bob dylan

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. janúar, 2015

Bláu augun þín

• Bob Dylan syngur lög Franks Sinatra á nýrri plötu
• Hugmynd sem kviknaði seint á áttunda áratugnum

Merkileg þessi þráhyggja sem maður er búinn að þróa með sér í garð Bobs Dylans á gamals aldri. Eru þetta örlög allra poppfræðinga? Að liggja yfir endalausum greinum um Basement Tapes og vera í alvörunni spenntur yfir því þegar meistarinn tilkynnir að hann ætli að gefa út plötu þar sem hann syngur lög sem Frank Sinatra gerði fræg? Hmmm …greinilega…

Hvað ungur nemur…

Dylan gefur aðeins eitt viðtal vegna plötunnar og það er við bandaríska tímaritið AARP, sem hefur öldrun að umfangsefni (blaðið var áður kallað American Association of Retired Persons) og er lesendahópurinn miðaður við fimmtíu ára og eldri. Það er eitthvað einstaklega „dylanískt“ við þetta og maður sér hann fyrir sér, glotta hressilega við tönn, á meðan ritstjórar tónlistarblaðanna reyta hár sitt. En viðtalið er sérlega gott (stutta útgáfu má nálgast á aarp.org) og hljóðið í meistaranum er gott. Mildilegur sáttartónn og viska leikur um textann; engir stælar eður hortugheit eins og hann átti einatt til í eina tíð. Plötuna nýju, Shadows in the Night, segist hann hafa gengið með í maganum síðan hann heyrði Stardust-plötu Willie Nelsons árið 1978. Á opinberri vefsíðu Dylans lætur hann hafa þetta eftir sér: „Mig skorti alltaf þorið, að taka stórsveitarútgáfur og sjóða þær niður fyrir fimm manna hljómsveit. En loksins lét ég verða af því. Við spiluðum þetta beint inn, ein til tvær tökur. Ég lít ekki svo á að sé að breiða yfir þessi lög. Nóg er af slíku og það er eiginlega búið að koma þeim í gröfina þannig séð. Ég lít svo á að við séum að dýrka lögin upp og færa þau inn í dagsljósið.“

…gamall temur

Í AARP-viðtalinu talar Dylan um að Sinatra sé ósnertanlegur, hann sé „fjallið sem allir vilji klífa“. Hann talar lengi vel um tónlistarlegan uppvöxt sinn og það er klárt að Dylan er „nörd“ þegar kemur að tónlist. Hann þekkir „amerísku söngbókina“ eins og tónlistararfleifð Ameríku er stundum kölluð inn og út. Dylan er spurður út í það er hann hvarf af sjónarsviðinu til að einbeita sér að fjölskyldunni og hann er nánast óþægilega hreinskilinn hvað það varðar. „Ég fórnaði listinni fyrir fjölskylduna en það var ekkert annað sem kom til greina,“ segir hann. „En það var mjög sárt.“ Hann fer meira að segja út í eilífðarspurningar, um hamingjuna t.a.m. og tekur búddíska afstöðu: „Á meðan þjáning er staðreynd, þá er bara svo og svo mikið af hamingjunni. Við snertum öll á henni en hún rennur um greipar þér eins og vatn.“
Já, vísdómurinn rúllar úr Dylan, frjálslega eins og skoppandi steinvölur. Hann hefur þá litlar áhyggjur af því að unga fólkið taki ekki vel í þessar Sinatra-æfingar, hér sé um að ræða sígild lög sem eigi við jafn vel í dag og þá. „Ástríða er eitthvað fyrir unga fólkið,“ segir sá vitri að lokum. „Eldra fólk þarf að geta boðið upp á visku. Þú ferðast um jörðina í smátíma og þú skilur eitthvað eftir handa þeim yngri. Ekki reyna að haga þér eins og unglamb. Þú gætir farið þér að voða við slíkt.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: