marissa nadler

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. febrúar, 2014]

Djúpt inni í skóginum

• Marissa Nadler spinnur upp dúnmjúkar, biksvartar stemmur
• „Hin gotneska Ameríka“ liggur til grundvallar nú sem áður

Stundum þurfa listamenn að þreyja þorrann svo um munar, halda áfram af elju þó að stöðugt blási á móti. Þrátt fyrir að gæðaverkin komi út í hrönnum er stundum eins og hending ráði því hverjum er kastað í sviðsljósið og hverjum ekki. Af hverju stendur Lorde þar nú t.d. en ekki viðfang þessarar greinar?

Þungavigtarrit

Marissa Nadler ýtti ekki úr vör í gær og hefur verið að gefa út plötur í tíu ár. July, nýjasta breiðskífan, er sú sjötta en hún kom út í þessum mánuði. Auk þessa hefur hún gefið út nokkrar stuttskífur og 2010 lagði hún t.d. svartþungarokksverkefninu Xasthur til rödd sína á lokaplötu þess, Portal of Sorrow. Xasthur var býsna þekkt í hinni gróskumiklu svartþungarokkssenu sem nú þrífst í Bandaríkjunum og vinna Nadler á plötunni gerði sitthvað í að dýpka á hinni mjög svo dulrænu áru sem hafði leikið um hana upp að því. Skuggabundnir alþýðusöngvar hennar voru greinilega ekki bara „gotneskir“ heldur dufluðu greinilega við eitthvað miklu svartara og ískyggilegra.
Nadler fæddist í Massachussets en býr og starfar í Boston. Hún átti „listrænt“ uppeldi og lagði fyrir sig myndlist í upphafi. Meðfram því lærði hún á gítar og beitir svofelldu fingraplokki. Fyrsta platan, Ballads of Living and Dying, kom út 2004 og The Saga of Mayflower May kom út ári síðar. Þriðja platan, Songs III: Bird on the Water (2007) vakti þónokkra athygli, m.a. vann hún til tónlistarverðlauna kenndra við heimaborgina Boston fyrir þá plötu. Fjórða platan, Little Hells (2009), var síðan mærð í bak og fyrir af ýmsum þungavigtarritum.

Flekklaus

En þrátt fyrir lofið sneri útgáfufyrirtæki hennar við henni baki og næsta plata, samnefnd henni (2011), var að fullu fjármögnuð af Nader sjálfri í gegnum Kickstarter-hópfjármögnunarsíðuna. Gæfan snerist fljótlega henni í vil eftir það, þar sem útgáfufyrirtækið Sacred Bones Records í Brooklyn gerði við hana samning í fyrra. Fyrirtæki þetta er á mikilli siglingu um þessar mundir og hefur gefið út plötur með listamönnum á borð við Zolu Jesus, David Lynch, Gary War og Woods. Þá gefur Bella Union út í Bretlandi. Það er hægt að nefna gæfu í þessu tilfelli en um leið var ekki hægt að líta framhjá svo gott sem flekklausum ferli Nadler, allar plöturnar eru gæðagripir en segja má að list Nadler hafi stokkið alsköpuð úr höfði Seifs.
Líkt og með Xasthur er einkar forvitnilegt – og tilkomumikið – að sjá listann yfir samverkamenn á plötunni nýju. Upptökustjórnandi var Randall Dunn en hann hefur unnið með jaðarþungarokkurum á borð við Earth, Wolves in the Throne Room og Sunn O))). Eyvind okkar Kang sá þá um strengi en Kang, sem er af íslenskum ættum, hefur m.a. unnið með Skúla Sverrissyni og Hilmari Jenssyni. Aðrir hljóðfæraleikarar eru t.d. Steve Moore og Jonas Haskins (Earth) og Phil Wandscher (Jesse Sykes, Whiskeytown). Með tónlistinni er höggvið í sama kunnuglega kolsvarta knérunninn. Gæðin tilfinnanleg að vanda og tilkoma áðurnefndra samreiðarmanna hjúpar plötuna dulmagni og ljúfsáru myrkri sem aldrei fyrr. Auðvitað vill maður trúa því að elja Nadler og sannanlegir hæfileikar muni skila henni meiri farsæld að lokum. En réttlætið á ekki alltaf upp á pallborðið í viðsjárverðum heimi tónlistarinnar sosum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: