Adda

Ég upplifði fyrstu tónlistarævintýri Öddu (Adda Ingólfsdóttir) þegar hún söng með hljómsveitinni Spúnk. Sú sveit gaf einmitt út deiliplötu með múm árið 1998, Stefnumót kafbátanna,  sem er eftirsótt af söfnurum (Já, ég á eintak. Nei, það er ekki til sölu).

En tilefni þessara skrifa er ekki að plötunördast heldur að vekja athygli á stuttskífunni My Brain sem hún gaf út fyrir stuttu. Síðunni barst vegleg fréttatilkynning vegna þessa og læt ég hana hérmeð um að tala:

“Adda er söngvaskáld sem hefur vakið athygli fyrir persónulega lagasmíð og innilega túlkun. Hún hóf tónlistarferilinn með raftónlistarhljómsveitunum Spúnk og Big Band Brútal og eftir dágóða pásu og nokkur ár af heimspeki og kynjafræði hóf hún að semja eigin lög á gítar. Platan er fyrsti afrakstur fjögurra ára af lagasmíðum, upptökum og spilamennsku.

Tónlist Öddu má kalla vögguvísur til að vakna við. Hún einkennist oft af möntrukenndum og tregafullum gítarleik, en röddin er björt og mjúk, laglínur melódískar og mildar en textar órólegir.

Platan inniheldur sex frumsamin lög sem samanstanda af gítarleik og söng Öddu, bakröddum Sunnu Ingólfsdóttur systur hennar, víóluleik Kristínar Þóru Haraldsdóttur og flautuleik Georgiu Brown. Allar grunnupptökur voru gerðar í einni töku, eins og um tónleika væri að ræða.

Gerð plötunnar var m.a. fjármögnuð með styrk frá Tónlistarsjóði en Adda stóð straum af framleiðslukostnaðinum með hópfjármögnun í gegnum fyrirtækið Karolinafund. Hún kynnti plötuna og fjármögnunina haustið 2013 með því að fara á puttanum í kringum landið og leika á heimatónleikum hjá vinum og vandamönnum. Hægt er að lesa um ferðina og skoða myndir á blogginu blogmybrain.tumblr.com.

Úlfhildur Eysteinsdóttir var upptökustjóri plötunnar. Platan var jafnframt mixuð af Úlfhildi í Stúdíó Killhill en masteruð af Alberti Finnbogasyni. Um hönnun á kápu sá Una Lorenzen.

MEIRA UM ÖDDU:

Arnþrúður Ingólfsdóttir, Adda, hóf sólóferil árið 2009 en hefur starfað á tónlistarsviðinu mun lengur og á fjölbreytta sögu. Hún hefur upplifað (og lifað af) kvíðafullt en gefandi 13 ára klassískt píanónám, óbærilegt en magnað nám í raftónlist í Hollandi, eftirminnilegan vetur sem tónlistarkennari á Hallormsstað og tvo vetur sem ákafur meðlimur raftónlistarhljómsveitanna Spúnk og Big Band Brútal. Þær hljómsveitir gáfu út nokkur lög hvor, önnur á 10 tommu vínyl með múm og hin á safndiski hjá Tilraunaeldhúsinu.    

Adda hefur upp á síðkastið víkkað áheyrendahóp sinn jafnt og þétt og meðal annars komið fram á kaffihúsum, grasrótartónleikum innan hinsegin- og femínistasenunnar, í Ríkisútvarpinu, á heilsuhælinu í Hveragerði, á verðlaunaafhendingum og á fjölmörgum off-venue stöðum á Airwaves.

Textar Öddu eru það sem einn hlustandi kallaði „geðvefjafræðilegir“ og fjalla oft um reynslu af andlegum átökum og sambandinu milli hugar og líkama, um áráttur, þráhyggjur og fantasíur. Tónlist hennar hefur fengið fólk til að hugsa til Damien Rice, Joni Mitchell, Diane Cluck og José Gonzales.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: