no other band 2

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. október, 2014

Vafasamir virðingarvottar?

• Öndvegisverk poppsögunnar oftar á dagskrá
• Á popp ekki að snúast um nýjabrum fremur en fornminjar?

Snemma á þessu ári lagði nokkurs konar neðanjarðarrokks-ofurgrúppa af stað í tónleikaferðalag, þar sem giska óþekkt plata eftir fyrrum Byrds-meðliminn Gene Clark var á efnisskránni. Verkefnið var að undirlagi þeirra Victoriu Legrand og Alex Scally úr hljómsveitinni Beach House en þau höfðu eins og fleiri fallið í stafi yfir No Other (1974), hinu vanrækta meistaraverki Clarks en vitneskja um náðargáfur hans á tónlistarsviðinu hefur aukist jafnt og þétt hin síðustu ár. Platan var spiluð í heild sinni á nokkrum tónleikum í janúar og svo aftur í haust og þeim Scally og Legrand til fulltingis voru m.a. Robin Pecknold (Fleet Foxes), Daniel Rossen (Grizzly Bear) og Hamilton Leithauser (Walkmen), allt fólk fætt löngu eftir að platan góða kom út.

Gripinn glóðvolgur

Ég er einstaklega hrifinn af þessu framtaki verð ég að segja; flutningurinn einkenndist af djúpstæðri virðingu fyrir efninu og hrein unun að fylgjast með honum (tónleikar sem fram fóru í New York eru í heild sinni á youtube). En á sama tíma fussa ég og sveia þegar plötur með Pink Floyd, Meat Loaf eða Jeff Buckley eru leiknar í heild sinni. Upp hefur því komist um mitt innra snobbhænsn og væri það þá ekki í fyrsta skipti. Ég þarf greinilega að athuga minn gang (og þess vegna er þessi sjálfshjálparpistill m.a. skrifaður). „Innra“ segi ég, því að yfirhöfuð er ég sæmilega fordómalaus og opinn en hænsnið er þarna sannarlega og hleypur um hauslaust þegar minnst varir.
Þannig að Meat Loaf er úti af því að ég fíla það ekki og finnst það hallærislegt, The Lamb Lies Down on Broadway er hins vegar inni af því að það vill svo til að ég fíla þá plötu og Melrakkar (íslensk sveit sem spilar Kill ´Em All með Metallica) er inni af því að þeir eru vinir mínir og þetta er hart rokk að mínu skapi. Nei, það er auðséð að svona viðhorf heldur ekki vatni og þó að ég myndi vissulega frekar kaupa miða til að sjá, segjum einhverja plötu Grams Parsons flutta í heild sinni fremur en frumburð Take That (bíddu … hugmynd?) er ljóst að þetta er alltaf sami hluturinn. Þ.e.a.s., það er ekkert sem segir að sömu heilindi, fagmennska og innlifun geti ekki fylgt þessu öllu saman. Þetta er einfaldlega fólk, úr öllum áttum, að flytja sígildar plötur eða tónlist sem því þykir vænt um. Eða hvað?

Mikil eftirspurn

Við skulum reyna að taka á þessu heildstætt. Þessi umdeildi bransi hefur líkast til aldrei verið fyrirferðarmeiri í tónlistarsögunni en nú og Simon Reynolds fjallar um þetta að hluta til í bók sinni Retromania þar sem hann leggur upp með þá kenningu að poppmenning í dag sé háð, og í raun með þráhyggju, gagnvart eigin fortíð (bendi einnig á hina ágætu Send in the Clones: A Cultural Study of the Tribute Band eftir Georginu Gregory). Smávegis rúllerí um Fésbókina leiddi t.a.m. í ljós að á Fróni verða Nirvana Unplugged heiðrunartónleikar haldnir í nóvember, Rumours með Fleetwood Mac verður heiðruð í enda þessa mánaðar (plata sem almenningur og „hipsterar“ eru sammála um, merkilegt nokk) og á morgun flytja Dúndurfréttir The Wall í heild sinni (og gerði hún slíkt í þrígang í vor og uppselt var á alla tónleikana). Eftirspurnin eftir svona tiltækjum er því mikil, hér sem erlendis, en einhverra hluta vegna er oft talað um þau á niðrandi hátt, sérstaklega af gagnrýnendum og sjálfskipuðum menningarvitum (hóst). Reynolds er t.d. á þeim nótum, meira og minna, á meðan Gregory reynir frekar að grafast fyrir um ástæður og varpa ljósi á fyrirbærið, án þess að setja sig í dómarasæti. Ég ætla að fylgja henni að málum í niðurlaginu.

Að apa eða skapa?

Ein af ástæðunum fyrir þessu er einfaldlega uppsafnaður tími og sú gnægð af efni sem hægt er að vinna með. Á dögum Presley og Bítla var verið að búa þessa tónlist til og enginn tími til að velta sér upp úr sígildum verkum, enda voru þau ekki orðin að veruleika. Eftir að Bítlarnir sýndu fram á að popp væri annað og meira en dægurflugur, og sú staðreynd að þeir sömdu og léku allt sitt efni sjálfir, varð það að einskonar viðmiði um hvernig gera ætti hlutina, þ.e. ef þú ætlaðir að láta taka þig alvarlega sem listamann. Að leika lög eftir aðra var orðið annars flokks. Og nú vil ég slá því fram, hér og nú, að svo einfalt geti þetta varla verið, og það er vissa sem ég öðlaðist eftir að ég greip sjálfan mig í bólinu eins og ég lýsi hér að framan. Þegar maður sér Robin Pecknold syngja þessi lög Clarks finnur maður fyrir listfenginu sem stýrir honum, hann er ekki að apa eftir öðrum sökum þess hversu hugmyndasnauður listamaður hann sé, öllu heldur er hann að vinna nokkurs konar þjóðþrifaverk, glæðandi stórfengleg lög lífi með ástríðuþrungnum flutningi. Það má svo alltaf deila um forsendur listamannanna sem standa í þessu, er það gróðavon eða tónlistarleg næring og fölskvalaus gleði sem stýrir þeim? Þær vangaveltur eru efni í önnur eins skrif. Ég býð a.m.k. snobbhænsninu góða nótt í bili og kaupi mér kannski miða á næstu Meat Loaf heiðrun. Kannski.

Tagged with:
 

2 Responses to Að heiðra eður ei: Clark, Meatloaf, Nirvana og allir hinir grallararnir

  1. Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir says:

    hahahah góð grein hjá snobbhænsni nokkru? Velti því einmitt oft fyrir mér hvort hugur og heili séu það sama og hvort hugurinn sé endilega í heilanum frekar en hjartanu eða lungum…

  2. Á meðan að fólk vill borga fyrir að sjá bönd kovera önnur bönd þá bara gerir það það, þetta er bara sveitaballið tekið inn í tuttuggustu og fyrstu öldina.
    Ég fæ hinsvagar grænar bólur núorðið þegar ég sé og heyri orðið "heiðurstónleikar". Hvern og hvað er verið að heiðra? Sveitaballaböndin sem tóku bara koverlög voru allavegana ekki að tala um það undir rós og kalla það eitthvað annað en það var

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: