beck 2

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. febrúar, 2014]

Dimmu í dagsljós…

• Beck gefur út plötuna Morning Phase
• Fyrsta breiðskífan síðan Modern Guilt kom út árið 2008

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í rök fyrir því hér, hvers vegna Beck er einn helsti höfuðsnillingur popptónlistarinnar í dag. Ég hef einfaldlega ekki pláss, ég ætla að rita smávegis um nýju plötuna hans, Morning Phase, en heil sex ár eru liðin frá þeirri síðustu. En ég segi samt þetta: Fáir listamenn, fyrir utan mögulega Bítlana á sínum tíma, hafa komist upp með jafn mikla sýru og furðulegheit innan hins hefðbundna tónlistarheims og Beck. Fyrsta plata hans, Mellow Gold, var gefin út af stórfyrirtæki, seldist í milljónum og var spiluð linnulítið í útvarpi en innihaldið var meira og minna stórfurðulegt; popprokk sem sveigðist og beygðist í óvæntar áttir frá fyrsta lagi til hins síðasta. Beck var eins og Trójuhestur. Ferill hans hefur verið á þessa lund allar götur síðan, hann hefur gert það sem hann lystir en haldið í almennar vinsældir um leið með furðanlegum hætti. Já, þetta er allt saman stórfurðulegt!

Óvirkur og þó…

Spólum áfram. Danger Mouse sneri tökkum á Modern Guilt sem er köld og línuleg; með óvenjumyrkum hljóm en fyrst og fremst óvenjulega venjuleg. Eftir þá plötu dró Beck sig í hlé, a.m.k. frá því að vera í sviðsljósinu sem „Beck“ og fékk útrás fyrir listina sem baktjaldamaður. Einstaklega virkur baktjaldamaður reyndar og öllu kom hann í verk samhliða mænusótt eða -veiki sem var ekki upplýst um fyrr en nú. Hann tók t.d. að sér upptökustjórn fyrir listamenn eins og Charlotte Gainsbourg, Thurston Moore og Stephen Malkmus og setti einnig upp Plötuklúbbinn svokallaða eða Record Club þar sem hann í samstarfi við valda tónlistarmenn rúllar í gegnum heilar plötur á einum degi og liggja fyrir skringilegar útgáfur af plötum eins og Kick með INXS, The Velvet Underground and Nico og Yanni Live at the Acropolis. Árið 2012 kom svo Song Reader út, nótnahefti með tuttugu nýju lögum. Framtakið þótti sérstakt en slík hefti voru helsta form tónlistarútgáfu á fyrri hluta aldarinnar áður en föst upptökuform eins og hljómplötur hófu að festa sig í sessi.
Beck lýsir því opinberlega að nýja platan, Morning Phase, tengist plötunni Sea Change (2002) sterkum böndum en þar er að finna gullfallegt, kammerskotið og einkar melódískt ljúflingspopp og þykir sú plata með best heppnuðu verkum þessa Ugluspegils. Margir þeirra sem tóku þátt í þeim upptökum taka þá einnig þátt í Morning Phase. Beck hefur jafnframt sagt að hljómur Kaliforníu sé yfir um og allt í kring og vísar hann þá í hinn blíða, hippíska, kántrí- og þjóðlagaskotna hljóm sem Crosby, Stills, Nash & Young, Joni Mitchell, Gram Parsons og fleiri voru að vinna með í upphafi áttunda áratugarins. Þessi hljómur, stundum kenndur við Laurel gilið (Laurel Canyon) hefur reyndar verið að ganga í endurnýjun lífdaga að undanförnu fyrir tilstilli manna eins og Jonathan Wilson og sveita eins og Fleet Foxes.

Málamiðlanir

Merki um að listamaðurinn Beck væri að gera sig reiðubúinn til að stíga fram fyrir tjöldin á nýjan leik sáust fyrst í formi stakra laga sem hann gaf út á tólftommum árið 2012 og 2013. Þessi lög ku vera frá upptökum sem voru gerðar árið 2009 og það kann að vera að sú lota komi eingöngu út í formi stakra laga. Lögin eru til muna sýrðari en þau sem prýða Morning Phase en tilkynnt var um hana síðasta sumar og jafnframt sagt að Beck myndi gefa út tvær ólíkar plötur í ár.
Fræjum var sáð fyrir Morning Phase fyrir heilum níu árum, en 2005 tók Beck upp í Nashville. Hann var aftur á móti ekki ánægður með afraksturinn og setti hann því til hliðar. Hann sneri svo aftur til höfuðborgar kántrísins árið 2012 og tók upp nokkur lög í hljóðveri Third Man Records sem er í eigu annars snillings, Jack White. Nokkur laganna frá þessari upptökulotu höfnuðu á Morning Phase. Hann tók svo upp restina af plötunni í Los Angeles í upphafi ársins 2013 með hinum traustu samstarfsmönnum sem unnu og með honum að Sea Change og lá svo einn og sjálfur yfir afrakstrinum í hálft ár. Faðir hans lagði þá til strengjaútsetningar líkt og hann gerði á Sea Change. Beck hefur gefið fjölda viðtala síðustu vikur vegna plötunnar og það er greinilegt að hann er að rísa upp úr einhvers konar dvala, þó að hann sé hæfilega dulur með það hvað hafi nákvæmlega verið í gangi. Hvort að það hafi bara verið áðurnefndir líkamlegir verkir, andlegur doði tengdur því eða jafnvel „skrifkrampinn“ frægi („writer’s block“). Viðkvæmni og óöryggi sem maður myndi seint tengja við þennan dreng liggur undir orðræðunni í þessum viðtölum og hann segir t.d. að hann hafi ekki verið viss hvort eða hvernig hann ætti að gera plötu og í nýlegu viðtali við Billboard talar hann um hversu lítið sjálfstraust hann hafi!? Í þessu Billboard-viðtali, sem hægt er að nálgast á netinu, lýsir hann reyndar sköpunarferli vel og er kirfilega niðri á jörðinni með það, þó að hugur hans fari svo sannarlega með himinskautum:„Hugmyndin er alltaf rómantísk. En að gera svo hlutina er ekki svo rómantískt. Sköpunarferlið er óþægilegt og þetta er alltaf málamiðlun í restina. Hluturinn verður aldrei nákvæmlega sá sem þú vildir í upphafi. Og þess vegna heldur maður áfram…“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: