessar mundir í Árósum hvar hún leggur stund á frekara sellónám undir handleiðslu Henrik Brendstrup. Það verður forvitnilegt að sjá og heyra hvað það mun hafa í för með sér.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: