torres

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. maí, 2015

Í vanmætti er styrkur

• Tónlistarkonan Torres gefur út aðra plötu sína, Sprinter
• Söngvaskáld úr suðrinu en gerir út frá Brooklyn

Torres, eða Mackenzie Scott eins og hún var skírð, ólst upp í Georgíu en dvaldi á unglingsárum í Nashville. Þessi höfuðborg kántrísins er eigi griðastaður fyrir nýbylgjumiðuð ungmenni og í raun þurfa slíkir tónlistarmenn að flytja þaðan, eigi þeir að eiga möguleika á því að vaxa eitthvað að ráði. Þetta á einnig við um kántrí-listamenn þar sem dirfast að sveigja formúluna á einhvern hátt (Jason & The Scorchers t.d.) og það er meira að segja til heil undirstefna sem varð til vegna þessa „ástands“, útlagakántríið (Waylon Jennings, Willie Nelson o.fl.)

Útlagi

Torres gerðist því útlagi og flutti sig til Brooklyn, nánar tiltekið til Bushwick sem er nýja „Williamsburg“ mætti segja. Allt að gerast þar og yfirskeggjaðir „hipsterar“ á hverju horni. Í viðtali við Guardian lýsir hún því hvernig það var að starfa í Nashville sem tónlistarmaður, það sem hún hafi viljað ná fram og koma út hafi einfaldlega passað illa í þau box sem fyrir eru. Þetta var fyrir tveimur árum en fyrsta plata hennar, samnefnd henni, kom út í ársbyrjun 2013 (og var tekin upp í heimahljóðveri Tony Joe White í Franklin). Platan vakti mikla athygli hjá tónlistarbiblíum, lögin og flutningurinn eru eins og það sé verið að koma við kvikuna á Torres, einlægt og tilfinningaþrungið og hittir mann í hjartastað. PJ Harvey kemur í hugann en einnig Sharon Van Etten en Torres gestasöng á síðustu plötu hennar, Are We There. Torres túraði þessa fyrstu plötu sína rækilega og hitaði m.a. upp fyrir Okkervil River, Etten og Hamilton Leithauser (The Walkmen).
Sprinter var tekin upp í Englandi af þeim Rob Ellis (PJ Harvey) og Adrian Utley (Portishead). Platan ber með sér opnari hljóðheim, eitthvað sem hún kallar „geimkúrekahljóm“. Fyrri platan var frekar strípuð og spennandi að heyra hvað sú aðkoma gerir fyrir lagasmíðarnar. Útlaga- og andstöðueðlið er nokkuð innbrennt í Torres. Uppvöxturinn í Georgíu fylgdi íhaldssömum, strangkristilegum áherslum og Torres vinnur nokkuð með þessi æskuár sín á Sprinter, veltir fyrir sér rangindum sem felast stundum í skipulögðum trúarbrögðum og þeim sálrænu áhrifum sem þau kunna að hafa haft á hana.

Ung

Í viðtalinu í Guardian sést hversu ung Torres er. Hún er 24 ára, á þessum snúningspunkti æskunnar, fullorðin en samt ekki og á þeim aldri líka þegar popparar gera sín meistaraverk (Dylan, Bítlar o.fl.). Það er þó hressandi að hún kveikir á því að gerviásýnd, að allt sé frábært, er ekki málið. Tímanna tákn mögulega, einkenni nýrrar, einlægrar kynslóðar sem setur allt upp á borð (er það y kynslóðin eða z kynslóðin?).
„Ég er hugfanginn af þeirri hugmynd að þú öðlist styrk með því að viðurkenna vanmátt og hræðslu,“ segir hún. „Fólk talar alltof sjaldan um þessa hluti. Ég hef ekki áhuga á að gefa þá mynd af mér að ég sé ósigrandi.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: